46. Gripahús, Flatey II
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt sem gripahús um 1906 af Magnúsi Sæbjörnssyni (1871-1924) lækni sem var læknir í Flateyjarhéraði 1903 til 1923. Magnús keypti 10 hundruð í Flatey árið 1905 af séra Lárusi Benediktssyni (1841-1920). Íbúðarhúsið sem fylgdi þeim jarðarkaupum var nefnt Læknishús af setu hans þar. Núverandi fjárhús Krákuvarar.
SKU: a311071246b0
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Grænigarður
Eigandi:
Helgi Haraldsson og Halla Dís Hallfreðsdóttir
Um húsið:
Byggt 1950 af Ólafi Ólafssyni frá Hallsteinsnesi í Gufudalshreppi og hét því í fyrstu Ólahús. Grænigarður var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var innan skipulags byggðar er rísa skyldi samkvæmt stórhuga ráðum um atvinnuuppbyggingu um miðbik síðustu aldar. Húsið var um tíma í eigu Flateyjarhrepps og helstu íbúar voru Gestur Jónsson og fjölskylda, Nikulás Jensson og fjölskylda, Pétur Gissurason og fjölskylda sem þá var skipstjóri á Konráði, Hrönn Hafsteinsdóttir og um tíma átti Tryggvi Gunnarsson húsið.
Ásgarður
Eigandi:
Afkomendur Guðmundar Bergsteinssonar og Jónínu Eyjólfsdóttur
Um húsið:
Byggt 1907 fyrir Guðmund Bergsteinsson kaupmann sem íbúðar- og verslunarhús. Guðmundur tók við verslun tengdaföður síns Eyjólfs Einars Jóhannssonar 1900, keypti Gamlhús, þá 130 ára gamals hús og reif niður en byggði Ásgarð á grunni þess. Rak umfangsmikla verslun og útgerð í Flatey í fjölmörg ár. Ásgarður var bæði íbúðar- og verslunarhús og Guðmundur og kona hans, Jónína Eyjólfsdóttir, versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960. Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins. Meðal afkomenda þeirra eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Hermannshús (Félagshús, Benediktsenshús, Nýjahús)
Eigandi:
Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir.
Um húsið:
Húsið var byggt 1833-1836 sem íbúðarhús af Guðmundi Bjarnasyni Scheving (1776-1837) kaupmanni og útgerðarmanni og er húsið elsta hús í Flatey af þeim sem enn standa. Guðmundur var áður en hann kom til Flateyjar 1812 sýslumaður og amtmaður fyrir Barðastrandasýslu og sat í Haga. Guðmundur gerðist amtmaður yfir norðuramtinu fyrir Jörundar hundadagakonung er ríkti hér sumarið 1809 en sagði sig frá sýsluvöldum 1812 og fluttist til Flateyjar. Sagt er að Jörundur hafi gefið Guðmundi veggfóður sem skreytti hýbýli í Gunnlaugshúsi áfast Félagshúsi.
Guðmundur var frumkvöðull þilskipaútgerðar í Breiðafirði og þegar 1830 gerði hann út þrjú þilskip og keypti nokkru síðar 36 lesta skútu frá Danmörku til millilandasiglinga. 1833 var Guðmundi veitt agentsnafnbót af Danakonungi. Árið 1838 gekk Brynjólfur Bogason Benedictsen að eiga Herdísi dóttir Guðmundar og tók við rekstri tengdaföður síns. Þrettán árum síðar (1851) lét Brynjólfur byggja viðbyggingu við húsið sem nú er nefnt Gunnlaugshús eftir Gunnlaugi Sveinssyni (1861-1950). Þau hjónin bjuggu þar fram til 1873 en þá tók Verslunarfélag Eyhreppinga sem jafnan var nefnt Félagið við húsunum sem eftir það voru nefnd Félagshús. Félagið rak verslun í austurhlutanum 1873-1888 og bjó verslunarstjórinn, Ólafur Skagfjörð einnig í húsinu en hann var faðir athafnamannsins og heildsalans Kristjáns Ó. Skagfjörð. Árið1893 keyptu bræðurnir Hermann Sigurður og Kristján Sigurgeir Jónssynir húsið og rak Hermann verslun í viðbyggingu við norðurhlið hússins frá 1913 til dánardags 1943 lengi í samvinnu við dóttir sína Jónínu en hún rak verslunina allt til 1970.
Byggðarendi
Eigandi:
Guðrún M Ársælsdóttir og Baldur Ragnarsson
Um húsið:
Byggt 1950 af Jóhanni Kristjánssyni fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð skipstjóri á flóabátnum Konráði BA. Kona hans var Kristín Ágústsdóttir úr Gufudalssveit. Þau bjuggu í Byggðarenda frá 1952-1962 er þau flytja á Akranes. Um nokkurn tíma var barnaskóli í húsinu. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið og nokkra vetur var rekinn í því barnaskóli. Helstu íbúar þess síðan voru Gunnar Jónsson og Aðalheiður Sigurðardóttir, Einir Guðmundsson og Marsibil Guðmundsdóttir, Jóhannes Geir Gíslason og Svanhildur Jónsdóttir, Árni Sigmundsson og Þórdís Una Gunnarsdóttir og Magnús Magnússon og Hrönn Hafsteinsdóttir.
Einarshús (Skrína)
Eigandi:
Hörður Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1905 af Einari Jónssyni sjómanni. Einar var Snæfellingur að upplagi en var við vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann flutti í Flatey og byggði sér hús við Hjallsvíkina sem nefnt var Einarshús. Einar var sjómaður alla tíð.
Byggt 1906 af Einari Jónssyni sjómanni. Seinna stækkaði hann húsið til norðurs og lyfti þakinu. Þess vegna varð það kallað Skrína. Einar var Snæfellingur en var í vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann fluttist í Flatey og byggði hús sitt við Hjallsvík. Einar bjó í húsinu með seinni konu sinni Guðríði Sigurðardóttir frá Þernuvík í Ögurhreppi. Sonur hennar var Þórður Valgeir Benjamínsson er var bóndi í Hergilsey. Annar sonur hennar var Magnús Kristinn Benjamínsson,verslunarmaður og bókavörður í Flatey en hann gerðist 1925 verslunarmaður hjá Kaupfélagi Flateyjar. Magnús var fatlaður frá frumbernsku en mikill andans maður, margfróður og listrænn með afbrigðum.
Ráðagerði
Eigandi:
Félag starfsmanna stjórnarráðsins
Um húsið:
Byggt 1976-1980 sem félags- og sumarbústaður fyrir starfsmenn stjórnarráðsins.
Bræðraminni
Eigandi:
Félagið Bræðraminni í Flatey
Um húsið:
Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum.
Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar.
Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað.
Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.