Frystihúsið
Eigandi:
Þrísker ehf.
Um húsið:
Byggt á árunum 1946 – 1951. Það voru stórhuga menn sem um miðja síðustu öld vildu hefja Flatey til vegs sem miðstöð samgangna og atvinnu um norðanverðan Breiðafjörð. Hafskipabryggjan og hraðfrystihúsið urðu til. Starfsemin var mest í frystihúsinu 1952 með tveim vertíðarbátum og fiskvinnslu og með fjölmörgu af aðkomufólki þar sem vertíðarstemming ríkti. Síðan kom árabil lægðar og nýrrar viðleitni. Við þessar aðstæður á seinni áratugum aldarinnar hrörnaði húsið mjög. Við sameiningu hreppanna í Austur-Barðastrandsýslu komst það í ábyrgð Reykhólahrepps. Þá kom til álita að rífa húsið og byggja annað minna. Talsmaður þess að heldur yrði gert við frystihúsið í heild var löngum Hafsteinn Guðmundsson. Það var svo undir stjórn og átaki Gyðu Steinsdóttir sem félagið Þrísker ehf varð til og hafist var handa. Framkvæmdastjóri og yfirsmiður var Baldur Þorleifsson. Í dag er í gömlu vinnusölunum rekin verslunin, Bryggjubúðin undir stjórn Lísu Kristjánsdóttir. Hvort eða hvernig önnur umtalsverð starfsemi kemst þar á koppinn mun tíminn leiða í ljós. Nóg er plássið.