Bogabúð
Um húsið:
Byggt af Boga Guðmundssyni kaupmanni árið 1908. Bogabúð er fyrsta steinhúsið í Flatey og byggt sem íbúðar- og verslunarhús og rak Bogi í húsinu verslun um langt árabil. Sagan segir að þegar Bogabúð var byggt voru aðeins notuð tvö 10 tommu borð við uppslátt þess. Bogi var mikill hagleiksmaður og trésmiður er skar mikið út s.s. rúm-fjalir og kistla, smíðaði líkkistur og vann að smíði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd. Hægt er að sjá hagleiksverk hans á byggðasafninu að Hnjóti.
Byggt 1908-1910 af Boga Guðmundssyni (1877-1965) kaupmanni og smið en hann nam trésmíði hjá Magnúsi vert í Vertshúsi en húsið er fyrsta steinhúsið í Flatey. Bogi stundaði trésmíði framan af ævi m.a. við smíði Hagakirkju á Barðaströnd. Meðal smíðagripa hans eru kirkjugluggarnir í Flateyjarkirkju, skar út rúmfjalir og kistla sem víða fóru. Húsið var reist á grunni torfhúss er hét Svalbarði sem var verkstæði trésmiðs. Bogi fékk verslunarleyfi 1908 og hóf hann verslunarrekstur sinn í einu herbergi Bentshúss 1908. Hann rak síðan verslun í Bogabúð frá 1910-1962. Samhliða þessum verslunarrekstri í Bogabúð keypti hann Vertshúsið 1936 og rak þar veitingasölu ásamt konu sinni til ársins 1946. Kona Boga var Sigurborg Ólafsdóttir (1881-1952) fædd í Flatey. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna en börn þeirra voru Guðmundur (1903-1975), Ólína Guðrún (1904-1905), Ólafía (1905-1930), Jónína Sigríður (1907-2000), Yngvi (1909-1954), Lára (1910-1997), Sturla (1913-1994), Þórður (1915-1990), Kristín (1916-1943), Sigurberg (1918-2010) og Jón (1923-2009). Húsið var gert upp og endurbyggt upp úr 1980 en þá hafði húsið staðið autt í fjölmörg ár.