Bjarg (Jóhannesarhús, Jakobshús, Bókasafnið)
Eigandi:
Skáleyingarnir Þorgeir, Gísli og Einar Kári Kristóferssynir ásamt Ólafi Gíslasyni
Um húsið:
Byggt af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra árið 1897. Jóhannes fæddist í Bjarneyjum 1868 en var skipstjóri í Flatey til fjölda ára. Fluttist til Reykjavíkur og byggði hús við Skólavörðustíginn og nefndi Bjarg. Húsið var endurbyggð frá grunni 2000.
Byggt 1897 af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra úr Bjarneyjum en hann bjó hér aðeins fáein ár í byrjun og var það leigt Oddi Jónssyni lækni sem Flateyingar komu síðan af sér vegna drykkjuskapar hans aldamótaárið 1900 er hann fór að Miðhúsum í Reykhólalæknishéraði. Jóhannes flutti þá aftur í húsið og bjó þar er hann flutti frá Flatey 1907. Sama ár keypti Jakob Þorsteinsson verslunarmaður húsið og var það þá nefnt Jakobshús og bjó Jakob þar til dánardægurs 1935. Ekkja Jakobs var Kristín Jónsdóttir (1858-1946) ”ljósa” en hún var ljósmóðir í Flatey og bjó hún áfram í húsinu þar til hún dó 1946. Húsið var notað sem íbúðarhús fram á sjötta áratuginn. Erfingjar Kristínar gáfu húsið Bókasafninu í Flatey og hýsti það safnið frá 1954 til 1992. Þar réð ríkjum Sigríður Bogadóttir (Sigga Boga). Starf hennar sem bókavarðar var allt þar. Eftir að hún lét af störfum var safngæslan mjög laus í böndum um árabil. Húsið var að hrörna og eyðileggjast. Safninu var bjargað þaðan árið 1992 og sett í kassa og flutt að Reykhólum til geymslu. Áður eða 1968 var fágætasti hluti safnsins fluttur á Landsbókasafn til geymslu. Í þessum geymslum er safnið enn. Húsið komst í eigu Reykhólahrepps við sameiningu sveitarfélaga 1987. Það var endurbyggt frá grunni árið 2000 í umboði eiganda.