Hvergi á Íslandi eru fjörur jafn víðáttumiklar og í Breiðafirði. Það er talið að um helming af öllum fjörum á landinu sé að finna í firðinum. Þar kemur þrennt til; í fyrsta lagi er hæðarmunur flóðs og fjöru mestur þar og í öðru lagi er halli fjörunnar tiltölulega lítill. Síðast en ekki síst er þar miklu meira af eyjum og skerjum en þekkist annars staðar við landið.

Fjölbreytileiki lífríkis í fjöru er háður því hve umhverfisaðstæður eru margbreytilegar, eins og til dæmis botnlag, botngerð og ölduhreyfing. Hitastig sjávar hefur töluverð áhrif á það hvaða tegundir er að finna, því útbreiðslusvæði hverrar tegundar, ræðst, í stórum dráttum, af hitastigi. Almennt séð er hitastig sjávar hæst við suðurströndina, lækkar þegar farið er réttsælis umhverfis landið og er lægst við austurströndina. Í takt við það fækkar tegundum í fjörunni. Að vísu eru nokkrar kaldsjávartegundir sem koma á móti en þær eru mun færri en hlýsjávartegundirnar sem detta út. Í Breiðafirði er því hægt að finna flestar tegundir íslenskra fjörulífvera en alls ekki allar.

Í Flatey eru klettafjörur ráðandi. Þar má þó einnig finna sand- og malarfjörur en eiginlegar leirur eru hins vegar smáar. Víða eru þó leirblettir innan um í skjólsælum fjörum. Í grjót- og klettafjörum er þörungagróður ríkjandi en í malar-, sand- og leirfjörum eru dýr meira áberandi.