Straumur – Rarik
Eigandi:
Starfsmannafélag RARIK
Um húsið:
Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.
SKU: b011fbdc5ba5
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Strýta (Jaðar)
Eigandi:
Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson
Um húsið:
Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína.
Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Sjávarslóð
Eigandi:
Hafþór Hafsteinsson
Um húsið:
Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.
Ásgarður
Eigandi:
Afkomendur Guðmundar Bergsteinssonar og Jónínu Eyjólfsdóttur
Um húsið:
Byggt 1907 fyrir Guðmund Bergsteinsson kaupmann sem íbúðar- og verslunarhús. Guðmundur tók við verslun tengdaföður síns Eyjólfs Einars Jóhannssonar 1900, keypti Gamlhús, þá 130 ára gamals hús og reif niður en byggði Ásgarð á grunni þess. Rak umfangsmikla verslun og útgerð í Flatey í fjölmörg ár. Ásgarður var bæði íbúðar- og verslunarhús og Guðmundur og kona hans, Jónína Eyjólfsdóttir, versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960. Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins. Meðal afkomenda þeirra eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.
Herdísarhús (Gunnlaugshús)
Eigandi:
Valgerður og Þorsteinn Bergsbörn
Um húsið:
Herdísarhús (Gunnlaugshús) sem upphaflega var nefnt Nýjahús var reist af Brynjólfi Bogasyni Benedictsen (1807-1870) og konu hans Herdísi Guðmundsdóttir (Benedictsen) við lok fimmta áratug 19. aldar. Húsið er sambyggt austurgafli framhússins, sem var líklega byggt fyrir Guðmund Scheving Bjarnason. Brynjólfur tók við verslunarleyfi tengdaföðurs síns eftir lát hans. Hús þeirra hjóna er innflutt danskt kataloghús, líklega er það komið frá Jótlandi. Húsið þótti í upphafi reisulegast húsa á Vesturlandi og stofa þess bæði stærst og skrautlegust. Sérkenni í skreyti innanhúss, einkum loftflekar í stofu og samsetning þeirra geta bent til þess að þeir hafi fylgt húsinu. Ætlað er að þýskættaður beykir, Johann Ludvig Moul, hafi haft umsjón með því að reisa húsið. Eftir fráfall Brynjólfs 1870 flytur Herdís Benedictsen úr eynni.
Árið 1873 tók Verslunarfélag Eyjahrepps, nefnt Félagið við báðum húsunum og voru þau þá nefnd Félagshús. Félagið hafði rekstur í húsunum 1873 til 1888. Þá kaupa Hermann og Kristján Jónssynir bæði húsin og bjó Kristján í austurhlutanum. Gunnlaugur Sveinsson skipstjóri og kona hans Guðlaug Gunnlaugsdóttir eignast húsið 1906. Af síðari íbúum hússins má nefna Þórunni Gunnlaugsdóttir og m.h. Finnboga Guðmundsson, Svein Gunnlaugsson kennara og skólastjóra í Flatey, Ólaf Eirík Gunnlaugsson bónda og sjómann, Arnfinn Hansen vélstjóra og k.h. Björgu Ólafsdóttir Hansen og síðast Sigurberg Bogason trésmið og k.h. Kristínu Guðjónsdóttir.
Jónína Hermannsdóttir og Friðrik Salómonsson eignast húsið eftir 1955 eða síðar. Við fólksfækkun í eynni var húsið undir lokin nýtt sem geymsla fyrir verslun Hermanns Jónssonar sem Jónína dóttir hans rak eftir hans dag í fremra húsinu. Við lok þeirra afnota var húsið farið að láta mjög á sjá. Eigendur frá árinu 1975 eru Valgerður Bergsdóttir og m.h. Arnmundur S. Backmann (dáinn 1998) og Ingibjörg Á. Pétursdóttir og m.h. Þorsteinn Bergsson.
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Berg (Hafliðahús)
Eigandi:
Bjarni H. Sigurjónsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.
Vegamót
Eigandi:
Álfheiður Ingadóttir og Sigurmar Albertsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Bjarna Jónssyni bónda og verkamanni en hann var jafnan nefndur “Bjarni gaddur”. Bjarni var frá Hálshúsum í Reykjarfjarðarhreppi en ólst upp á Selskerjum í Múlasveit en fór þaðan á Deildará í sömu sveit áður en hann kemur í Flatey 1901. Bjó í Brekkubæ og síðar í Vegamótum. Síðustu íbúar Vegamóta í fastri búsetu voru Sveinn Jónsson og Margrét Gestsdóttir. Fluttu þangað úr Skáleyjum. Seinna áttu þar heima skamman tíma Þorsteinn Valgeirsson og Anna Jóna Kristjánsdóttir og börn þeirra.
Hermannshús (Félagshús, Benediktsenshús, Nýjahús)
Eigandi:
Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir.
Um húsið:
Húsið var byggt 1833-1836 sem íbúðarhús af Guðmundi Bjarnasyni Scheving (1776-1837) kaupmanni og útgerðarmanni og er húsið elsta hús í Flatey af þeim sem enn standa. Guðmundur var áður en hann kom til Flateyjar 1812 sýslumaður og amtmaður fyrir Barðastrandasýslu og sat í Haga. Guðmundur gerðist amtmaður yfir norðuramtinu fyrir Jörundar hundadagakonung er ríkti hér sumarið 1809 en sagði sig frá sýsluvöldum 1812 og fluttist til Flateyjar. Sagt er að Jörundur hafi gefið Guðmundi veggfóður sem skreytti hýbýli í Gunnlaugshúsi áfast Félagshúsi.
Guðmundur var frumkvöðull þilskipaútgerðar í Breiðafirði og þegar 1830 gerði hann út þrjú þilskip og keypti nokkru síðar 36 lesta skútu frá Danmörku til millilandasiglinga. 1833 var Guðmundi veitt agentsnafnbót af Danakonungi. Árið 1838 gekk Brynjólfur Bogason Benedictsen að eiga Herdísi dóttir Guðmundar og tók við rekstri tengdaföður síns. Þrettán árum síðar (1851) lét Brynjólfur byggja viðbyggingu við húsið sem nú er nefnt Gunnlaugshús eftir Gunnlaugi Sveinssyni (1861-1950). Þau hjónin bjuggu þar fram til 1873 en þá tók Verslunarfélag Eyhreppinga sem jafnan var nefnt Félagið við húsunum sem eftir það voru nefnd Félagshús. Félagið rak verslun í austurhlutanum 1873-1888 og bjó verslunarstjórinn, Ólafur Skagfjörð einnig í húsinu en hann var faðir athafnamannsins og heildsalans Kristjáns Ó. Skagfjörð. Árið1893 keyptu bræðurnir Hermann Sigurður og Kristján Sigurgeir Jónssynir húsið og rak Hermann verslun í viðbyggingu við norðurhlið hússins frá 1913 til dánardags 1943 lengi í samvinnu við dóttir sína Jónínu en hún rak verslunina allt til 1970.