Berg (Hafliðahús)
Eigandi:
Bjarni H. Sigurjónsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.
SKU: 9ed533bef591
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Ásgarður
Eigandi:
Afkomendur Guðmundar Bergsteinssonar og Jónínu Eyjólfsdóttur
Um húsið:
Byggt 1907 fyrir Guðmund Bergsteinsson kaupmann sem íbúðar- og verslunarhús. Guðmundur tók við verslun tengdaföður síns Eyjólfs Einars Jóhannssonar 1900, keypti Gamlhús, þá 130 ára gamals hús og reif niður en byggði Ásgarð á grunni þess. Rak umfangsmikla verslun og útgerð í Flatey í fjölmörg ár. Ásgarður var bæði íbúðar- og verslunarhús og Guðmundur og kona hans, Jónína Eyjólfsdóttir, versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960. Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins. Meðal afkomenda þeirra eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.
Skólahúsið
Eigandi:
A-hluti, Þorsteinn Baldvinsson / V-hluti Heimir Sigurðsson, Gróa Þóra Pétursdóttir.
Um húsið:
Skólahús var byggt í Flatey 1909 eftir teikningum Rögnvalds Ólassonar arkitekts og var það Jón Jónsson snikkari sem sá um verkið. Samkvæmt teikningum Rögnvalds átti að hlaða húsið úr steyptum steini en í þess stað var það steypt án mikilla járnbindinga - að öðru leiti var teikningum Rögnvalds fylgt eftir. Í skólanum voru tvær kennslustofur og var kennt í skólanum fram yfir 1950. Byggðir voru nokkrir skólar út um land eftir sömu teikningu. Skólinn var rifinn af grunni 1992.
Nýtt hús var byggt 2006-2007 og var reynt að fylgja yfirbragði gamla skólans eins og hægt var m.a. eru gluggar á suðurhlið og hurð á gafli eftir teikningum Rögnvalds. Í húsinu eru nú tvær íbúðir.
Myllustaðir
Eigandi:
Ingólfur og Bjarni Karlssynir, Guðmundur Stefánsson, Jón Þórður Jónsson og Hilmar Björnsson
Um húsið:
Byggt 2000 af Pétri Kúld Ingólfssyni húsasmíðameistara og fleiri laghentum eigendum Myllustaða. Á þessum slóðum stóð litlu austar svartklætt timburhús er kallað var Myllustaðir en þar bjuggu þær Kristín Jónsdóttir og Einara móðir Árelíusar Nielssonar prests síðustu æviár sín. Áður bjó þar m.a. Magnús malari sem malaði korn í myllu Guðmundar Schevings kaupmanns sem stóð á Myllumó þar sem nú stendur húsið Sólheimar.
Vegamót
Eigandi:
Álfheiður Ingadóttir og Sigurmar Albertsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Bjarna Jónssyni bónda og verkamanni en hann var jafnan nefndur “Bjarni gaddur”. Bjarni var frá Hálshúsum í Reykjarfjarðarhreppi en ólst upp á Selskerjum í Múlasveit en fór þaðan á Deildará í sömu sveit áður en hann kemur í Flatey 1901. Bjó í Brekkubæ og síðar í Vegamótum. Síðustu íbúar Vegamóta í fastri búsetu voru Sveinn Jónsson og Margrét Gestsdóttir. Fluttu þangað úr Skáleyjum. Seinna áttu þar heima skamman tíma Þorsteinn Valgeirsson og Anna Jóna Kristjánsdóttir og börn þeirra.
Eyjólfshús (Oddahús, Tangahús, Pálshús)
Eigandi:
Steinn Ágúst, Hanna María og Katrín Baldvinsbörn ásamt Kristínu Ágústsdóttir.
Um húsið:
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Jóhannssyni kaupmanni sem íbúðar- og verslunarhús. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og oft kallaður “tröllið með barns-andlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði. Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja, áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga.
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Einar Jóhannssyni kaupmanni. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og var oft kallaður ”tröllið með barnsandlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði.
Eyjólfshús hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. Oddahús, Tangahús og Pálshús. Í fyrstu búa í Eyjólfshúsi fjölskyldur Bárar-Ólafs og dóttir hans Sigurborg ásamt tengdasyni hans Eyjólfur Einar Jóhannsson. 1903 Eignast Verslunarfélagið húsið og bjó Páll Andrés Sigurður Nikulásson (1864-1932) verslunarmaður og kona hans Björg Pétursdóttir (1875-1962) ljósmóðir í húsinu er þá nefnist Pálshús. 1914 kaupir Steinn Ágúst Jónsson (1879-1969) húsið ásamt konu sinni Katrínu Þórðardóttir (1886-1966) og bjuggju þau í Eyjólfshúsi í meira en fimmtíu ár. Steinn Ágúst var alla tíð mjög áberandi í félags-, atvinnu-, trúar- og menningarlífi Flateyjar. Verslunarmaður í byrjun komu sinnar til Flateyjar (1909) hjá Guðna kaupmanni Guðmundssyni og síðar hjá Guðmundi Bergsteinssyni kaupmanni. Stofnaði fyrstu barnastúku í Flatey, formaður ungmennasambands Norður-Breiðfirðinga, kosinn í sóknarnefnd Flateyjar 1912 og hafði forgöngu um byggingu hinnar nýju Flateyjarkirkju 1926 og meðhjálpari kirkjunnar um tugi ára, gjaldkeri Sparisjóðs Flateyjar frá 1925 og hreppsnefndaroddviti frá 1945. Í Eyjólfshúsi bjuggi í gegnum tíðina fjölmargir s.s. Bjarni Ingibjartur Bjarnason (1882-1944) sjómaður og kona hans Guðrún Júlíanna Guðmundsdóttir (1873-1956), Halldór Friðriksson (1871-1946) skipstjóri og kona hans Anna Ragnheiður Erlendsdóttir (1878-1954), Halldór Kolbeins Eyjólfsson (1893-1964) prestur og kona hans Lára Ágústa Ólafsdóttir (1898-1973) og síðar Vigfús Sigurbjörn Stefánsson (1890-1970) bóndi og kona hans Ingibjörg Einarsdóttir (1889-1963). Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja sem var áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga en bryggjan var stækkuð og steypt upp um 1934.
Sunnuhvoll
Eigandi:
Baldur Þorleifsson og Gyða Steinsdóttir
Um húsið:
Byggt 2005 af Baldri Þorleifssyni trésmíðameistara og konu hans Gyðu Steinsdóttir.
Á Brekku, sunnan við húsaþyrpinguna við Holustíg, stóð torfbærinn Brekkubær. Jón Jónsson snikkari byggði þar timburhús árið 1928 og nefndi Sunnuhvol. Það hús var rifið upp úr 1970.
Strýta (Jaðar)
Eigandi:
Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson
Um húsið:
Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína.
Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Bjarg (Jóhannesarhús, Jakobshús, Bókasafnið)
Eigandi:
Skáleyingarnir Þorgeir, Gísli og Einar Kári Kristóferssynir ásamt Ólafi Gíslasyni
Um húsið:
Byggt af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra árið 1897. Jóhannes fæddist í Bjarneyjum 1868 en var skipstjóri í Flatey til fjölda ára. Fluttist til Reykjavíkur og byggði hús við Skólavörðustíginn og nefndi Bjarg. Húsið var endurbyggð frá grunni 2000.
Byggt 1897 af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra úr Bjarneyjum en hann bjó hér aðeins fáein ár í byrjun og var það leigt Oddi Jónssyni lækni sem Flateyingar komu síðan af sér vegna drykkjuskapar hans aldamótaárið 1900 er hann fór að Miðhúsum í Reykhólalæknishéraði. Jóhannes flutti þá aftur í húsið og bjó þar er hann flutti frá Flatey 1907. Sama ár keypti Jakob Þorsteinsson verslunarmaður húsið og var það þá nefnt Jakobshús og bjó Jakob þar til dánardægurs 1935. Ekkja Jakobs var Kristín Jónsdóttir (1858-1946) ”ljósa” en hún var ljósmóðir í Flatey og bjó hún áfram í húsinu þar til hún dó 1946. Húsið var notað sem íbúðarhús fram á sjötta áratuginn. Erfingjar Kristínar gáfu húsið Bókasafninu í Flatey og hýsti það safnið frá 1954 til 1992. Þar réð ríkjum Sigríður Bogadóttir (Sigga Boga). Starf hennar sem bókavarðar var allt þar. Eftir að hún lét af störfum var safngæslan mjög laus í böndum um árabil. Húsið var að hrörna og eyðileggjast. Safninu var bjargað þaðan árið 1992 og sett í kassa og flutt að Reykhólum til geymslu. Áður eða 1968 var fágætasti hluti safnsins fluttur á Landsbókasafn til geymslu. Í þessum geymslum er safnið enn. Húsið komst í eigu Reykhólahrepps við sameiningu sveitarfélaga 1987. Það var endurbyggt frá grunni árið 2000 í umboði eiganda.