Sólbakki (Stefánshús)
Eigandi:
María Jónsdóttir – Jón og Friðrik Einarssynir
Um húsið:
Byggt 1903 af Stefáni Stefánssyni meðhjálpara á rústum torfbæjarins Fjóskots, einnig nefndur Bakkabær, sem virðist vera sami bærinn. Hér bjó Viktor Guðnason og kona hans Jónína Ólafsdóttir Viktor starfaði lengst af í kaupfélaginu auk þess fást við söngstjórn og organleik – var póstmeistari og oddviti síðustu æviárin. Nefna má að Viktor er afi Viktors Arnar Ingólfssonar, rithöfundar sem m.a skrifaði Flateyjargátu.
Að Sólbakka frá Klausturhólum var símstöðin flutt 1956.
SKU: 168e16b01d6a
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Hermannshús (Félagshús, Benediktsenshús, Nýjahús)
Eigandi:
Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir.
Um húsið:
Húsið var byggt 1833-1836 sem íbúðarhús af Guðmundi Bjarnasyni Scheving (1776-1837) kaupmanni og útgerðarmanni og er húsið elsta hús í Flatey af þeim sem enn standa. Guðmundur var áður en hann kom til Flateyjar 1812 sýslumaður og amtmaður fyrir Barðastrandasýslu og sat í Haga. Guðmundur gerðist amtmaður yfir norðuramtinu fyrir Jörundar hundadagakonung er ríkti hér sumarið 1809 en sagði sig frá sýsluvöldum 1812 og fluttist til Flateyjar. Sagt er að Jörundur hafi gefið Guðmundi veggfóður sem skreytti hýbýli í Gunnlaugshúsi áfast Félagshúsi.
Guðmundur var frumkvöðull þilskipaútgerðar í Breiðafirði og þegar 1830 gerði hann út þrjú þilskip og keypti nokkru síðar 36 lesta skútu frá Danmörku til millilandasiglinga. 1833 var Guðmundi veitt agentsnafnbót af Danakonungi. Árið 1838 gekk Brynjólfur Bogason Benedictsen að eiga Herdísi dóttir Guðmundar og tók við rekstri tengdaföður síns. Þrettán árum síðar (1851) lét Brynjólfur byggja viðbyggingu við húsið sem nú er nefnt Gunnlaugshús eftir Gunnlaugi Sveinssyni (1861-1950). Þau hjónin bjuggu þar fram til 1873 en þá tók Verslunarfélag Eyhreppinga sem jafnan var nefnt Félagið við húsunum sem eftir það voru nefnd Félagshús. Félagið rak verslun í austurhlutanum 1873-1888 og bjó verslunarstjórinn, Ólafur Skagfjörð einnig í húsinu en hann var faðir athafnamannsins og heildsalans Kristjáns Ó. Skagfjörð. Árið1893 keyptu bræðurnir Hermann Sigurður og Kristján Sigurgeir Jónssynir húsið og rak Hermann verslun í viðbyggingu við norðurhlið hússins frá 1913 til dánardags 1943 lengi í samvinnu við dóttir sína Jónínu en hún rak verslunina allt til 1970.
Skólahúsið
Eigandi:
A-hluti, Þorsteinn Baldvinsson / V-hluti Heimir Sigurðsson, Gróa Þóra Pétursdóttir.
Um húsið:
Skólahús var byggt í Flatey 1909 eftir teikningum Rögnvalds Ólassonar arkitekts og var það Jón Jónsson snikkari sem sá um verkið. Samkvæmt teikningum Rögnvalds átti að hlaða húsið úr steyptum steini en í þess stað var það steypt án mikilla járnbindinga - að öðru leiti var teikningum Rögnvalds fylgt eftir. Í skólanum voru tvær kennslustofur og var kennt í skólanum fram yfir 1950. Byggðir voru nokkrir skólar út um land eftir sömu teikningu. Skólinn var rifinn af grunni 1992.
Nýtt hús var byggt 2006-2007 og var reynt að fylgja yfirbragði gamla skólans eins og hægt var m.a. eru gluggar á suðurhlið og hurð á gafli eftir teikningum Rögnvalds. Í húsinu eru nú tvær íbúðir.
Myllustaðir
Eigandi:
Ingólfur og Bjarni Karlssynir, Guðmundur Stefánsson, Jón Þórður Jónsson og Hilmar Björnsson
Um húsið:
Byggt 2000 af Pétri Kúld Ingólfssyni húsasmíðameistara og fleiri laghentum eigendum Myllustaða. Á þessum slóðum stóð litlu austar svartklætt timburhús er kallað var Myllustaðir en þar bjuggu þær Kristín Jónsdóttir og Einara móðir Árelíusar Nielssonar prests síðustu æviár sín. Áður bjó þar m.a. Magnús malari sem malaði korn í myllu Guðmundar Schevings kaupmanns sem stóð á Myllumó þar sem nú stendur húsið Sólheimar.
Vegamót
Eigandi:
Álfheiður Ingadóttir og Sigurmar Albertsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Bjarna Jónssyni bónda og verkamanni en hann var jafnan nefndur “Bjarni gaddur”. Bjarni var frá Hálshúsum í Reykjarfjarðarhreppi en ólst upp á Selskerjum í Múlasveit en fór þaðan á Deildará í sömu sveit áður en hann kemur í Flatey 1901. Bjó í Brekkubæ og síðar í Vegamótum. Síðustu íbúar Vegamóta í fastri búsetu voru Sveinn Jónsson og Margrét Gestsdóttir. Fluttu þangað úr Skáleyjum. Seinna áttu þar heima skamman tíma Þorsteinn Valgeirsson og Anna Jóna Kristjánsdóttir og börn þeirra.
Strýta (Jaðar)
Eigandi:
Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson
Um húsið:
Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína.
Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Bátaskýlið
Eigandi:
Teinæringsvogsfélagið og Magnús Jónsson
Um húsið:
Byggt 1993 af Teinæringsvogsfélaginu sem er sameignarfélag fjölmargra bátaeigenda í Flatey og var Gestur Karl í Sólheimum meistari að húsinu.
Ráðagerði
Eigandi:
Félag starfsmanna stjórnarráðsins
Um húsið:
Byggt 1976-1980 sem félags- og sumarbústaður fyrir starfsmenn stjórnarráðsins.
Ásgarður
Eigandi:
Afkomendur Guðmundar Bergsteinssonar og Jónínu Eyjólfsdóttur
Um húsið:
Byggt 1907 fyrir Guðmund Bergsteinsson kaupmann sem íbúðar- og verslunarhús. Guðmundur tók við verslun tengdaföður síns Eyjólfs Einars Jóhannssonar 1900, keypti Gamlhús, þá 130 ára gamals hús og reif niður en byggði Ásgarð á grunni þess. Rak umfangsmikla verslun og útgerð í Flatey í fjölmörg ár. Ásgarður var bæði íbúðar- og verslunarhús og Guðmundur og kona hans, Jónína Eyjólfsdóttir, versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960. Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins. Meðal afkomenda þeirra eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.