VELKOMIN

Framfarafélag Flateyjar

Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.

Fréttir

Myndbönd frá Flatey

Húsin í Flatey

Loka

Vogur (Nýjahús, Jónshús, Jakobshús, Prestshús)

Eigandi: Aðalheiður Sigurðardóttir og Guðmundur Lárusson Um húsið: Byggt 1885 af Jóni Guðmundssyni kaupmanni.Byggingarár: 1885. Hönnuður er ókunnur en trúlega er húisð innflutt frá Noregi. Jón var fæddur á Mýrum í Dýrafirði en kom til Flateyjar 1870 sem verslunarfélagi Bents kaupmanns Jónssonar. Húsið við Grýluvog hét í fyrstu Nýjahús síðan Jónshús, Vogshús og nú síðast Vogur en það var bústaður margra presta í Flatey s.s. sr. Sigurðar Haukdals, faðir Eggerts alþingismanns á Bergþórshvoli, fæddur í Flatey árið 1933. Í fjöldamörg ár var rekið gisti- og veitingahús í Vogi á sumrin. Húsið hefur mjög komið við sögu kvikmynda í Flatey t.d “Ungfrúin góða og Húsið” sem Guðrún Halldórsdóttir Laxness leikstýrði og “Brúðguminn” sem Baltasar Kormákur leikstýrði.
Loka

Vorsalir (Sölubúðin, Kaupfélagið)

Eigandi: Ingunn Jakobsdóttir Um húsið: Byggt 1885 og hönnuður ókunnur en ýmislegt bendir til að það hafi verið flutt tilsniðið til landsins. Húsið var byggt sem verslunar- og vörugeymsluhús og í því rak Björn Sigurðsson verslun ásamt dönskum kaupsýslumönnum sem stofnuðu með honum árið 1898 stórt útgerðar- og verslunarfyrirtæki, Islandsk Handel og Fiskeri Co. (IHF). Síðar tók Guðmundur Bergsteinsson í Ásgarði við húsinu og rak þar verslun uns Kaupfélag Flateyjar eignaðist húsið eftir að Guðmundur varð að draga úr umsvifum sínum 1922. Upphaflega var húsið kallað Sölubúðin en Kaupfélagið á meðan Kaupfélag Flateyjar rak verslun í húsinu um áratuga skeið fram til um 1958. Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, náttúrufræðingur, rithöfundur og ljósmyndari eignaðist Vorsali 1973. Næsta áratug eða svo var unnið að viðgerð hússins og því breytt í íbúðarhús. Verslunarinnrétting á jarðhæð í vesturenda hússins hefur þó verið varðveitt að mestu og húsið heldur upprunalegu útliti.
Loka

Hafliðaskemma, Galdraskemma

Eigandi: Bjarni H. Sigurjónsson Um húsið: Byggð um 1946 af Gesti Vilmundi Gíslasyni bónda í Svefneyjum og síðar í Flatey og bjó þá í Bogahúsi I. Skemman var byggð sem smíðaskemma og seinna kennd við Hafliða Arnberg Árnason . Hún var fyrst nefnd Galdraskemma af störfum Gests og hugsanlega einnig Sigurjóns Árnasonar, sem mikið starfaði með honum. Skemman er í dag smíðaverkstæði og bátaskýli fyrir súðbyrðinginn Hring sem smíðaður var 1953 eða 1954 af Sigurjóni Árnasyni og Árna Einarssyni. Árni keypti húsið af dánarbúi Gests.
Loka

Skólahúsið

Eigandi: A-hluti, Þorsteinn Baldvinsson / V-hluti Heimir Sigurðsson, Gróa Þóra Pétursdóttir. Um húsið: Skólahús var byggt í Flatey 1909 eftir teikningum Rögnvalds Ólassonar arkitekts og var það Jón Jónsson snikkari sem sá um verkið. Samkvæmt teikningum Rögnvalds átti að hlaða húsið úr steyptum steini en í þess stað var það steypt án mikilla járnbindinga - að öðru leiti var teikningum Rögnvalds fylgt eftir. Í skólanum voru tvær kennslustofur og var kennt í skólanum fram yfir 1950. Byggðir voru nokkrir skólar út um land eftir sömu teikningu. Skólinn var rifinn af grunni 1992. Nýtt hús var byggt 2006-2007 og var reynt að fylgja yfirbragði gamla skólans eins og hægt var m.a. eru gluggar á suðurhlið og hurð á gafli eftir teikningum Rögnvalds. Í húsinu eru nú tvær íbúðir.
Loka

Skansinn

Eigandi: GPÓ ehf. / Ingunn Jakobsdóttir Um húsið: Hús þetta var byggt í þremur áföngum; miðhluti hússins, sláturhús er byggt 1924-1925, suðurendi er hjallur endurbyggður 2002 og norðurendi er bátaskýli og vinnustofa endurbyggður árið 2002. Þak á sláturhúsi var lagt torfi árið 1987. Kaupfélag Flateyjar lét um 1950 byggja bifreiðageymslu fyrir tvo vörubíla við norðurenda sláturhússins en hún var rifin 2002.
Loka

Straumur – Rarik

Eigandi: Starfsmannafélag RARIK Um húsið: Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.
Loka

Sunnuhvoll

Eigandi: Baldur Þorleifsson og Gyða Steinsdóttir Um húsið: Byggt 2005 af Baldri Þorleifssyni trésmíðameistara og konu hans Gyðu Steinsdóttir. Á Brekku, sunnan við húsaþyrpinguna við Holustíg, stóð torfbærinn Brekkubær. Jón Jónsson snikkari byggði þar timburhús árið 1928 og nefndi Sunnuhvol. Það hús var rifið upp úr 1970.
Loka

Grænigarður

Eigandi: Helgi Haraldsson og Halla Dís Hallfreðsdóttir Um húsið: Byggt 1950 af Ólafi Ólafssyni frá Hallsteinsnesi í Gufudalshreppi og hét því í fyrstu Ólahús. Grænigarður var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var innan skipulags byggðar er rísa skyldi samkvæmt stórhuga ráðum um atvinnuuppbyggingu um miðbik síðustu aldar. Húsið var um tíma í eigu Flateyjarhrepps og helstu íbúar voru Gestur Jónsson og fjölskylda, Nikulás Jensson og fjölskylda, Pétur Gissurason og fjölskylda sem þá var skipstjóri á Konráði, Hrönn Hafsteinsdóttir og um tíma átti Tryggvi Gunnarsson húsið.
Loka

Alheimur

Eigandi: Guðjón, Margrét og Erla Sigurbergsbörn Um húsið: Húsið var byggt 1922 og var hönnuður Sigurður Jóhannsson. Árið 1838 byggði Ólafur Jónsson skipstjóri og beykir torfbæ á þessum stað og sem nefndur var Alheimur. Bergþór Einarsson sjómaður fékk Sigurð Jóhannsson til að smíða timburhús í stað torfbæjarins árið 1922 og bjó þar með konu sinni Ingibjörgu Jónsdóttur. Húsið var um tíma nefnt Berþórshvoll en nafnið Alheimur var tekið upp aftur. Eftir þau bjó þar Sveinbjörn Pétur Guðmundsson kennari og fræðimaður frá Skáleyjum. Sigurberg Bogason trésmiður og Kristín Guðjónsdóttir eignuðust húsið 1951 og bjuggu í því til 1957 þegar fluttu úr Flatey. Árið 2006 var húsið endurbyggt frá grunni og sett á það vatnsklæðning.
Loka

Strýta (Jaðar)

Eigandi: Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson Um húsið: Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína. Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.