Eyjaberg
Eigandi:
Vaðsteinn ehf.
Um húsið:
Byggt 1994-6 af 16 barnabörnum Þórðar og Þorbjargar í Vesturbúðum og vígt á 100 ára fæðingaafmæli Þórðar Ben. 2. ágúst 1996. Meistari hússins er Sigurbjörn Guðjónsson. Húsið er byggt í anda gömlu húsanna í Flatey og fellur fallega inn í heildarhúsamynd eyjarinnar.
SKU: 89c97362059c
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Grænigarður
Eigandi:
Helgi Haraldsson og Halla Dís Hallfreðsdóttir
Um húsið:
Byggt 1950 af Ólafi Ólafssyni frá Hallsteinsnesi í Gufudalshreppi og hét því í fyrstu Ólahús. Grænigarður var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var innan skipulags byggðar er rísa skyldi samkvæmt stórhuga ráðum um atvinnuuppbyggingu um miðbik síðustu aldar. Húsið var um tíma í eigu Flateyjarhrepps og helstu íbúar voru Gestur Jónsson og fjölskylda, Nikulás Jensson og fjölskylda, Pétur Gissurason og fjölskylda sem þá var skipstjóri á Konráði, Hrönn Hafsteinsdóttir og um tíma átti Tryggvi Gunnarsson húsið.
Bentshús
Eigandi:
Birgir Magnússon, Ögmundur og Guðný Gerður Gunnarsbörn, Sigfús og Jón Jónssynir, Hallbjörn Bergmann
Um húsið:
Byggt 1871 af Bent Jónssyni kaupmanni en hann drukknaði 1873 í Breiðafirði á heimleið úr verslunarferð frá Danmörku. Bent hafði keypt lóðina undir Bentshús af ekkjunni Herdísi Benedicts. Árið 1894 keyptu húsið í félagi þau Hallbjörn Bergmann skipstjóri og kona hans Guðlaug Þorgeirsdóttir og Jóhann Guðjón Arason skipstjóri á skútunni Arney og kona hans Valborg Sigrún Jónsdóttir. Sigfús Bergmann kaupfélagsstjóri bjó síðan á efri hæð hússins eftir lát foreldra sinna en á neðri hæðinni Guðmundur Jóhannesson frá Skáleyjum, loftskeytamaður og stöðvarstjóri yfir loftskeytastöðinni í Flatey er tók til starfa 1. júlí 1918. Kona Guðmundar var Sigríður dóttir Jóhanns og Valborgar. Þau bjuggu í húsinu þar til loftskeytastöðin var lögð niður 1931. Ýmsir bjuggu á neðri hæðinni eftir það m.a. Arngrímur Björnsson læknir en hann var læknir í Flatey 1934-1942. Ögmundur Ólafsson skipstjóri á Konráði og kona hans Guðný Hallbjarnardóttir Bergmann (systir Sigfúsar Bergmann) keyptu neðri hæðina 1939 og bjuggu þar til 1943. Ágúst Pétursson , skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir keyptu hæðina af þeim. Ágúst tók við skipstjórn á flóabátnum Konráði af Ögmundi Ólafssyni þegar hann fluttist úr Flatey. Síðar varð hann skipstjóri á Sigurfara, fiskibát sem keyptur var nýr til Flateyjar 1946. Ögmundur keypti síðan neðri hæðina aftur af Ágústi og Ingu 1972. Eigendur neðri hæðar eru afkomendur Ögmundar Ólafssonar skipstjóra og k.h. Guðnýjar Jónínu Hallbjarnadóttur Bergmann. Eigendur efri hæðar eru afkomendur Sigfúsar H. Bergmanns kaupfélagsstjóra og k.h. Emilíu Jónsdóttur.
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Læknishúsið
Eigandi:
Hafsteinn Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1953-1954 fyrir Flateyjarlæknishérað. Þrátt fyrir nafnið hefur aðeins einn læknir fyrir Flateyjarlæknishérað búið í húsinu frá 1956-1960 en það var Knútur Kristinsson fæddur á Söndum í Dýrafirði. Knútur sat í nefnd til að ”athuga atvinnuástand í Flateyjarhreppi og gera tillögur um ráðstafanir til endurreisnar atvinnulífs þar í hreppi.” Einnig bjó í húsinu séra Sigurður Elíasson, síðasti sóknarprestur sem sat í Flatey 1959-1960. Í tæplega fjögur ár (1961-1964) bjó í Læknishúsi Sigurjón Helgason fæddur 1929 útgerðarmaður og athafnamaður ásamt fjölskyldu sinni. Hann hafði allnokkra starfsemi í frystihúsi Flateyjar. Árið 1965 flytjast Hafsteinn Guðmundsson og kona hans Ólína Jónsdóttir úr Grundarfirði og setjast að í Læknishúsi í Flatey og hófu útgerð í félagi við fleiri. Urðu síðan bændur á Flatey I. Gerðu þar með húsið að íbúðarhúsi býlisins en á þessum tíma var föst búseta í fjórum eyjum, Flatey, Hvallátrum, Svefneyjum og Skálaeyjum.
Samkomuhúsið (Nýjapakkahús, Loftskeytastöðin)
Eigandi:
Minjavernd
Um húsið:
Samkomuhúsið (til hægri á mynd) sem upphaflega var nefnt Nýjapakkhús var byggt um eða laust fyrir 1890. Það var reist á steinhlöðnum sökkli og var upphaflega tvílyft. Það var byggt sem pakkhús og nýtt fyrir verslunarrekstur í Flatey fram til 1918 þegar Landsíminn hóf þar rekstur loftskeytastöðvar. Ungmennafélag Flateyjar eignaðist húsið 1931 og var þá milligólfið tekið úr húsinu og gerðar á því fleiri breytingar. Það var þá jafnframt nýtt fyrir leikfimikennslu barnaskólans í Flatey. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið. Minjavernd tók húsið yfir til endurbyggingar 1987 og eignar 2007. Endurbygging hússins var lokið 2006 og þá hóf Hótel Flatey rekstur í því. Þar er nú matsalur hótelsins en salurinn er jafnframt nýttur fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi, tónlist, upplestur og dansleiki sem Hótel Flatey stendur fyrir.
Sólheimar
Eigandi:
Gerður Gestsdóttir
Um húsið:
Byggt 1935 af Gesti O. Gestssyni en hann var skólastjóri 1933-1960 með hléum. Húsasmiðameistari og yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Gestur O. er afi Oddnýjar, Gest Karls og Ragnars í Sólheimum.
Byggt 1935 af Gesti Oddfinni Gestssyni kennara, skólastjóra og smið á háhólnum austan við Skansmýri, á svonefndum Myllumó en á þeim stað stóð áður vindmylla Guðmundar Schevings kaupmanns. Gestur fluttist til Flateyjar 1933 er hann tók við skólastjórastöðu í Flatey sem hann gengdi með hléum til 1959. Hann var húsasmíðameistari og var m.a. yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Kona Gests var Oddný Ingiríður Sölvadóttir fædd á Gafli í Svínavatnshreppi.
Ráðagerði
Eigandi:
Félag starfsmanna stjórnarráðsins
Um húsið:
Byggt 1976-1980 sem félags- og sumarbústaður fyrir starfsmenn stjórnarráðsins.
Bogabúð
Um húsið:
Byggt af Boga Guðmundssyni kaupmanni árið 1908. Bogabúð er fyrsta steinhúsið í Flatey og byggt sem íbúðar- og verslunarhús og rak Bogi í húsinu verslun um langt árabil. Sagan segir að þegar Bogabúð var byggt voru aðeins notuð tvö 10 tommu borð við uppslátt þess. Bogi var mikill hagleiksmaður og trésmiður er skar mikið út s.s. rúm-fjalir og kistla, smíðaði líkkistur og vann að smíði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd. Hægt er að sjá hagleiksverk hans á byggðasafninu að Hnjóti.
Byggt 1908-1910 af Boga Guðmundssyni (1877-1965) kaupmanni og smið en hann nam trésmíði hjá Magnúsi vert í Vertshúsi en húsið er fyrsta steinhúsið í Flatey. Bogi stundaði trésmíði framan af ævi m.a. við smíði Hagakirkju á Barðaströnd. Meðal smíðagripa hans eru kirkjugluggarnir í Flateyjarkirkju, skar út rúmfjalir og kistla sem víða fóru. Húsið var reist á grunni torfhúss er hét Svalbarði sem var verkstæði trésmiðs. Bogi fékk verslunarleyfi 1908 og hóf hann verslunarrekstur sinn í einu herbergi Bentshúss 1908. Hann rak síðan verslun í Bogabúð frá 1910-1962. Samhliða þessum verslunarrekstri í Bogabúð keypti hann Vertshúsið 1936 og rak þar veitingasölu ásamt konu sinni til ársins 1946. Kona Boga var Sigurborg Ólafsdóttir (1881-1952) fædd í Flatey. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna en börn þeirra voru Guðmundur (1903-1975), Ólína Guðrún (1904-1905), Ólafía (1905-1930), Jónína Sigríður (1907-2000), Yngvi (1909-1954), Lára (1910-1997), Sturla (1913-1994), Þórður (1915-1990), Kristín (1916-1943), Sigurberg (1918-2010) og Jón (1923-2009). Húsið var gert upp og endurbyggt upp úr 1980 en þá hafði húsið staðið autt í fjölmörg ár.