Flateyjarkirkja
Eigandi:
Flateyjarsöfnuður
Um húsið:
Byggð 1926. Eftir margra ára deilur um staðsetningu hennar og yfirtöku safnaðar úr höndum bænda var henni fenginn staður á núverandi stað, Bókhúsaflöt þar sem eyjan rís hæst. Aðdrættir efnis hófust í ársbyrjun 1926 og er kirkjan vígð 19. desember 1926. Við vígslu kirkjunnar var frumflutt lag Sigvalda Kaldalóns (1881-1946) við ljóð Eggerts Ólafssonar náttúrufræðings úr Svefneyjum, Ísland ögrum skorið en Sigvaldi var læknir í Flatey 1926-1929 og bjó í Læknishúsi hinu eldra. Um jól sama ár var annað þekkt lag Sigvalda frumflutt í kirkjunni við ljóð Stefáns frá Hvítadal, Kirkjan ómar öll. Næsta kirkja á undan henni var timburkirkja er stóð í kirkjugarði miðjum og byggð 1861 í tíð Ólafs Sívertsen. Kirkja hefur verið í Flatey um aldir.
Um nústandandi kirkjuhús hefur sitthvað verið skráð og er til bæði birt og óbirt. Látum nægja hér; Arkitekt var Guðjón Samúelsson og yfirsmiður Jónas Snæbjörnsson frá Hergilsey húsasmiður og kennari á Akureyri. Umbætur í málun innanhúss 1943 unnar af heimamönnum. Myndskreyting Baltasar 1965, endurunnin 1990 og lagfærð um aldamót og aftur 2013. Mikill fróðleikur í óvaranleik skreytingarinnar. Mikil viðgerð innanhús 1990-1996 er Minjavernd stjórnaði og vann að. Kirkjan var endurvígð 1996 af Ólafi Skúlasyni biskup. Safnaðarformaður lengst af eða 1926–1964 var Steinn Ágúst Jónsson, Eyjólfshúsi. 1964 –2010 Jóhannes Geir Gíslason Skáleyjum. Sóknarprestur nú er sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, Reykhólum. Kirkjustjórn nú: Gunnar Sveinsson, Eyjólfshúsi, Svanhildur Jónsdóttir, Krákuvör og Guðrún Marta Ársælsdóttir, Byggðarenda.
Það var 400 manna söfnuður sem byggði þessa kirkju á sínum tíma það er því afar erfitt að viðhalda sókn og sóknarkirkju þar sem lögmætur söfnuður er innan við tíu manns en með hjálp og velvilja fjölmargra velunnara Flateyjar hefur það tekist farsællega.