Bentshús
Eigandi:
Birgir Magnússon, Ögmundur og Guðný Gerður Gunnarsbörn, Sigfús og Jón Jónssynir, Hallbjörn Bergmann
Um húsið:
Byggt 1871 af Bent Jónssyni kaupmanni en hann drukknaði 1873 í Breiðafirði á heimleið úr verslunarferð frá Danmörku. Bent hafði keypt lóðina undir Bentshús af ekkjunni Herdísi Benedicts. Árið 1894 keyptu húsið í félagi þau Hallbjörn Bergmann skipstjóri og kona hans Guðlaug Þorgeirsdóttir og Jóhann Guðjón Arason skipstjóri á skútunni Arney og kona hans Valborg Sigrún Jónsdóttir. Sigfús Bergmann kaupfélagsstjóri bjó síðan á efri hæð hússins eftir lát foreldra sinna en á neðri hæðinni Guðmundur Jóhannesson frá Skáleyjum, loftskeytamaður og stöðvarstjóri yfir loftskeytastöðinni í Flatey er tók til starfa 1. júlí 1918. Kona Guðmundar var Sigríður dóttir Jóhanns og Valborgar. Þau bjuggu í húsinu þar til loftskeytastöðin var lögð niður 1931. Ýmsir bjuggu á neðri hæðinni eftir það m.a. Arngrímur Björnsson læknir en hann var læknir í Flatey 1934-1942. Ögmundur Ólafsson skipstjóri á Konráði og kona hans Guðný Hallbjarnardóttir Bergmann (systir Sigfúsar Bergmann) keyptu neðri hæðina 1939 og bjuggu þar til 1943. Ágúst Pétursson , skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir keyptu hæðina af þeim. Ágúst tók við skipstjórn á flóabátnum Konráði af Ögmundi Ólafssyni þegar hann fluttist úr Flatey. Síðar varð hann skipstjóri á Sigurfara, fiskibát sem keyptur var nýr til Flateyjar 1946. Ögmundur keypti síðan neðri hæðina aftur af Ágústi og Ingu 1972. Eigendur neðri hæðar eru afkomendur Ögmundar Ólafssonar skipstjóra og k.h. Guðnýjar Jónínu Hallbjarnadóttur Bergmann. Eigendur efri hæðar eru afkomendur Sigfúsar H. Bergmanns kaupfélagsstjóra og k.h. Emilíu Jónsdóttur.