Alheimur
Eigandi:
Guðjón, Margrét og Erla Sigurbergsbörn
Um húsið:
Húsið var byggt 1922 og var hönnuður Sigurður Jóhannsson.
Árið 1838 byggði Ólafur Jónsson skipstjóri og beykir torfbæ á þessum stað og sem nefndur var Alheimur. Bergþór Einarsson sjómaður fékk Sigurð Jóhannsson til að smíða timburhús í stað torfbæjarins árið 1922 og bjó þar með konu sinni Ingibjörgu Jónsdóttur. Húsið var um tíma nefnt Berþórshvoll en nafnið Alheimur var tekið upp aftur. Eftir þau bjó þar Sveinbjörn Pétur Guðmundsson kennari og fræðimaður frá Skáleyjum. Sigurberg Bogason trésmiður og Kristín Guðjónsdóttir eignuðust húsið 1951 og bjuggu í því til 1957 þegar fluttu úr Flatey. Árið 2006 var húsið endurbyggt frá grunni og sett á það vatnsklæðning.
SKU: b4339a789a5f
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Grænigarður
Eigandi:
Helgi Haraldsson og Halla Dís Hallfreðsdóttir
Um húsið:
Byggt 1950 af Ólafi Ólafssyni frá Hallsteinsnesi í Gufudalshreppi og hét því í fyrstu Ólahús. Grænigarður var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var innan skipulags byggðar er rísa skyldi samkvæmt stórhuga ráðum um atvinnuuppbyggingu um miðbik síðustu aldar. Húsið var um tíma í eigu Flateyjarhrepps og helstu íbúar voru Gestur Jónsson og fjölskylda, Nikulás Jensson og fjölskylda, Pétur Gissurason og fjölskylda sem þá var skipstjóri á Konráði, Hrönn Hafsteinsdóttir og um tíma átti Tryggvi Gunnarsson húsið.
Bræðraminni
Eigandi:
Félagið Bræðraminni í Flatey
Um húsið:
Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum.
Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar.
Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað.
Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.
Berg (Hafliðahús)
Eigandi:
Bjarni H. Sigurjónsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.
Eyjólfspakkhús
Eigandi:
Minjavernd
Um húsið:
Eyjólfur Einar Jóhannsson kaupmaður og bóndi lét byggja húsið um 1880 sem pakkhús. Guðmundur Bergsteinsson kaupmaður eignaðist síðan húsið og lét breyta því í fiskþurrkunarhús og m.a. koma þar fyrir þurrkofni. Eftir að verslun hans lagðist af komst húsið í eigu Flateyjarhrepps og var notað af ýmsum sem pakkhús og geymsla m.a. fyrir Ríkisskip. Minjavernd hf endurbyggði húsið á árunum frá 1987 til 2002 og tók það yfir til eignar 2007. Frá 2006 hefur húsið verið nýtt af Hótel Flatey og eru í því 5 gistiherbergi.
Ráðagerði
Eigandi:
Félag starfsmanna stjórnarráðsins
Um húsið:
Byggt 1976-1980 sem félags- og sumarbústaður fyrir starfsmenn stjórnarráðsins.
Herdísarhús (Gunnlaugshús)
Eigandi:
Valgerður og Þorsteinn Bergsbörn
Um húsið:
Herdísarhús (Gunnlaugshús) sem upphaflega var nefnt Nýjahús var reist af Brynjólfi Bogasyni Benedictsen (1807-1870) og konu hans Herdísi Guðmundsdóttir (Benedictsen) við lok fimmta áratug 19. aldar. Húsið er sambyggt austurgafli framhússins, sem var líklega byggt fyrir Guðmund Scheving Bjarnason. Brynjólfur tók við verslunarleyfi tengdaföðurs síns eftir lát hans. Hús þeirra hjóna er innflutt danskt kataloghús, líklega er það komið frá Jótlandi. Húsið þótti í upphafi reisulegast húsa á Vesturlandi og stofa þess bæði stærst og skrautlegust. Sérkenni í skreyti innanhúss, einkum loftflekar í stofu og samsetning þeirra geta bent til þess að þeir hafi fylgt húsinu. Ætlað er að þýskættaður beykir, Johann Ludvig Moul, hafi haft umsjón með því að reisa húsið. Eftir fráfall Brynjólfs 1870 flytur Herdís Benedictsen úr eynni.
Árið 1873 tók Verslunarfélag Eyjahrepps, nefnt Félagið við báðum húsunum og voru þau þá nefnd Félagshús. Félagið hafði rekstur í húsunum 1873 til 1888. Þá kaupa Hermann og Kristján Jónssynir bæði húsin og bjó Kristján í austurhlutanum. Gunnlaugur Sveinsson skipstjóri og kona hans Guðlaug Gunnlaugsdóttir eignast húsið 1906. Af síðari íbúum hússins má nefna Þórunni Gunnlaugsdóttir og m.h. Finnboga Guðmundsson, Svein Gunnlaugsson kennara og skólastjóra í Flatey, Ólaf Eirík Gunnlaugsson bónda og sjómann, Arnfinn Hansen vélstjóra og k.h. Björgu Ólafsdóttir Hansen og síðast Sigurberg Bogason trésmið og k.h. Kristínu Guðjónsdóttir.
Jónína Hermannsdóttir og Friðrik Salómonsson eignast húsið eftir 1955 eða síðar. Við fólksfækkun í eynni var húsið undir lokin nýtt sem geymsla fyrir verslun Hermanns Jónssonar sem Jónína dóttir hans rak eftir hans dag í fremra húsinu. Við lok þeirra afnota var húsið farið að láta mjög á sjá. Eigendur frá árinu 1975 eru Valgerður Bergsdóttir og m.h. Arnmundur S. Backmann (dáinn 1998) og Ingibjörg Á. Pétursdóttir og m.h. Þorsteinn Bergsson.
Krákuvör
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt 1970 af Jóhannesi Gíslasyni úr Skáleyjum og þáverandi konu hans, Svanhildi Jónsdóttir sem nú er bóndi í Flatey og býr í Krákuvör ásamt Magnúsi Arnari Jónssyni. Helstu smiðir af húsinu eru þeir bræður Jóhannesar, Ólafur og Eysteinn Gíslasynir ásamt Birni Guðmundssyni.