VELKOMIN

Framfarafélag Flateyjar

Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.

Fréttir

Myndbönd frá Flatey

Húsin í Flatey

Loka

Vegamót

Eigandi: Álfheiður Ingadóttir og Sigurmar Albertsson Um húsið: Byggt 1922 af Bjarna Jónssyni bónda og verkamanni en hann var jafnan nefndur “Bjarni gaddur”. Bjarni var frá Hálshúsum í Reykjarfjarðarhreppi en ólst upp á Selskerjum í Múlasveit en fór þaðan á Deildará í sömu sveit áður en hann kemur í Flatey 1901. Bjó í Brekkubæ og síðar í Vegamótum. Síðustu íbúar Vegamóta í fastri búsetu voru Sveinn Jónsson og Margrét Gestsdóttir. Fluttu þangað úr Skáleyjum. Seinna áttu þar heima skamman tíma Þorsteinn Valgeirsson og Anna Jóna Kristjánsdóttir og börn þeirra.
Loka

46. Gripahús, Flatey II

Eigandi: Svanhildur Jónsdóttir Um húsið: Byggt sem gripahús um 1906 af Magnúsi Sæbjörnssyni (1871-1924) lækni sem var læknir í Flateyjarhéraði 1903 til 1923. Magnús keypti 10 hundruð í Flatey árið 1905 af séra Lárusi Benediktssyni (1841-1920). Íbúðarhúsið sem fylgdi þeim jarðarkaupum var nefnt Læknishús af setu hans þar. Núverandi fjárhús Krákuvarar.
Loka

Frystihúsið

Eigandi: Þrísker ehf. Um húsið: Byggt á árunum 1946 - 1951. Það voru stórhuga menn sem um miðja síðustu öld vildu hefja Flatey til vegs sem miðstöð samgangna og atvinnu um norðanverðan Breiðafjörð. Hafskipabryggjan og hraðfrystihúsið urðu til. Starfsemin var mest í frystihúsinu 1952 með tveim vertíðarbátum og fiskvinnslu og með fjölmörgu af aðkomufólki þar sem vertíðarstemming ríkti. Síðan kom árabil lægðar og nýrrar viðleitni. Við þessar aðstæður á seinni áratugum aldarinnar hrörnaði húsið mjög. Við sameiningu hreppanna í Austur-Barðastrandsýslu komst það í ábyrgð Reykhólahrepps. Þá kom til álita að rífa húsið og byggja annað minna. Talsmaður þess að heldur yrði gert við frystihúsið í heild var löngum Hafsteinn Guðmundsson. Það var svo undir stjórn og átaki Gyðu Steinsdóttir sem félagið Þrísker ehf varð til og hafist var handa. Framkvæmdastjóri og yfirsmiður var Baldur Þorleifsson. Í dag er í gömlu vinnusölunum rekin verslunin, Bryggjubúðin undir stjórn Lísu Kristjánsdóttir. Hvort eða hvernig önnur umtalsverð starfsemi kemst þar á koppinn mun tíminn leiða í ljós. Nóg er plássið.
Loka

Pakkhúsið (Tilheyrir Hermannshúsi)

Eigandi: Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir Um húsið: Byggt skömmu eftir 1909 en breytt úr útihúsi frá Félagshúsi á seinni hluta tuttugustu aldar í íbúð að hluta. Pakkhúsið var byggt upp úr viðum gamla pakkhússins sem þýskir kaupmenn er sagðir hafa bygg á sama stað. Það hús var síðan rifið og hluti viða þess húss fór í Vinaminni sem hluti heimamundar Henríettu Hermannsdóttir, skáldkonu.
Loka

Straumur – Rarik

Eigandi: Starfsmannafélag RARIK Um húsið: Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.
Loka

Sólheimar

Eigandi: Gerður Gestsdóttir Um húsið: Byggt 1935 af Gesti O. Gestssyni en hann var skólastjóri 1933-1960 með hléum. Húsasmiðameistari og yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Gestur O. er afi Oddnýjar, Gest Karls og Ragnars í Sólheimum. Byggt 1935 af Gesti Oddfinni Gestssyni kennara, skólastjóra og smið á háhólnum austan við Skansmýri, á svonefndum Myllumó en á þeim stað stóð áður vindmylla Guðmundar Schevings kaupmanns. Gestur fluttist til Flateyjar 1933 er hann tók við skólastjórastöðu í Flatey sem hann gengdi með hléum til 1959. Hann var húsasmíðameistari og var m.a. yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Kona Gests var Oddný Ingiríður Sölvadóttir fædd á Gafli í Svínavatnshreppi.
Loka

Læknishúsið

Eigandi: Hafsteinn Guðmundsson Um húsið: Byggt 1953-1954 fyrir Flateyjarlæknishérað. Þrátt fyrir nafnið hefur aðeins einn læknir fyrir Flateyjarlæknishérað búið í húsinu frá 1956-1960 en það var Knútur Kristinsson fæddur á Söndum í Dýrafirði. Knútur sat í nefnd til að ”athuga atvinnuástand í Flateyjarhreppi og gera tillögur um ráðstafanir til endurreisnar atvinnulífs þar í hreppi.” Einnig bjó í húsinu séra Sigurður Elíasson, síðasti sóknarprestur sem sat í Flatey 1959-1960. Í tæplega fjögur ár (1961-1964) bjó í Læknishúsi Sigurjón Helgason fæddur 1929 útgerðarmaður og athafnamaður ásamt fjölskyldu sinni. Hann hafði allnokkra starfsemi í frystihúsi Flateyjar. Árið 1965 flytjast Hafsteinn Guðmundsson og kona hans Ólína Jónsdóttir úr Grundarfirði og setjast að í Læknishúsi í Flatey og hófu útgerð í félagi við fleiri. Urðu síðan bændur á Flatey I. Gerðu þar með húsið að íbúðarhúsi býlisins en á þessum tíma var föst búseta í fjórum eyjum, Flatey, Hvallátrum, Svefneyjum og Skálaeyjum.
Loka

Berg (Hafliðahús)

Eigandi: Bjarni H. Sigurjónsson Um húsið: Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.
Loka

Ráðagerði

Eigandi: Félag starfsmanna stjórnarráðsins Um húsið: Byggt 1976-1980 sem félags- og sumarbústaður fyrir starfsmenn stjórnarráðsins.
Loka

Vertshús-austur

Eigandi: Sigríður, Örn, Atli og Hrönn Sturlubörn, Herdís Jónsdóttir