46. Gripahús, Flatey II
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt sem gripahús um 1906 af Magnúsi Sæbjörnssyni (1871-1924) lækni sem var læknir í Flateyjarhéraði 1903 til 1923. Magnús keypti 10 hundruð í Flatey árið 1905 af séra Lárusi Benediktssyni (1841-1920). Íbúðarhúsið sem fylgdi þeim jarðarkaupum var nefnt Læknishús af setu hans þar. Núverandi fjárhús Krákuvarar.
SKU: a311071246b0
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Einarshús (Skrína)
Eigandi:
Hörður Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1905 af Einari Jónssyni sjómanni. Einar var Snæfellingur að upplagi en var við vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann flutti í Flatey og byggði sér hús við Hjallsvíkina sem nefnt var Einarshús. Einar var sjómaður alla tíð.
Byggt 1906 af Einari Jónssyni sjómanni. Seinna stækkaði hann húsið til norðurs og lyfti þakinu. Þess vegna varð það kallað Skrína. Einar var Snæfellingur en var í vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann fluttist í Flatey og byggði hús sitt við Hjallsvík. Einar bjó í húsinu með seinni konu sinni Guðríði Sigurðardóttir frá Þernuvík í Ögurhreppi. Sonur hennar var Þórður Valgeir Benjamínsson er var bóndi í Hergilsey. Annar sonur hennar var Magnús Kristinn Benjamínsson,verslunarmaður og bókavörður í Flatey en hann gerðist 1925 verslunarmaður hjá Kaupfélagi Flateyjar. Magnús var fatlaður frá frumbernsku en mikill andans maður, margfróður og listrænn með afbrigðum.
Sólbakki (Stefánshús)
Eigandi:
María Jónsdóttir - Jón og Friðrik Einarssynir
Um húsið:
Byggt 1903 af Stefáni Stefánssyni meðhjálpara á rústum torfbæjarins Fjóskots, einnig nefndur Bakkabær, sem virðist vera sami bærinn. Hér bjó Viktor Guðnason og kona hans Jónína Ólafsdóttir Viktor starfaði lengst af í kaupfélaginu auk þess fást við söngstjórn og organleik - var póstmeistari og oddviti síðustu æviárin. Nefna má að Viktor er afi Viktors Arnar Ingólfssonar, rithöfundar sem m.a skrifaði Flateyjargátu.
Að Sólbakka frá Klausturhólum var símstöðin flutt 1956.
Bræðraminni
Eigandi:
Félagið Bræðraminni í Flatey
Um húsið:
Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum.
Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar.
Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað.
Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.
Grænigarður
Eigandi:
Helgi Haraldsson og Halla Dís Hallfreðsdóttir
Um húsið:
Byggt 1950 af Ólafi Ólafssyni frá Hallsteinsnesi í Gufudalshreppi og hét því í fyrstu Ólahús. Grænigarður var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var innan skipulags byggðar er rísa skyldi samkvæmt stórhuga ráðum um atvinnuuppbyggingu um miðbik síðustu aldar. Húsið var um tíma í eigu Flateyjarhrepps og helstu íbúar voru Gestur Jónsson og fjölskylda, Nikulás Jensson og fjölskylda, Pétur Gissurason og fjölskylda sem þá var skipstjóri á Konráði, Hrönn Hafsteinsdóttir og um tíma átti Tryggvi Gunnarsson húsið.
Strýta (Jaðar)
Eigandi:
Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson
Um húsið:
Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína.
Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Straumur – Rarik
Eigandi:
Starfsmannafélag RARIK
Um húsið:
Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.
Bogabúð
Um húsið:
Byggt af Boga Guðmundssyni kaupmanni árið 1908. Bogabúð er fyrsta steinhúsið í Flatey og byggt sem íbúðar- og verslunarhús og rak Bogi í húsinu verslun um langt árabil. Sagan segir að þegar Bogabúð var byggt voru aðeins notuð tvö 10 tommu borð við uppslátt þess. Bogi var mikill hagleiksmaður og trésmiður er skar mikið út s.s. rúm-fjalir og kistla, smíðaði líkkistur og vann að smíði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd. Hægt er að sjá hagleiksverk hans á byggðasafninu að Hnjóti.
Byggt 1908-1910 af Boga Guðmundssyni (1877-1965) kaupmanni og smið en hann nam trésmíði hjá Magnúsi vert í Vertshúsi en húsið er fyrsta steinhúsið í Flatey. Bogi stundaði trésmíði framan af ævi m.a. við smíði Hagakirkju á Barðaströnd. Meðal smíðagripa hans eru kirkjugluggarnir í Flateyjarkirkju, skar út rúmfjalir og kistla sem víða fóru. Húsið var reist á grunni torfhúss er hét Svalbarði sem var verkstæði trésmiðs. Bogi fékk verslunarleyfi 1908 og hóf hann verslunarrekstur sinn í einu herbergi Bentshúss 1908. Hann rak síðan verslun í Bogabúð frá 1910-1962. Samhliða þessum verslunarrekstri í Bogabúð keypti hann Vertshúsið 1936 og rak þar veitingasölu ásamt konu sinni til ársins 1946. Kona Boga var Sigurborg Ólafsdóttir (1881-1952) fædd í Flatey. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna en börn þeirra voru Guðmundur (1903-1975), Ólína Guðrún (1904-1905), Ólafía (1905-1930), Jónína Sigríður (1907-2000), Yngvi (1909-1954), Lára (1910-1997), Sturla (1913-1994), Þórður (1915-1990), Kristín (1916-1943), Sigurberg (1918-2010) og Jón (1923-2009). Húsið var gert upp og endurbyggt upp úr 1980 en þá hafði húsið staðið autt í fjölmörg ár.
Sjávarslóð
Eigandi:
Hafþór Hafsteinsson
Um húsið:
Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.