VELKOMIN

Framfarafélag Flateyjar

Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.

Fréttir

Myndbönd frá Flatey

Húsin í Flatey

Loka

Vorsalir (Sölubúðin, Kaupfélagið)

Eigandi: Ingunn Jakobsdóttir Um húsið: Byggt 1885 og hönnuður ókunnur en ýmislegt bendir til að það hafi verið flutt tilsniðið til landsins. Húsið var byggt sem verslunar- og vörugeymsluhús og í því rak Björn Sigurðsson verslun ásamt dönskum kaupsýslumönnum sem stofnuðu með honum árið 1898 stórt útgerðar- og verslunarfyrirtæki, Islandsk Handel og Fiskeri Co. (IHF). Síðar tók Guðmundur Bergsteinsson í Ásgarði við húsinu og rak þar verslun uns Kaupfélag Flateyjar eignaðist húsið eftir að Guðmundur varð að draga úr umsvifum sínum 1922. Upphaflega var húsið kallað Sölubúðin en Kaupfélagið á meðan Kaupfélag Flateyjar rak verslun í húsinu um áratuga skeið fram til um 1958. Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, náttúrufræðingur, rithöfundur og ljósmyndari eignaðist Vorsali 1973. Næsta áratug eða svo var unnið að viðgerð hússins og því breytt í íbúðarhús. Verslunarinnrétting á jarðhæð í vesturenda hússins hefur þó verið varðveitt að mestu og húsið heldur upprunalegu útliti.
Loka

Bókhlaða

Eigandi: Reykhólahreppur Um húsið: Byggð 1864 af Flateyjarframfarastiftun sem stofnað var 1833 af Ólafi Sívertsen prófasti og konu hans Jóhönnu Friðriku Eyjólfsdóttir. Bókhlaðan er elsta bókhlaða landsins. Þegar Flateyjarkirkja var byggð 1926 var bókhlaðan flutt innar á Bókhúsaflöt á þann stað sem hún stendur í dag. Húsið var friðað 1975 en endurbyggt 1979-1988 í sinni upprunalegu mynd af Minjavernd. Bókhlaðan hýsti til langs tíma hið merkilega bókasafn Flateyjar sem nú að stórum hluta hefur verið komið til Landsbókasafnsins en í dag er eingöngu lítill hluti þessa merkilega bókasafns, aðallega bækur fræðilegs eðlis geymdar í Bókhlöðinni. Bókasafnið í Flatey var afkvæmi Flateyjarframfarastifnunarbréflegafélagsins á 19. öld. Bókhlaðan var byggð 1864 af nýjum efniviði, vönduð að smíði og mjög rúmgóð. Hús þetta kostaði 558 ríkisdali og átti stofnunin 195 ríkisdali upp í kostnaðinn en mismuninn lagði Brynjólfur Benedictsen ýmist sem lán eða gjöf. Síðasti safnvörður í Bókhlöðunni gömlu var Magnús Benjamínsson. Umsjónamaður hússins eftir viðgerð Minjaverndar er Ingunn Jakobsdóttir.
Loka

Vertshús-austur

Eigandi: Sigríður, Örn, Atli og Hrönn Sturlubörn, Herdís Jónsdóttir
Loka

Ásgarður

Eigandi: Afkomendur Guðmundar Bergsteinssonar og Jónínu Eyjólfsdóttur Um húsið: Byggt 1907 fyrir Guðmund Bergsteinsson kaupmann sem íbúðar- og verslunarhús. Guðmundur tók við verslun tengdaföður síns Eyjólfs Einars Jóhannssonar 1900, keypti Gamlhús, þá 130 ára gamals hús og reif niður en byggði Ásgarð á grunni þess. Rak umfangsmikla verslun og útgerð í Flatey í fjölmörg ár. Ásgarður var bæði íbúðar- og verslunarhús og Guðmundur og kona hans, Jónína Eyjólfsdóttir, versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960. Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins. Meðal afkomenda þeirra eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.
Loka

Skólahúsið

Eigandi: A-hluti, Þorsteinn Baldvinsson / V-hluti Heimir Sigurðsson, Gróa Þóra Pétursdóttir. Um húsið: Skólahús var byggt í Flatey 1909 eftir teikningum Rögnvalds Ólassonar arkitekts og var það Jón Jónsson snikkari sem sá um verkið. Samkvæmt teikningum Rögnvalds átti að hlaða húsið úr steyptum steini en í þess stað var það steypt án mikilla járnbindinga - að öðru leiti var teikningum Rögnvalds fylgt eftir. Í skólanum voru tvær kennslustofur og var kennt í skólanum fram yfir 1950. Byggðir voru nokkrir skólar út um land eftir sömu teikningu. Skólinn var rifinn af grunni 1992. Nýtt hús var byggt 2006-2007 og var reynt að fylgja yfirbragði gamla skólans eins og hægt var m.a. eru gluggar á suðurhlið og hurð á gafli eftir teikningum Rögnvalds. Í húsinu eru nú tvær íbúðir.
Loka

Berg (Hafliðahús)

Eigandi: Bjarni H. Sigurjónsson Um húsið: Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.
Loka

Sjávarslóð

Eigandi: Hafþór Hafsteinsson Um húsið: Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.
Loka

Bræðraminni

Eigandi: Félagið Bræðraminni í Flatey Um húsið: Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum. Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar. Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað. Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.
Loka

Byggðarendi

Eigandi: Guðrún M Ársælsdóttir og Baldur Ragnarsson Um húsið: Byggt 1950 af Jóhanni Kristjánssyni fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð skipstjóri á flóabátnum Konráði BA. Kona hans var Kristín Ágústsdóttir úr Gufudalssveit. Þau bjuggu í Byggðarenda frá 1952-1962 er þau flytja á Akranes. Um nokkurn tíma var barnaskóli í húsinu. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið og nokkra vetur var rekinn í því barnaskóli. Helstu íbúar þess síðan voru Gunnar Jónsson og Aðalheiður Sigurðardóttir, Einir Guðmundsson og Marsibil Guðmundsdóttir, Jóhannes Geir Gíslason og Svanhildur Jónsdóttir, Árni Sigmundsson og Þórdís Una Gunnarsdóttir og Magnús Magnússon og Hrönn Hafsteinsdóttir.
Loka

Ráðagerði

Eigandi: Félag starfsmanna stjórnarráðsins Um húsið: Byggt 1976-1980 sem félags- og sumarbústaður fyrir starfsmenn stjórnarráðsins.