
VELKOMIN
Framfarafélag Flateyjar
Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.
Fréttir
Húsin í Flatey
Hafliðaskemma, Galdraskemma
Eigandi:
Bjarni H. Sigurjónsson
Um húsið:
Byggð um 1946 af Gesti Vilmundi Gíslasyni bónda í Svefneyjum og síðar í Flatey og bjó þá í Bogahúsi I. Skemman var byggð sem smíðaskemma og seinna kennd við Hafliða Arnberg Árnason . Hún var fyrst nefnd Galdraskemma af störfum Gests og hugsanlega einnig Sigurjóns Árnasonar, sem mikið starfaði með honum. Skemman er í dag smíðaverkstæði og bátaskýli fyrir súðbyrðinginn Hring sem smíðaður var 1953 eða 1954 af Sigurjóni Árnasyni og Árna Einarssyni. Árni keypti húsið af dánarbúi Gests.
Strýta (Jaðar)
Eigandi:
Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson
Um húsið:
Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína.
Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Vertshús (Veitingahús, Hótel Flatey)
Eigandi:
Karl Gunnarsson og Ása Helga Ragnarsdóttir
Um húsið:
Byggt árið 1886 og var hönnuður Magnús vert Magnússon veitingamanni og snikkara. Hann flutti út í Flatey 1876 og tveimur árum síðar kvæntist hann Þorbjörgu Ólafsdóttur. Magnús stundaði smíðar í Flatey og víðar og byggði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd . Hjá honum lærðu margir smíðar og var einn þeirra Bogi Guðmundsson smiður og kaupmaður. Magnús rak veitingasölu með konu sinni til 1933 auk þess að stunda búskap og sjósókn, einkum hákarlaveiðar.
Eftir að Magnús lést keypti Bogi Guðmundsson í Bogabúð húsið og rak veitingasöluna í nokkur ár með konu sinni. Seldi hann síðar Guðmundi Zakaríassyni húsið og var rekin veitingasala í húsinu um árabil. Bogi hélt eftir viðbyggingu við austurgafl hússins og byggði ofan á hana eina hæð.
(Sjá Vertshús austur-endi). Ólafur Jónsson kaupir 1966 húsið af Guðmundi.
Pakkhúsið (Tilheyrir Hermannshúsi)
Eigandi:
Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir
Um húsið:
Byggt skömmu eftir 1909 en breytt úr útihúsi frá Félagshúsi á seinni hluta tuttugustu aldar í íbúð að hluta. Pakkhúsið var byggt upp úr viðum gamla pakkhússins sem þýskir kaupmenn er sagðir hafa bygg á sama stað. Það hús var síðan rifið og hluti viða þess húss fór í Vinaminni sem hluti heimamundar Henríettu Hermannsdóttir, skáldkonu.
Einarshús (Skrína)
Eigandi:
Hörður Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1905 af Einari Jónssyni sjómanni. Einar var Snæfellingur að upplagi en var við vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann flutti í Flatey og byggði sér hús við Hjallsvíkina sem nefnt var Einarshús. Einar var sjómaður alla tíð.
Byggt 1906 af Einari Jónssyni sjómanni. Seinna stækkaði hann húsið til norðurs og lyfti þakinu. Þess vegna varð það kallað Skrína. Einar var Snæfellingur en var í vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann fluttist í Flatey og byggði hús sitt við Hjallsvík. Einar bjó í húsinu með seinni konu sinni Guðríði Sigurðardóttir frá Þernuvík í Ögurhreppi. Sonur hennar var Þórður Valgeir Benjamínsson er var bóndi í Hergilsey. Annar sonur hennar var Magnús Kristinn Benjamínsson,verslunarmaður og bókavörður í Flatey en hann gerðist 1925 verslunarmaður hjá Kaupfélagi Flateyjar. Magnús var fatlaður frá frumbernsku en mikill andans maður, margfróður og listrænn með afbrigðum.
Vesturbúðir
Eigandi:
Félagið Hergils ehf.
Um húsið:
Vesturbúðir er ævafornt býli í Flatey. Nefna má að Eggert Ólafsson (hinn betri) fæddur um 1730 ólst upp í Vesturbúðum. Vesturbúðir voru upprunalega fiskverkunarhús og þá var staðurinn stundum nefndur “Paradís” enda vinnustaðstaðan til fiskverkunar innanhúss og á þeim árum þótt eins og að vera kominn í Paradís. Breytt úr fiskverkunarhúsi í íbúðarhús 1938 af Óskari Nielssyni þegar hann flutti úr Svefneyjum. Óskar var frá Bjarneyjum en bjó síðar í Bíldsey en varð bóndi og hreppstjóri í Svefneyjum.
Þegar Þórður Valgeir Benjamínsson flytur í Flatey úr Hergilsey 12. ágúst 1946 kaupir hann húsið og nefnir það Hergilsey en hann byggði við húsið og breikkaði til norðurs 1946. Þórður var síðasti bóndinn í Hergilsey en kona hans var Þorbjörg Sigurðardóttir. Þórður og Þorbjörg bjuggu í Vesturbúðum fram til 1966 er þau flytja í Stykkishólm yfir vetur en dvöldu sumarlangt í Flatey til að sinna hlunnindum Hergilseyjarlanda fram undir 1980. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna og eignuðust þau 16 börn áður en þau fluttu úr Hergilsey og náðu 14 þeirra fullorðinsaldri. Börn þeirra eru Valborg Elísabet, Sigurður, Dagbjört Guðríður, Björg Jóhanna, Auður, Benjamín, Guðmundur Sigurður, Ari Guðmundur, Sigríður Hrefna, Jóhannes, Guðbrandur, Ásta Sigrún, Ingunn, Gunnar, Gunnar Þórbergur og Sigurbjörg.
Skólahúsið
Eigandi:
A-hluti, Þorsteinn Baldvinsson / V-hluti Heimir Sigurðsson, Gróa Þóra Pétursdóttir.
Um húsið:
Skólahús var byggt í Flatey 1909 eftir teikningum Rögnvalds Ólassonar arkitekts og var það Jón Jónsson snikkari sem sá um verkið. Samkvæmt teikningum Rögnvalds átti að hlaða húsið úr steyptum steini en í þess stað var það steypt án mikilla járnbindinga - að öðru leiti var teikningum Rögnvalds fylgt eftir. Í skólanum voru tvær kennslustofur og var kennt í skólanum fram yfir 1950. Byggðir voru nokkrir skólar út um land eftir sömu teikningu. Skólinn var rifinn af grunni 1992.
Nýtt hús var byggt 2006-2007 og var reynt að fylgja yfirbragði gamla skólans eins og hægt var m.a. eru gluggar á suðurhlið og hurð á gafli eftir teikningum Rögnvalds. Í húsinu eru nú tvær íbúðir.
Sólbakki (Stefánshús)
Eigandi:
María Jónsdóttir - Jón og Friðrik Einarssynir
Um húsið:
Byggt 1903 af Stefáni Stefánssyni meðhjálpara á rústum torfbæjarins Fjóskots, einnig nefndur Bakkabær, sem virðist vera sami bærinn. Hér bjó Viktor Guðnason og kona hans Jónína Ólafsdóttir Viktor starfaði lengst af í kaupfélaginu auk þess fást við söngstjórn og organleik - var póstmeistari og oddviti síðustu æviárin. Nefna má að Viktor er afi Viktors Arnar Ingólfssonar, rithöfundar sem m.a skrifaði Flateyjargátu.
Að Sólbakka frá Klausturhólum var símstöðin flutt 1956.
46. Gripahús, Flatey II
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt sem gripahús um 1906 af Magnúsi Sæbjörnssyni (1871-1924) lækni sem var læknir í Flateyjarhéraði 1903 til 1923. Magnús keypti 10 hundruð í Flatey árið 1905 af séra Lárusi Benediktssyni (1841-1920). Íbúðarhúsið sem fylgdi þeim jarðarkaupum var nefnt Læknishús af setu hans þar. Núverandi fjárhús Krákuvarar.