Pósthúsið
Eigandi:
Ólína Jónsdóttir
Um húsið:
Pósthúsinu var komið fyrir í ágætis vinnuskúr sem fluttur var til Flateyjar. Löngum var sagt að þetta væri ”minnsta pósthúsið á landinu” og var afar vinsælt meðal ferðamanna og eftirsóknarvert að fá kort sín og bréf stimpluð með Flateyjarstimpli. Ólína Jónsdóttir í Læknishúsi var póstmeistari en pósthúsið var lagt niður 2009. Húsið er í dag notað fyrir ferðamannagistingu að hætti bændagistingar.
SKU: 00dd16fa913c
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Einarshús (Skrína)
Eigandi:
Hörður Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1905 af Einari Jónssyni sjómanni. Einar var Snæfellingur að upplagi en var við vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann flutti í Flatey og byggði sér hús við Hjallsvíkina sem nefnt var Einarshús. Einar var sjómaður alla tíð.
Byggt 1906 af Einari Jónssyni sjómanni. Seinna stækkaði hann húsið til norðurs og lyfti þakinu. Þess vegna varð það kallað Skrína. Einar var Snæfellingur en var í vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann fluttist í Flatey og byggði hús sitt við Hjallsvík. Einar bjó í húsinu með seinni konu sinni Guðríði Sigurðardóttir frá Þernuvík í Ögurhreppi. Sonur hennar var Þórður Valgeir Benjamínsson er var bóndi í Hergilsey. Annar sonur hennar var Magnús Kristinn Benjamínsson,verslunarmaður og bókavörður í Flatey en hann gerðist 1925 verslunarmaður hjá Kaupfélagi Flateyjar. Magnús var fatlaður frá frumbernsku en mikill andans maður, margfróður og listrænn með afbrigðum.
Læknishúsið
Eigandi:
Hafsteinn Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1953-1954 fyrir Flateyjarlæknishérað. Þrátt fyrir nafnið hefur aðeins einn læknir fyrir Flateyjarlæknishérað búið í húsinu frá 1956-1960 en það var Knútur Kristinsson fæddur á Söndum í Dýrafirði. Knútur sat í nefnd til að ”athuga atvinnuástand í Flateyjarhreppi og gera tillögur um ráðstafanir til endurreisnar atvinnulífs þar í hreppi.” Einnig bjó í húsinu séra Sigurður Elíasson, síðasti sóknarprestur sem sat í Flatey 1959-1960. Í tæplega fjögur ár (1961-1964) bjó í Læknishúsi Sigurjón Helgason fæddur 1929 útgerðarmaður og athafnamaður ásamt fjölskyldu sinni. Hann hafði allnokkra starfsemi í frystihúsi Flateyjar. Árið 1965 flytjast Hafsteinn Guðmundsson og kona hans Ólína Jónsdóttir úr Grundarfirði og setjast að í Læknishúsi í Flatey og hófu útgerð í félagi við fleiri. Urðu síðan bændur á Flatey I. Gerðu þar með húsið að íbúðarhúsi býlisins en á þessum tíma var föst búseta í fjórum eyjum, Flatey, Hvallátrum, Svefneyjum og Skálaeyjum.
Samkomuhúsið (Nýjapakkahús, Loftskeytastöðin)
Eigandi:
Minjavernd
Um húsið:
Samkomuhúsið (til hægri á mynd) sem upphaflega var nefnt Nýjapakkhús var byggt um eða laust fyrir 1890. Það var reist á steinhlöðnum sökkli og var upphaflega tvílyft. Það var byggt sem pakkhús og nýtt fyrir verslunarrekstur í Flatey fram til 1918 þegar Landsíminn hóf þar rekstur loftskeytastöðvar. Ungmennafélag Flateyjar eignaðist húsið 1931 og var þá milligólfið tekið úr húsinu og gerðar á því fleiri breytingar. Það var þá jafnframt nýtt fyrir leikfimikennslu barnaskólans í Flatey. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið. Minjavernd tók húsið yfir til endurbyggingar 1987 og eignar 2007. Endurbygging hússins var lokið 2006 og þá hóf Hótel Flatey rekstur í því. Þar er nú matsalur hótelsins en salurinn er jafnframt nýttur fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi, tónlist, upplestur og dansleiki sem Hótel Flatey stendur fyrir.
Bentshús
Eigandi:
Birgir Magnússon, Ögmundur og Guðný Gerður Gunnarsbörn, Sigfús og Jón Jónssynir, Hallbjörn Bergmann
Um húsið:
Byggt 1871 af Bent Jónssyni kaupmanni en hann drukknaði 1873 í Breiðafirði á heimleið úr verslunarferð frá Danmörku. Bent hafði keypt lóðina undir Bentshús af ekkjunni Herdísi Benedicts. Árið 1894 keyptu húsið í félagi þau Hallbjörn Bergmann skipstjóri og kona hans Guðlaug Þorgeirsdóttir og Jóhann Guðjón Arason skipstjóri á skútunni Arney og kona hans Valborg Sigrún Jónsdóttir. Sigfús Bergmann kaupfélagsstjóri bjó síðan á efri hæð hússins eftir lát foreldra sinna en á neðri hæðinni Guðmundur Jóhannesson frá Skáleyjum, loftskeytamaður og stöðvarstjóri yfir loftskeytastöðinni í Flatey er tók til starfa 1. júlí 1918. Kona Guðmundar var Sigríður dóttir Jóhanns og Valborgar. Þau bjuggu í húsinu þar til loftskeytastöðin var lögð niður 1931. Ýmsir bjuggu á neðri hæðinni eftir það m.a. Arngrímur Björnsson læknir en hann var læknir í Flatey 1934-1942. Ögmundur Ólafsson skipstjóri á Konráði og kona hans Guðný Hallbjarnardóttir Bergmann (systir Sigfúsar Bergmann) keyptu neðri hæðina 1939 og bjuggu þar til 1943. Ágúst Pétursson , skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir keyptu hæðina af þeim. Ágúst tók við skipstjórn á flóabátnum Konráði af Ögmundi Ólafssyni þegar hann fluttist úr Flatey. Síðar varð hann skipstjóri á Sigurfara, fiskibát sem keyptur var nýr til Flateyjar 1946. Ögmundur keypti síðan neðri hæðina aftur af Ágústi og Ingu 1972. Eigendur neðri hæðar eru afkomendur Ögmundar Ólafssonar skipstjóra og k.h. Guðnýjar Jónínu Hallbjarnadóttur Bergmann. Eigendur efri hæðar eru afkomendur Sigfúsar H. Bergmanns kaupfélagsstjóra og k.h. Emilíu Jónsdóttur.
Bogabúð
Um húsið:
Byggt af Boga Guðmundssyni kaupmanni árið 1908. Bogabúð er fyrsta steinhúsið í Flatey og byggt sem íbúðar- og verslunarhús og rak Bogi í húsinu verslun um langt árabil. Sagan segir að þegar Bogabúð var byggt voru aðeins notuð tvö 10 tommu borð við uppslátt þess. Bogi var mikill hagleiksmaður og trésmiður er skar mikið út s.s. rúm-fjalir og kistla, smíðaði líkkistur og vann að smíði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd. Hægt er að sjá hagleiksverk hans á byggðasafninu að Hnjóti.
Byggt 1908-1910 af Boga Guðmundssyni (1877-1965) kaupmanni og smið en hann nam trésmíði hjá Magnúsi vert í Vertshúsi en húsið er fyrsta steinhúsið í Flatey. Bogi stundaði trésmíði framan af ævi m.a. við smíði Hagakirkju á Barðaströnd. Meðal smíðagripa hans eru kirkjugluggarnir í Flateyjarkirkju, skar út rúmfjalir og kistla sem víða fóru. Húsið var reist á grunni torfhúss er hét Svalbarði sem var verkstæði trésmiðs. Bogi fékk verslunarleyfi 1908 og hóf hann verslunarrekstur sinn í einu herbergi Bentshúss 1908. Hann rak síðan verslun í Bogabúð frá 1910-1962. Samhliða þessum verslunarrekstri í Bogabúð keypti hann Vertshúsið 1936 og rak þar veitingasölu ásamt konu sinni til ársins 1946. Kona Boga var Sigurborg Ólafsdóttir (1881-1952) fædd í Flatey. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna en börn þeirra voru Guðmundur (1903-1975), Ólína Guðrún (1904-1905), Ólafía (1905-1930), Jónína Sigríður (1907-2000), Yngvi (1909-1954), Lára (1910-1997), Sturla (1913-1994), Þórður (1915-1990), Kristín (1916-1943), Sigurberg (1918-2010) og Jón (1923-2009). Húsið var gert upp og endurbyggt upp úr 1980 en þá hafði húsið staðið autt í fjölmörg ár.
Bátaskýlið
Eigandi:
Teinæringsvogsfélagið og Magnús Jónsson
Um húsið:
Byggt 1993 af Teinæringsvogsfélaginu sem er sameignarfélag fjölmargra bátaeigenda í Flatey og var Gestur Karl í Sólheimum meistari að húsinu.
Bræðraminni
Eigandi:
Félagið Bræðraminni í Flatey
Um húsið:
Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum.
Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar.
Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað.
Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.
Berg (Hafliðahús)
Eigandi:
Bjarni H. Sigurjónsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.