Framfarafélag Flateyjar stóð fyrir fjölsóttu Eyjaþingi á Hótel Flatey þann 22. ágúst 2010. Þar ræddu ábúendur, eigendur sumarhúsa, sveitarstjórnarfólk og fulltrúar stofnana og ferðaþjónustufyrirtækja um framtíðarþróun Flateyjar og nærliggjandi eyja. Umsjón með þinginu hafði ILDI í samstarfi við Landmótun.

Þátttakendum varð tíðrætt um þolmörk Flateyjar gagnvart ferðaþjónustu og töldu brýnt að standa vörð um náttúru og sérstöðu eyjarinnar. Lagning göngustíga, áningarstaðir og merkingar er að mati þinggesta mikilvægasta skrefið. Einnig að starfandi verði landvörður í Flatey og þar verði gestastofa, sem gegni hlutverki við stefnumótun, móttöku ferðamanna, upplýsingagjöf og fræðslu í eynni. Rætt var um hvort Flatey gæti orðið þjóðgarður, eða t.d. farið á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Fram kom að leita þarf sértækra og oft á tíðum dýrra lausna varðandi grunngerð fyrir Flatey, s.s. vatn, orku og sorp – sem jafnvel dugar ekki alltaf til. Þátttakendur áttu sér draum um sjálfbæra eyju, sjálfbæra orkunýtingu, vistvænan búskap, sorpflokkun og jarðvegsgerð. Rætt var um mikilvægi verndunar „Þorpsins“, sem er elsti hluti byggðar í Flatey og hversu langt ætti að ganga varðandi skilmála um framkvæmdir þar.

Fram kom ósk um góða og virka stjórnsýslu og samráð við íbúa og hagsmunaaðila, t.d. varðandi framkvæmdir.

Rauði þráðurinn í skilaboðum Eyjaþings er sá að tryggja þurfi fasta búsetu í Flatey allt árið. Á því byggi samgöngurnar sem eru lífæð eyjarinnar, öryggismál og öll þróun. Til að svo megi verða þurfi að huga að atvinnu og skólamálum.

Varðandi næstu skref er lagt til að Framfarafélagið geri aðgerðaáætlun byggða á skilaboðum þingsins. Landmótun, í samvinnu við Reykhólahrepp, yfirfari skilaboð um skipulag og hvernig þau geti skilað sér í deiliskipulag og skilmála fyrir Þorpið, eða á öðrum vettvangi skipulagsmála. Efnt verði til málþings fyrir lok árs 2010 þar sem skilaboð þingsins verði krufin til mergjar. Stefnt verði að gerð „samfélagssamnings“ um framtíðarþróun í Flatey og nærliggjandi eyjum.

Leiðarljósið verði áhersla á jafnvægi og gagnkvæman skilning milli búsetu, náttúruverndar, sumardvalargesta og ferðamanna.

Skýrslu Eyjaþings 2010 má nálgast í heild sinni hér.