Bogkrabbi hefur á undanförnum áratug fundist í Flatey en hafði aldrei sést þar áður. Bogkrabbi er ekki nýr landnemi á Íslandi en var áður bundinn við Suðurland, Reykjanes og Faxaflóa. Síðan hefur hann fært sig norðar og finnst nú um allan Breiðafjörð. Hann heldur sig í fjörunni á sumrin en færir sig niður á grunnsævið á veturna.

Grjótkrabbi er framandi lífvera sem kallað er og barst líklega af mannavöldum til Íslands frá austurströnd Norður-Ameríku. Hann fannst fyrst hér við land í Hvalfirði árið 2006 og hefur síðan breiðst út um allt Vestuland og allt norður í Eyjafjörð. Grjótkrabbinn heldur sig á grunnsævi en oft finnast ung dýr í fjörunni. á síðustu árum hefur hann oft sést í mögum þorska sem veiddir eru við Flatey.