Vinaminni
Eigandi:
Óskar Eyþórsson og Dagbjört Höskuldsdóttir
Um húsið:
Byggt 1908-1909 af Guðmundi Guðmundssyni kaupmanni en kona hans var Jensína Henríetta skáldkona dóttir Hermanns S. Jónssonar skipstjóra og verslunarmanns í Hermannshúsi. Árið 1913 flytjast þau úr Flatey í Otradal í Arnarfirði og þá kaupa húsið Sigurður Sigurðsson ”norski” en hann ólst upp í Norskubúð og kona hans Kristbjörg Sigurðardóttir og Guðjón Ingimundarson sjómaður og beykir frá Bjarneyjum og kona hans Geirríður Sigurðardóttir. Um langt skeið voru tvær íbúðir í sitt hvorri burstinni. 1967 keyptu Anna Kristín Björnsdóttir og Sveinbjörn Pétursson sjómaður fæddur í Svefneyjum og bjuggu til 1983. Þá keyptu Pétur og Eyþór Ágústssynir húsið.
SKU: ac2e11628bb3
Flokkur: Húsin
Önnur hús
Herdísarhús (Gunnlaugshús)
Eigandi:
Valgerður og Þorsteinn Bergsbörn
Um húsið:
Herdísarhús (Gunnlaugshús) sem upphaflega var nefnt Nýjahús var reist af Brynjólfi Bogasyni Benedictsen (1807-1870) og konu hans Herdísi Guðmundsdóttir (Benedictsen) við lok fimmta áratug 19. aldar. Húsið er sambyggt austurgafli framhússins, sem var líklega byggt fyrir Guðmund Scheving Bjarnason. Brynjólfur tók við verslunarleyfi tengdaföðurs síns eftir lát hans. Hús þeirra hjóna er innflutt danskt kataloghús, líklega er það komið frá Jótlandi. Húsið þótti í upphafi reisulegast húsa á Vesturlandi og stofa þess bæði stærst og skrautlegust. Sérkenni í skreyti innanhúss, einkum loftflekar í stofu og samsetning þeirra geta bent til þess að þeir hafi fylgt húsinu. Ætlað er að þýskættaður beykir, Johann Ludvig Moul, hafi haft umsjón með því að reisa húsið. Eftir fráfall Brynjólfs 1870 flytur Herdís Benedictsen úr eynni.
Árið 1873 tók Verslunarfélag Eyjahrepps, nefnt Félagið við báðum húsunum og voru þau þá nefnd Félagshús. Félagið hafði rekstur í húsunum 1873 til 1888. Þá kaupa Hermann og Kristján Jónssynir bæði húsin og bjó Kristján í austurhlutanum. Gunnlaugur Sveinsson skipstjóri og kona hans Guðlaug Gunnlaugsdóttir eignast húsið 1906. Af síðari íbúum hússins má nefna Þórunni Gunnlaugsdóttir og m.h. Finnboga Guðmundsson, Svein Gunnlaugsson kennara og skólastjóra í Flatey, Ólaf Eirík Gunnlaugsson bónda og sjómann, Arnfinn Hansen vélstjóra og k.h. Björgu Ólafsdóttir Hansen og síðast Sigurberg Bogason trésmið og k.h. Kristínu Guðjónsdóttir.
Jónína Hermannsdóttir og Friðrik Salómonsson eignast húsið eftir 1955 eða síðar. Við fólksfækkun í eynni var húsið undir lokin nýtt sem geymsla fyrir verslun Hermanns Jónssonar sem Jónína dóttir hans rak eftir hans dag í fremra húsinu. Við lok þeirra afnota var húsið farið að láta mjög á sjá. Eigendur frá árinu 1975 eru Valgerður Bergsdóttir og m.h. Arnmundur S. Backmann (dáinn 1998) og Ingibjörg Á. Pétursdóttir og m.h. Þorsteinn Bergsson.
Byggðarendi
Eigandi:
Guðrún M Ársælsdóttir og Baldur Ragnarsson
Um húsið:
Byggt 1950 af Jóhanni Kristjánssyni fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð skipstjóri á flóabátnum Konráði BA. Kona hans var Kristín Ágústsdóttir úr Gufudalssveit. Þau bjuggu í Byggðarenda frá 1952-1962 er þau flytja á Akranes. Um nokkurn tíma var barnaskóli í húsinu. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið og nokkra vetur var rekinn í því barnaskóli. Helstu íbúar þess síðan voru Gunnar Jónsson og Aðalheiður Sigurðardóttir, Einir Guðmundsson og Marsibil Guðmundsdóttir, Jóhannes Geir Gíslason og Svanhildur Jónsdóttir, Árni Sigmundsson og Þórdís Una Gunnarsdóttir og Magnús Magnússon og Hrönn Hafsteinsdóttir.
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Straumur – Rarik
Eigandi:
Starfsmannafélag RARIK
Um húsið:
Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.
Eyjaberg
Eigandi:
Vaðsteinn ehf.
Um húsið:
Byggt 1994-6 af 16 barnabörnum Þórðar og Þorbjargar í Vesturbúðum og vígt á 100 ára fæðingaafmæli Þórðar Ben. 2. ágúst 1996. Meistari hússins er Sigurbjörn Guðjónsson. Húsið er byggt í anda gömlu húsanna í Flatey og fellur fallega inn í heildarhúsamynd eyjarinnar.
Bjarg (Jóhannesarhús, Jakobshús, Bókasafnið)
Eigandi:
Skáleyingarnir Þorgeir, Gísli og Einar Kári Kristóferssynir ásamt Ólafi Gíslasyni
Um húsið:
Byggt af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra árið 1897. Jóhannes fæddist í Bjarneyjum 1868 en var skipstjóri í Flatey til fjölda ára. Fluttist til Reykjavíkur og byggði hús við Skólavörðustíginn og nefndi Bjarg. Húsið var endurbyggð frá grunni 2000.
Byggt 1897 af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra úr Bjarneyjum en hann bjó hér aðeins fáein ár í byrjun og var það leigt Oddi Jónssyni lækni sem Flateyingar komu síðan af sér vegna drykkjuskapar hans aldamótaárið 1900 er hann fór að Miðhúsum í Reykhólalæknishéraði. Jóhannes flutti þá aftur í húsið og bjó þar er hann flutti frá Flatey 1907. Sama ár keypti Jakob Þorsteinsson verslunarmaður húsið og var það þá nefnt Jakobshús og bjó Jakob þar til dánardægurs 1935. Ekkja Jakobs var Kristín Jónsdóttir (1858-1946) ”ljósa” en hún var ljósmóðir í Flatey og bjó hún áfram í húsinu þar til hún dó 1946. Húsið var notað sem íbúðarhús fram á sjötta áratuginn. Erfingjar Kristínar gáfu húsið Bókasafninu í Flatey og hýsti það safnið frá 1954 til 1992. Þar réð ríkjum Sigríður Bogadóttir (Sigga Boga). Starf hennar sem bókavarðar var allt þar. Eftir að hún lét af störfum var safngæslan mjög laus í böndum um árabil. Húsið var að hrörna og eyðileggjast. Safninu var bjargað þaðan árið 1992 og sett í kassa og flutt að Reykhólum til geymslu. Áður eða 1968 var fágætasti hluti safnsins fluttur á Landsbókasafn til geymslu. Í þessum geymslum er safnið enn. Húsið komst í eigu Reykhólahrepps við sameiningu sveitarfélaga 1987. Það var endurbyggt frá grunni árið 2000 í umboði eiganda.
Sólheimar
Eigandi:
Gerður Gestsdóttir
Um húsið:
Byggt 1935 af Gesti O. Gestssyni en hann var skólastjóri 1933-1960 með hléum. Húsasmiðameistari og yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Gestur O. er afi Oddnýjar, Gest Karls og Ragnars í Sólheimum.
Byggt 1935 af Gesti Oddfinni Gestssyni kennara, skólastjóra og smið á háhólnum austan við Skansmýri, á svonefndum Myllumó en á þeim stað stóð áður vindmylla Guðmundar Schevings kaupmanns. Gestur fluttist til Flateyjar 1933 er hann tók við skólastjórastöðu í Flatey sem hann gengdi með hléum til 1959. Hann var húsasmíðameistari og var m.a. yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Kona Gests var Oddný Ingiríður Sölvadóttir fædd á Gafli í Svínavatnshreppi.
Berg (Hafliðahús)
Eigandi:
Bjarni H. Sigurjónsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.