Önnur hús
Sjávarslóð
Eigandi:
Hafþór Hafsteinsson
Um húsið:
Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.
Krákuvör
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt 1970 af Jóhannesi Gíslasyni úr Skáleyjum og þáverandi konu hans, Svanhildi Jónsdóttir sem nú er bóndi í Flatey og býr í Krákuvör ásamt Magnúsi Arnari Jónssyni. Helstu smiðir af húsinu eru þeir bræður Jóhannesar, Ólafur og Eysteinn Gíslasynir ásamt Birni Guðmundssyni.
Grænigarður
Eigandi:
Helgi Haraldsson og Halla Dís Hallfreðsdóttir
Um húsið:
Byggt 1950 af Ólafi Ólafssyni frá Hallsteinsnesi í Gufudalshreppi og hét því í fyrstu Ólahús. Grænigarður var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var innan skipulags byggðar er rísa skyldi samkvæmt stórhuga ráðum um atvinnuuppbyggingu um miðbik síðustu aldar. Húsið var um tíma í eigu Flateyjarhrepps og helstu íbúar voru Gestur Jónsson og fjölskylda, Nikulás Jensson og fjölskylda, Pétur Gissurason og fjölskylda sem þá var skipstjóri á Konráði, Hrönn Hafsteinsdóttir og um tíma átti Tryggvi Gunnarsson húsið.
Myllustaðir
Eigandi:
Ingólfur og Bjarni Karlssynir, Guðmundur Stefánsson, Jón Þórður Jónsson og Hilmar Björnsson
Um húsið:
Byggt 2000 af Pétri Kúld Ingólfssyni húsasmíðameistara og fleiri laghentum eigendum Myllustaða. Á þessum slóðum stóð litlu austar svartklætt timburhús er kallað var Myllustaðir en þar bjuggu þær Kristín Jónsdóttir og Einara móðir Árelíusar Nielssonar prests síðustu æviár sín. Áður bjó þar m.a. Magnús malari sem malaði korn í myllu Guðmundar Schevings kaupmanns sem stóð á Myllumó þar sem nú stendur húsið Sólheimar.
Bátaskýlið
Eigandi:
Teinæringsvogsfélagið og Magnús Jónsson
Um húsið:
Byggt 1993 af Teinæringsvogsfélaginu sem er sameignarfélag fjölmargra bátaeigenda í Flatey og var Gestur Karl í Sólheimum meistari að húsinu.
Bjarg (Jóhannesarhús, Jakobshús, Bókasafnið)
Eigandi:
Skáleyingarnir Þorgeir, Gísli og Einar Kári Kristóferssynir ásamt Ólafi Gíslasyni
Um húsið:
Byggt af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra árið 1897. Jóhannes fæddist í Bjarneyjum 1868 en var skipstjóri í Flatey til fjölda ára. Fluttist til Reykjavíkur og byggði hús við Skólavörðustíginn og nefndi Bjarg. Húsið var endurbyggð frá grunni 2000.
Byggt 1897 af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra úr Bjarneyjum en hann bjó hér aðeins fáein ár í byrjun og var það leigt Oddi Jónssyni lækni sem Flateyingar komu síðan af sér vegna drykkjuskapar hans aldamótaárið 1900 er hann fór að Miðhúsum í Reykhólalæknishéraði. Jóhannes flutti þá aftur í húsið og bjó þar er hann flutti frá Flatey 1907. Sama ár keypti Jakob Þorsteinsson verslunarmaður húsið og var það þá nefnt Jakobshús og bjó Jakob þar til dánardægurs 1935. Ekkja Jakobs var Kristín Jónsdóttir (1858-1946) ”ljósa” en hún var ljósmóðir í Flatey og bjó hún áfram í húsinu þar til hún dó 1946. Húsið var notað sem íbúðarhús fram á sjötta áratuginn. Erfingjar Kristínar gáfu húsið Bókasafninu í Flatey og hýsti það safnið frá 1954 til 1992. Þar réð ríkjum Sigríður Bogadóttir (Sigga Boga). Starf hennar sem bókavarðar var allt þar. Eftir að hún lét af störfum var safngæslan mjög laus í böndum um árabil. Húsið var að hrörna og eyðileggjast. Safninu var bjargað þaðan árið 1992 og sett í kassa og flutt að Reykhólum til geymslu. Áður eða 1968 var fágætasti hluti safnsins fluttur á Landsbókasafn til geymslu. Í þessum geymslum er safnið enn. Húsið komst í eigu Reykhólahrepps við sameiningu sveitarfélaga 1987. Það var endurbyggt frá grunni árið 2000 í umboði eiganda.
Skólahúsið
Eigandi:
A-hluti, Þorsteinn Baldvinsson / V-hluti Heimir Sigurðsson, Gróa Þóra Pétursdóttir.
Um húsið:
Skólahús var byggt í Flatey 1909 eftir teikningum Rögnvalds Ólassonar arkitekts og var það Jón Jónsson snikkari sem sá um verkið. Samkvæmt teikningum Rögnvalds átti að hlaða húsið úr steyptum steini en í þess stað var það steypt án mikilla járnbindinga - að öðru leiti var teikningum Rögnvalds fylgt eftir. Í skólanum voru tvær kennslustofur og var kennt í skólanum fram yfir 1950. Byggðir voru nokkrir skólar út um land eftir sömu teikningu. Skólinn var rifinn af grunni 1992.
Nýtt hús var byggt 2006-2007 og var reynt að fylgja yfirbragði gamla skólans eins og hægt var m.a. eru gluggar á suðurhlið og hurð á gafli eftir teikningum Rögnvalds. Í húsinu eru nú tvær íbúðir.
Straumur – Rarik
Eigandi:
Starfsmannafélag RARIK
Um húsið:
Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.