Vinaminni
Eigandi:
Óskar Eyþórsson og Dagbjört Höskuldsdóttir
Um húsið:
Byggt 1908-1909 af Guðmundi Guðmundssyni kaupmanni en kona hans var Jensína Henríetta skáldkona dóttir Hermanns S. Jónssonar skipstjóra og verslunarmanns í Hermannshúsi. Árið 1913 flytjast þau úr Flatey í Otradal í Arnarfirði og þá kaupa húsið Sigurður Sigurðsson ”norski” en hann ólst upp í Norskubúð og kona hans Kristbjörg Sigurðardóttir og Guðjón Ingimundarson sjómaður og beykir frá Bjarneyjum og kona hans Geirríður Sigurðardóttir. Um langt skeið voru tvær íbúðir í sitt hvorri burstinni. 1967 keyptu Anna Kristín Björnsdóttir og Sveinbjörn Pétursson sjómaður fæddur í Svefneyjum og bjuggu til 1983. Þá keyptu Pétur og Eyþór Ágústssynir húsið.
SKU: ac2e11628bb3
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Herdísarhús (Gunnlaugshús)
Eigandi:
Valgerður og Þorsteinn Bergsbörn
Um húsið:
Herdísarhús (Gunnlaugshús) sem upphaflega var nefnt Nýjahús var reist af Brynjólfi Bogasyni Benedictsen (1807-1870) og konu hans Herdísi Guðmundsdóttir (Benedictsen) við lok fimmta áratug 19. aldar. Húsið er sambyggt austurgafli framhússins, sem var líklega byggt fyrir Guðmund Scheving Bjarnason. Brynjólfur tók við verslunarleyfi tengdaföðurs síns eftir lát hans. Hús þeirra hjóna er innflutt danskt kataloghús, líklega er það komið frá Jótlandi. Húsið þótti í upphafi reisulegast húsa á Vesturlandi og stofa þess bæði stærst og skrautlegust. Sérkenni í skreyti innanhúss, einkum loftflekar í stofu og samsetning þeirra geta bent til þess að þeir hafi fylgt húsinu. Ætlað er að þýskættaður beykir, Johann Ludvig Moul, hafi haft umsjón með því að reisa húsið. Eftir fráfall Brynjólfs 1870 flytur Herdís Benedictsen úr eynni.
Árið 1873 tók Verslunarfélag Eyjahrepps, nefnt Félagið við báðum húsunum og voru þau þá nefnd Félagshús. Félagið hafði rekstur í húsunum 1873 til 1888. Þá kaupa Hermann og Kristján Jónssynir bæði húsin og bjó Kristján í austurhlutanum. Gunnlaugur Sveinsson skipstjóri og kona hans Guðlaug Gunnlaugsdóttir eignast húsið 1906. Af síðari íbúum hússins má nefna Þórunni Gunnlaugsdóttir og m.h. Finnboga Guðmundsson, Svein Gunnlaugsson kennara og skólastjóra í Flatey, Ólaf Eirík Gunnlaugsson bónda og sjómann, Arnfinn Hansen vélstjóra og k.h. Björgu Ólafsdóttir Hansen og síðast Sigurberg Bogason trésmið og k.h. Kristínu Guðjónsdóttir.
Jónína Hermannsdóttir og Friðrik Salómonsson eignast húsið eftir 1955 eða síðar. Við fólksfækkun í eynni var húsið undir lokin nýtt sem geymsla fyrir verslun Hermanns Jónssonar sem Jónína dóttir hans rak eftir hans dag í fremra húsinu. Við lok þeirra afnota var húsið farið að láta mjög á sjá. Eigendur frá árinu 1975 eru Valgerður Bergsdóttir og m.h. Arnmundur S. Backmann (dáinn 1998) og Ingibjörg Á. Pétursdóttir og m.h. Þorsteinn Bergsson.
Ásgarður
Eigandi:
Afkomendur Guðmundar Bergsteinssonar og Jónínu Eyjólfsdóttur
Um húsið:
Byggt 1907 fyrir Guðmund Bergsteinsson kaupmann sem íbúðar- og verslunarhús. Guðmundur tók við verslun tengdaföður síns Eyjólfs Einars Jóhannssonar 1900, keypti Gamlhús, þá 130 ára gamals hús og reif niður en byggði Ásgarð á grunni þess. Rak umfangsmikla verslun og útgerð í Flatey í fjölmörg ár. Ásgarður var bæði íbúðar- og verslunarhús og Guðmundur og kona hans, Jónína Eyjólfsdóttir, versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960. Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins. Meðal afkomenda þeirra eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.
Sólbakki (Stefánshús)
Eigandi:
María Jónsdóttir - Jón og Friðrik Einarssynir
Um húsið:
Byggt 1903 af Stefáni Stefánssyni meðhjálpara á rústum torfbæjarins Fjóskots, einnig nefndur Bakkabær, sem virðist vera sami bærinn. Hér bjó Viktor Guðnason og kona hans Jónína Ólafsdóttir Viktor starfaði lengst af í kaupfélaginu auk þess fást við söngstjórn og organleik - var póstmeistari og oddviti síðustu æviárin. Nefna má að Viktor er afi Viktors Arnar Ingólfssonar, rithöfundar sem m.a skrifaði Flateyjargátu.
Að Sólbakka frá Klausturhólum var símstöðin flutt 1956.
Bogabúð
Um húsið:
Byggt af Boga Guðmundssyni kaupmanni árið 1908. Bogabúð er fyrsta steinhúsið í Flatey og byggt sem íbúðar- og verslunarhús og rak Bogi í húsinu verslun um langt árabil. Sagan segir að þegar Bogabúð var byggt voru aðeins notuð tvö 10 tommu borð við uppslátt þess. Bogi var mikill hagleiksmaður og trésmiður er skar mikið út s.s. rúm-fjalir og kistla, smíðaði líkkistur og vann að smíði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd. Hægt er að sjá hagleiksverk hans á byggðasafninu að Hnjóti.
Byggt 1908-1910 af Boga Guðmundssyni (1877-1965) kaupmanni og smið en hann nam trésmíði hjá Magnúsi vert í Vertshúsi en húsið er fyrsta steinhúsið í Flatey. Bogi stundaði trésmíði framan af ævi m.a. við smíði Hagakirkju á Barðaströnd. Meðal smíðagripa hans eru kirkjugluggarnir í Flateyjarkirkju, skar út rúmfjalir og kistla sem víða fóru. Húsið var reist á grunni torfhúss er hét Svalbarði sem var verkstæði trésmiðs. Bogi fékk verslunarleyfi 1908 og hóf hann verslunarrekstur sinn í einu herbergi Bentshúss 1908. Hann rak síðan verslun í Bogabúð frá 1910-1962. Samhliða þessum verslunarrekstri í Bogabúð keypti hann Vertshúsið 1936 og rak þar veitingasölu ásamt konu sinni til ársins 1946. Kona Boga var Sigurborg Ólafsdóttir (1881-1952) fædd í Flatey. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna en börn þeirra voru Guðmundur (1903-1975), Ólína Guðrún (1904-1905), Ólafía (1905-1930), Jónína Sigríður (1907-2000), Yngvi (1909-1954), Lára (1910-1997), Sturla (1913-1994), Þórður (1915-1990), Kristín (1916-1943), Sigurberg (1918-2010) og Jón (1923-2009). Húsið var gert upp og endurbyggt upp úr 1980 en þá hafði húsið staðið autt í fjölmörg ár.
Strýta (Jaðar)
Eigandi:
Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson
Um húsið:
Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína.
Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Grænigarður
Eigandi:
Helgi Haraldsson og Halla Dís Hallfreðsdóttir
Um húsið:
Byggt 1950 af Ólafi Ólafssyni frá Hallsteinsnesi í Gufudalshreppi og hét því í fyrstu Ólahús. Grænigarður var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var innan skipulags byggðar er rísa skyldi samkvæmt stórhuga ráðum um atvinnuuppbyggingu um miðbik síðustu aldar. Húsið var um tíma í eigu Flateyjarhrepps og helstu íbúar voru Gestur Jónsson og fjölskylda, Nikulás Jensson og fjölskylda, Pétur Gissurason og fjölskylda sem þá var skipstjóri á Konráði, Hrönn Hafsteinsdóttir og um tíma átti Tryggvi Gunnarsson húsið.
Sjávarslóð
Eigandi:
Hafþór Hafsteinsson
Um húsið:
Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.