VELKOMIN

Framfarafélag Flateyjar

Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.

Fréttir

Myndbönd frá Flatey

Húsin í Flatey

Loka

Vorsalir (Sölubúðin, Kaupfélagið)

Eigandi: Ingunn Jakobsdóttir Um húsið: Byggt 1885 og hönnuður ókunnur en ýmislegt bendir til að það hafi verið flutt tilsniðið til landsins. Húsið var byggt sem verslunar- og vörugeymsluhús og í því rak Björn Sigurðsson verslun ásamt dönskum kaupsýslumönnum sem stofnuðu með honum árið 1898 stórt útgerðar- og verslunarfyrirtæki, Islandsk Handel og Fiskeri Co. (IHF). Síðar tók Guðmundur Bergsteinsson í Ásgarði við húsinu og rak þar verslun uns Kaupfélag Flateyjar eignaðist húsið eftir að Guðmundur varð að draga úr umsvifum sínum 1922. Upphaflega var húsið kallað Sölubúðin en Kaupfélagið á meðan Kaupfélag Flateyjar rak verslun í húsinu um áratuga skeið fram til um 1958. Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, náttúrufræðingur, rithöfundur og ljósmyndari eignaðist Vorsali 1973. Næsta áratug eða svo var unnið að viðgerð hússins og því breytt í íbúðarhús. Verslunarinnrétting á jarðhæð í vesturenda hússins hefur þó verið varðveitt að mestu og húsið heldur upprunalegu útliti.
Loka

Eyjólfspakkhús

Eigandi: Minjavernd Um húsið: Eyjólfur Einar Jóhannsson kaupmaður og bóndi lét byggja húsið um 1880 sem pakkhús. Guðmundur Bergsteinsson kaupmaður eignaðist síðan húsið og lét breyta því í fiskþurrkunarhús og m.a. koma þar fyrir þurrkofni. Eftir að verslun hans lagðist af komst húsið í eigu Flateyjarhrepps og var notað af ýmsum sem pakkhús og geymsla m.a. fyrir Ríkisskip. Minjavernd hf endurbyggði húsið á árunum frá 1987 til 2002 og tók það yfir til eignar 2007. Frá 2006 hefur húsið verið nýtt af Hótel Flatey og eru í því 5 gistiherbergi.
Loka

Bókhlaða

Eigandi: Reykhólahreppur Um húsið: Byggð 1864 af Flateyjarframfarastiftun sem stofnað var 1833 af Ólafi Sívertsen prófasti og konu hans Jóhönnu Friðriku Eyjólfsdóttir. Bókhlaðan er elsta bókhlaða landsins. Þegar Flateyjarkirkja var byggð 1926 var bókhlaðan flutt innar á Bókhúsaflöt á þann stað sem hún stendur í dag. Húsið var friðað 1975 en endurbyggt 1979-1988 í sinni upprunalegu mynd af Minjavernd. Bókhlaðan hýsti til langs tíma hið merkilega bókasafn Flateyjar sem nú að stórum hluta hefur verið komið til Landsbókasafnsins en í dag er eingöngu lítill hluti þessa merkilega bókasafns, aðallega bækur fræðilegs eðlis geymdar í Bókhlöðinni. Bókasafnið í Flatey var afkvæmi Flateyjarframfarastifnunarbréflegafélagsins á 19. öld. Bókhlaðan var byggð 1864 af nýjum efniviði, vönduð að smíði og mjög rúmgóð. Hús þetta kostaði 558 ríkisdali og átti stofnunin 195 ríkisdali upp í kostnaðinn en mismuninn lagði Brynjólfur Benedictsen ýmist sem lán eða gjöf. Síðasti safnvörður í Bókhlöðunni gömlu var Magnús Benjamínsson. Umsjónamaður hússins eftir viðgerð Minjaverndar er Ingunn Jakobsdóttir.
Loka

Pakkhúsið (Tilheyrir Hermannshúsi)

Eigandi: Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir Um húsið: Byggt skömmu eftir 1909 en breytt úr útihúsi frá Félagshúsi á seinni hluta tuttugustu aldar í íbúð að hluta. Pakkhúsið var byggt upp úr viðum gamla pakkhússins sem þýskir kaupmenn er sagðir hafa bygg á sama stað. Það hús var síðan rifið og hluti viða þess húss fór í Vinaminni sem hluti heimamundar Henríettu Hermannsdóttir, skáldkonu.
Loka

Vogur (Nýjahús, Jónshús, Jakobshús, Prestshús)

Eigandi: Aðalheiður Sigurðardóttir og Guðmundur Lárusson Um húsið: Byggt 1885 af Jóni Guðmundssyni kaupmanni.Byggingarár: 1885. Hönnuður er ókunnur en trúlega er húisð innflutt frá Noregi. Jón var fæddur á Mýrum í Dýrafirði en kom til Flateyjar 1870 sem verslunarfélagi Bents kaupmanns Jónssonar. Húsið við Grýluvog hét í fyrstu Nýjahús síðan Jónshús, Vogshús og nú síðast Vogur en það var bústaður margra presta í Flatey s.s. sr. Sigurðar Haukdals, faðir Eggerts alþingismanns á Bergþórshvoli, fæddur í Flatey árið 1933. Í fjöldamörg ár var rekið gisti- og veitingahús í Vogi á sumrin. Húsið hefur mjög komið við sögu kvikmynda í Flatey t.d “Ungfrúin góða og Húsið” sem Guðrún Halldórsdóttir Laxness leikstýrði og “Brúðguminn” sem Baltasar Kormákur leikstýrði.
Loka

Sjávarslóð

Eigandi: Hafþór Hafsteinsson Um húsið: Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.
Loka

Skólahúsið

Eigandi: A-hluti, Þorsteinn Baldvinsson / V-hluti Heimir Sigurðsson, Gróa Þóra Pétursdóttir. Um húsið: Skólahús var byggt í Flatey 1909 eftir teikningum Rögnvalds Ólassonar arkitekts og var það Jón Jónsson snikkari sem sá um verkið. Samkvæmt teikningum Rögnvalds átti að hlaða húsið úr steyptum steini en í þess stað var það steypt án mikilla járnbindinga - að öðru leiti var teikningum Rögnvalds fylgt eftir. Í skólanum voru tvær kennslustofur og var kennt í skólanum fram yfir 1950. Byggðir voru nokkrir skólar út um land eftir sömu teikningu. Skólinn var rifinn af grunni 1992. Nýtt hús var byggt 2006-2007 og var reynt að fylgja yfirbragði gamla skólans eins og hægt var m.a. eru gluggar á suðurhlið og hurð á gafli eftir teikningum Rögnvalds. Í húsinu eru nú tvær íbúðir.
Loka

Vinaminni

Eigandi: Óskar Eyþórsson og Dagbjört Höskuldsdóttir Um húsið: Byggt 1908-1909 af Guðmundi Guðmundssyni kaupmanni en kona hans var Jensína Henríetta skáldkona dóttir Hermanns S. Jónssonar skipstjóra og verslunarmanns í Hermannshúsi. Árið 1913 flytjast þau úr Flatey í Otradal í Arnarfirði og þá kaupa húsið Sigurður Sigurðsson ”norski” en hann ólst upp í Norskubúð og kona hans Kristbjörg Sigurðardóttir og Guðjón Ingimundarson sjómaður og beykir frá Bjarneyjum og kona hans Geirríður Sigurðardóttir. Um langt skeið voru tvær íbúðir í sitt hvorri burstinni. 1967 keyptu Anna Kristín Björnsdóttir og Sveinbjörn Pétursson sjómaður fæddur í Svefneyjum og bjuggu til 1983. Þá keyptu Pétur og Eyþór Ágústssynir húsið.
Loka

Vegamót

Eigandi: Álfheiður Ingadóttir og Sigurmar Albertsson Um húsið: Byggt 1922 af Bjarna Jónssyni bónda og verkamanni en hann var jafnan nefndur “Bjarni gaddur”. Bjarni var frá Hálshúsum í Reykjarfjarðarhreppi en ólst upp á Selskerjum í Múlasveit en fór þaðan á Deildará í sömu sveit áður en hann kemur í Flatey 1901. Bjó í Brekkubæ og síðar í Vegamótum. Síðustu íbúar Vegamóta í fastri búsetu voru Sveinn Jónsson og Margrét Gestsdóttir. Fluttu þangað úr Skáleyjum. Seinna áttu þar heima skamman tíma Þorsteinn Valgeirsson og Anna Jóna Kristjánsdóttir og börn þeirra.
Loka

Myllustaðir

Eigandi: Ingólfur og Bjarni Karlssynir, Guðmundur Stefánsson, Jón Þórður Jónsson og Hilmar Björnsson Um húsið: Byggt 2000 af Pétri Kúld Ingólfssyni húsasmíðameistara og fleiri laghentum eigendum Myllustaða. Á þessum slóðum stóð litlu austar svartklætt timburhús er kallað var Myllustaðir en þar bjuggu þær Kristín Jónsdóttir og Einara móðir Árelíusar Nielssonar prests síðustu æviár sín. Áður bjó þar m.a. Magnús malari sem malaði korn í myllu Guðmundar Schevings kaupmanns sem stóð á Myllumó þar sem nú stendur húsið Sólheimar.