Önnur hús
Eyjólfshús (Oddahús, Tangahús, Pálshús)
Eigandi:
Steinn Ágúst, Hanna María og Katrín Baldvinsbörn ásamt Kristínu Ágústsdóttir.
Um húsið:
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Jóhannssyni kaupmanni sem íbúðar- og verslunarhús. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og oft kallaður “tröllið með barns-andlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði. Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja, áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga.
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Einar Jóhannssyni kaupmanni. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og var oft kallaður ”tröllið með barnsandlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði.
Eyjólfshús hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. Oddahús, Tangahús og Pálshús. Í fyrstu búa í Eyjólfshúsi fjölskyldur Bárar-Ólafs og dóttir hans Sigurborg ásamt tengdasyni hans Eyjólfur Einar Jóhannsson. 1903 Eignast Verslunarfélagið húsið og bjó Páll Andrés Sigurður Nikulásson (1864-1932) verslunarmaður og kona hans Björg Pétursdóttir (1875-1962) ljósmóðir í húsinu er þá nefnist Pálshús. 1914 kaupir Steinn Ágúst Jónsson (1879-1969) húsið ásamt konu sinni Katrínu Þórðardóttir (1886-1966) og bjuggju þau í Eyjólfshúsi í meira en fimmtíu ár. Steinn Ágúst var alla tíð mjög áberandi í félags-, atvinnu-, trúar- og menningarlífi Flateyjar. Verslunarmaður í byrjun komu sinnar til Flateyjar (1909) hjá Guðna kaupmanni Guðmundssyni og síðar hjá Guðmundi Bergsteinssyni kaupmanni. Stofnaði fyrstu barnastúku í Flatey, formaður ungmennasambands Norður-Breiðfirðinga, kosinn í sóknarnefnd Flateyjar 1912 og hafði forgöngu um byggingu hinnar nýju Flateyjarkirkju 1926 og meðhjálpari kirkjunnar um tugi ára, gjaldkeri Sparisjóðs Flateyjar frá 1925 og hreppsnefndaroddviti frá 1945. Í Eyjólfshúsi bjuggi í gegnum tíðina fjölmargir s.s. Bjarni Ingibjartur Bjarnason (1882-1944) sjómaður og kona hans Guðrún Júlíanna Guðmundsdóttir (1873-1956), Halldór Friðriksson (1871-1946) skipstjóri og kona hans Anna Ragnheiður Erlendsdóttir (1878-1954), Halldór Kolbeins Eyjólfsson (1893-1964) prestur og kona hans Lára Ágústa Ólafsdóttir (1898-1973) og síðar Vigfús Sigurbjörn Stefánsson (1890-1970) bóndi og kona hans Ingibjörg Einarsdóttir (1889-1963). Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja sem var áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga en bryggjan var stækkuð og steypt upp um 1934.
Eyjaberg
Eigandi:
Vaðsteinn ehf.
Um húsið:
Byggt 1994-6 af 16 barnabörnum Þórðar og Þorbjargar í Vesturbúðum og vígt á 100 ára fæðingaafmæli Þórðar Ben. 2. ágúst 1996. Meistari hússins er Sigurbjörn Guðjónsson. Húsið er byggt í anda gömlu húsanna í Flatey og fellur fallega inn í heildarhúsamynd eyjarinnar.
Sólheimar
Eigandi:
Gerður Gestsdóttir
Um húsið:
Byggt 1935 af Gesti O. Gestssyni en hann var skólastjóri 1933-1960 með hléum. Húsasmiðameistari og yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Gestur O. er afi Oddnýjar, Gest Karls og Ragnars í Sólheimum.
Byggt 1935 af Gesti Oddfinni Gestssyni kennara, skólastjóra og smið á háhólnum austan við Skansmýri, á svonefndum Myllumó en á þeim stað stóð áður vindmylla Guðmundar Schevings kaupmanns. Gestur fluttist til Flateyjar 1933 er hann tók við skólastjórastöðu í Flatey sem hann gengdi með hléum til 1959. Hann var húsasmíðameistari og var m.a. yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Kona Gests var Oddný Ingiríður Sölvadóttir fædd á Gafli í Svínavatnshreppi.
Strýta (Jaðar)
Eigandi:
Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson
Um húsið:
Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína.
Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Einarshús (Skrína)
Eigandi:
Hörður Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1905 af Einari Jónssyni sjómanni. Einar var Snæfellingur að upplagi en var við vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann flutti í Flatey og byggði sér hús við Hjallsvíkina sem nefnt var Einarshús. Einar var sjómaður alla tíð.
Byggt 1906 af Einari Jónssyni sjómanni. Seinna stækkaði hann húsið til norðurs og lyfti þakinu. Þess vegna varð það kallað Skrína. Einar var Snæfellingur en var í vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann fluttist í Flatey og byggði hús sitt við Hjallsvík. Einar bjó í húsinu með seinni konu sinni Guðríði Sigurðardóttir frá Þernuvík í Ögurhreppi. Sonur hennar var Þórður Valgeir Benjamínsson er var bóndi í Hergilsey. Annar sonur hennar var Magnús Kristinn Benjamínsson,verslunarmaður og bókavörður í Flatey en hann gerðist 1925 verslunarmaður hjá Kaupfélagi Flateyjar. Magnús var fatlaður frá frumbernsku en mikill andans maður, margfróður og listrænn með afbrigðum.
Læknishúsið
Eigandi:
Hafsteinn Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1953-1954 fyrir Flateyjarlæknishérað. Þrátt fyrir nafnið hefur aðeins einn læknir fyrir Flateyjarlæknishérað búið í húsinu frá 1956-1960 en það var Knútur Kristinsson fæddur á Söndum í Dýrafirði. Knútur sat í nefnd til að ”athuga atvinnuástand í Flateyjarhreppi og gera tillögur um ráðstafanir til endurreisnar atvinnulífs þar í hreppi.” Einnig bjó í húsinu séra Sigurður Elíasson, síðasti sóknarprestur sem sat í Flatey 1959-1960. Í tæplega fjögur ár (1961-1964) bjó í Læknishúsi Sigurjón Helgason fæddur 1929 útgerðarmaður og athafnamaður ásamt fjölskyldu sinni. Hann hafði allnokkra starfsemi í frystihúsi Flateyjar. Árið 1965 flytjast Hafsteinn Guðmundsson og kona hans Ólína Jónsdóttir úr Grundarfirði og setjast að í Læknishúsi í Flatey og hófu útgerð í félagi við fleiri. Urðu síðan bændur á Flatey I. Gerðu þar með húsið að íbúðarhúsi býlisins en á þessum tíma var föst búseta í fjórum eyjum, Flatey, Hvallátrum, Svefneyjum og Skálaeyjum.
Sunnuhvoll
Eigandi:
Baldur Þorleifsson og Gyða Steinsdóttir
Um húsið:
Byggt 2005 af Baldri Þorleifssyni trésmíðameistara og konu hans Gyðu Steinsdóttir.
Á Brekku, sunnan við húsaþyrpinguna við Holustíg, stóð torfbærinn Brekkubær. Jón Jónsson snikkari byggði þar timburhús árið 1928 og nefndi Sunnuhvol. Það hús var rifið upp úr 1970.
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.