Pósthúsið
Eigandi:
Ólína Jónsdóttir
Um húsið:
Pósthúsinu var komið fyrir í ágætis vinnuskúr sem fluttur var til Flateyjar. Löngum var sagt að þetta væri ”minnsta pósthúsið á landinu” og var afar vinsælt meðal ferðamanna og eftirsóknarvert að fá kort sín og bréf stimpluð með Flateyjarstimpli. Ólína Jónsdóttir í Læknishúsi var póstmeistari en pósthúsið var lagt niður 2009. Húsið er í dag notað fyrir ferðamannagistingu að hætti bændagistingar.
SKU: 00dd16fa913c
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Myllustaðir
Eigandi:
Ingólfur og Bjarni Karlssynir, Guðmundur Stefánsson, Jón Þórður Jónsson og Hilmar Björnsson
Um húsið:
Byggt 2000 af Pétri Kúld Ingólfssyni húsasmíðameistara og fleiri laghentum eigendum Myllustaða. Á þessum slóðum stóð litlu austar svartklætt timburhús er kallað var Myllustaðir en þar bjuggu þær Kristín Jónsdóttir og Einara móðir Árelíusar Nielssonar prests síðustu æviár sín. Áður bjó þar m.a. Magnús malari sem malaði korn í myllu Guðmundar Schevings kaupmanns sem stóð á Myllumó þar sem nú stendur húsið Sólheimar.
Eyjaberg
Eigandi:
Vaðsteinn ehf.
Um húsið:
Byggt 1994-6 af 16 barnabörnum Þórðar og Þorbjargar í Vesturbúðum og vígt á 100 ára fæðingaafmæli Þórðar Ben. 2. ágúst 1996. Meistari hússins er Sigurbjörn Guðjónsson. Húsið er byggt í anda gömlu húsanna í Flatey og fellur fallega inn í heildarhúsamynd eyjarinnar.
Læknishúsið
Eigandi:
Hafsteinn Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1953-1954 fyrir Flateyjarlæknishérað. Þrátt fyrir nafnið hefur aðeins einn læknir fyrir Flateyjarlæknishérað búið í húsinu frá 1956-1960 en það var Knútur Kristinsson fæddur á Söndum í Dýrafirði. Knútur sat í nefnd til að ”athuga atvinnuástand í Flateyjarhreppi og gera tillögur um ráðstafanir til endurreisnar atvinnulífs þar í hreppi.” Einnig bjó í húsinu séra Sigurður Elíasson, síðasti sóknarprestur sem sat í Flatey 1959-1960. Í tæplega fjögur ár (1961-1964) bjó í Læknishúsi Sigurjón Helgason fæddur 1929 útgerðarmaður og athafnamaður ásamt fjölskyldu sinni. Hann hafði allnokkra starfsemi í frystihúsi Flateyjar. Árið 1965 flytjast Hafsteinn Guðmundsson og kona hans Ólína Jónsdóttir úr Grundarfirði og setjast að í Læknishúsi í Flatey og hófu útgerð í félagi við fleiri. Urðu síðan bændur á Flatey I. Gerðu þar með húsið að íbúðarhúsi býlisins en á þessum tíma var föst búseta í fjórum eyjum, Flatey, Hvallátrum, Svefneyjum og Skálaeyjum.
Sjávarslóð
Eigandi:
Hafþór Hafsteinsson
Um húsið:
Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.
Krákuvör
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt 1970 af Jóhannesi Gíslasyni úr Skáleyjum og þáverandi konu hans, Svanhildi Jónsdóttir sem nú er bóndi í Flatey og býr í Krákuvör ásamt Magnúsi Arnari Jónssyni. Helstu smiðir af húsinu eru þeir bræður Jóhannesar, Ólafur og Eysteinn Gíslasynir ásamt Birni Guðmundssyni.
Einarshús (Skrína)
Eigandi:
Hörður Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1905 af Einari Jónssyni sjómanni. Einar var Snæfellingur að upplagi en var við vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann flutti í Flatey og byggði sér hús við Hjallsvíkina sem nefnt var Einarshús. Einar var sjómaður alla tíð.
Byggt 1906 af Einari Jónssyni sjómanni. Seinna stækkaði hann húsið til norðurs og lyfti þakinu. Þess vegna varð það kallað Skrína. Einar var Snæfellingur en var í vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann fluttist í Flatey og byggði hús sitt við Hjallsvík. Einar bjó í húsinu með seinni konu sinni Guðríði Sigurðardóttir frá Þernuvík í Ögurhreppi. Sonur hennar var Þórður Valgeir Benjamínsson er var bóndi í Hergilsey. Annar sonur hennar var Magnús Kristinn Benjamínsson,verslunarmaður og bókavörður í Flatey en hann gerðist 1925 verslunarmaður hjá Kaupfélagi Flateyjar. Magnús var fatlaður frá frumbernsku en mikill andans maður, margfróður og listrænn með afbrigðum.
Strýta (Jaðar)
Eigandi:
Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson
Um húsið:
Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína.
Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Bjarg (Jóhannesarhús, Jakobshús, Bókasafnið)
Eigandi:
Skáleyingarnir Þorgeir, Gísli og Einar Kári Kristóferssynir ásamt Ólafi Gíslasyni
Um húsið:
Byggt af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra árið 1897. Jóhannes fæddist í Bjarneyjum 1868 en var skipstjóri í Flatey til fjölda ára. Fluttist til Reykjavíkur og byggði hús við Skólavörðustíginn og nefndi Bjarg. Húsið var endurbyggð frá grunni 2000.
Byggt 1897 af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra úr Bjarneyjum en hann bjó hér aðeins fáein ár í byrjun og var það leigt Oddi Jónssyni lækni sem Flateyingar komu síðan af sér vegna drykkjuskapar hans aldamótaárið 1900 er hann fór að Miðhúsum í Reykhólalæknishéraði. Jóhannes flutti þá aftur í húsið og bjó þar er hann flutti frá Flatey 1907. Sama ár keypti Jakob Þorsteinsson verslunarmaður húsið og var það þá nefnt Jakobshús og bjó Jakob þar til dánardægurs 1935. Ekkja Jakobs var Kristín Jónsdóttir (1858-1946) ”ljósa” en hún var ljósmóðir í Flatey og bjó hún áfram í húsinu þar til hún dó 1946. Húsið var notað sem íbúðarhús fram á sjötta áratuginn. Erfingjar Kristínar gáfu húsið Bókasafninu í Flatey og hýsti það safnið frá 1954 til 1992. Þar réð ríkjum Sigríður Bogadóttir (Sigga Boga). Starf hennar sem bókavarðar var allt þar. Eftir að hún lét af störfum var safngæslan mjög laus í böndum um árabil. Húsið var að hrörna og eyðileggjast. Safninu var bjargað þaðan árið 1992 og sett í kassa og flutt að Reykhólum til geymslu. Áður eða 1968 var fágætasti hluti safnsins fluttur á Landsbókasafn til geymslu. Í þessum geymslum er safnið enn. Húsið komst í eigu Reykhólahrepps við sameiningu sveitarfélaga 1987. Það var endurbyggt frá grunni árið 2000 í umboði eiganda.