Bræðraminni
Eigandi:
Félagið Bræðraminni í Flatey
Um húsið:
Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum.
Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar.
Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað.
Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.