Eyjaberg
Eigandi:
Vaðsteinn ehf.
Um húsið:
Byggt 1994-6 af 16 barnabörnum Þórðar og Þorbjargar í Vesturbúðum og vígt á 100 ára fæðingaafmæli Þórðar Ben. 2. ágúst 1996. Meistari hússins er Sigurbjörn Guðjónsson. Húsið er byggt í anda gömlu húsanna í Flatey og fellur fallega inn í heildarhúsamynd eyjarinnar.
SKU: 89c97362059c
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Einarshús (Skrína)
Eigandi:
Hörður Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1905 af Einari Jónssyni sjómanni. Einar var Snæfellingur að upplagi en var við vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann flutti í Flatey og byggði sér hús við Hjallsvíkina sem nefnt var Einarshús. Einar var sjómaður alla tíð.
Byggt 1906 af Einari Jónssyni sjómanni. Seinna stækkaði hann húsið til norðurs og lyfti þakinu. Þess vegna varð það kallað Skrína. Einar var Snæfellingur en var í vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann fluttist í Flatey og byggði hús sitt við Hjallsvík. Einar bjó í húsinu með seinni konu sinni Guðríði Sigurðardóttir frá Þernuvík í Ögurhreppi. Sonur hennar var Þórður Valgeir Benjamínsson er var bóndi í Hergilsey. Annar sonur hennar var Magnús Kristinn Benjamínsson,verslunarmaður og bókavörður í Flatey en hann gerðist 1925 verslunarmaður hjá Kaupfélagi Flateyjar. Magnús var fatlaður frá frumbernsku en mikill andans maður, margfróður og listrænn með afbrigðum.
Krákuvör
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt 1970 af Jóhannesi Gíslasyni úr Skáleyjum og þáverandi konu hans, Svanhildi Jónsdóttir sem nú er bóndi í Flatey og býr í Krákuvör ásamt Magnúsi Arnari Jónssyni. Helstu smiðir af húsinu eru þeir bræður Jóhannesar, Ólafur og Eysteinn Gíslasynir ásamt Birni Guðmundssyni.
Bræðraminni
Eigandi:
Félagið Bræðraminni í Flatey
Um húsið:
Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum.
Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar.
Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað.
Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.
Samkomuhúsið (Nýjapakkahús, Loftskeytastöðin)
Eigandi:
Minjavernd
Um húsið:
Samkomuhúsið (til hægri á mynd) sem upphaflega var nefnt Nýjapakkhús var byggt um eða laust fyrir 1890. Það var reist á steinhlöðnum sökkli og var upphaflega tvílyft. Það var byggt sem pakkhús og nýtt fyrir verslunarrekstur í Flatey fram til 1918 þegar Landsíminn hóf þar rekstur loftskeytastöðvar. Ungmennafélag Flateyjar eignaðist húsið 1931 og var þá milligólfið tekið úr húsinu og gerðar á því fleiri breytingar. Það var þá jafnframt nýtt fyrir leikfimikennslu barnaskólans í Flatey. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið. Minjavernd tók húsið yfir til endurbyggingar 1987 og eignar 2007. Endurbygging hússins var lokið 2006 og þá hóf Hótel Flatey rekstur í því. Þar er nú matsalur hótelsins en salurinn er jafnframt nýttur fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi, tónlist, upplestur og dansleiki sem Hótel Flatey stendur fyrir.
Grænigarður
Eigandi:
Helgi Haraldsson og Halla Dís Hallfreðsdóttir
Um húsið:
Byggt 1950 af Ólafi Ólafssyni frá Hallsteinsnesi í Gufudalshreppi og hét því í fyrstu Ólahús. Grænigarður var fyrsta íbúðarhúsið sem byggt var innan skipulags byggðar er rísa skyldi samkvæmt stórhuga ráðum um atvinnuuppbyggingu um miðbik síðustu aldar. Húsið var um tíma í eigu Flateyjarhrepps og helstu íbúar voru Gestur Jónsson og fjölskylda, Nikulás Jensson og fjölskylda, Pétur Gissurason og fjölskylda sem þá var skipstjóri á Konráði, Hrönn Hafsteinsdóttir og um tíma átti Tryggvi Gunnarsson húsið.
Ásgarður
Eigandi:
Afkomendur Guðmundar Bergsteinssonar og Jónínu Eyjólfsdóttur
Um húsið:
Byggt 1907 fyrir Guðmund Bergsteinsson kaupmann sem íbúðar- og verslunarhús. Guðmundur tók við verslun tengdaföður síns Eyjólfs Einars Jóhannssonar 1900, keypti Gamlhús, þá 130 ára gamals hús og reif niður en byggði Ásgarð á grunni þess. Rak umfangsmikla verslun og útgerð í Flatey í fjölmörg ár. Ásgarður var bæði íbúðar- og verslunarhús og Guðmundur og kona hans, Jónína Eyjólfsdóttir, versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960. Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins. Meðal afkomenda þeirra eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.
Bátaskýlið
Eigandi:
Teinæringsvogsfélagið og Magnús Jónsson
Um húsið:
Byggt 1993 af Teinæringsvogsfélaginu sem er sameignarfélag fjölmargra bátaeigenda í Flatey og var Gestur Karl í Sólheimum meistari að húsinu.
Sjávarslóð
Eigandi:
Hafþór Hafsteinsson
Um húsið:
Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.
