Önnur hús
Hermannshús (Félagshús, Benediktsenshús, Nýjahús)
Eigandi:
Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir.
Um húsið:
Húsið var byggt 1833-1836 sem íbúðarhús af Guðmundi Bjarnasyni Scheving (1776-1837) kaupmanni og útgerðarmanni og er húsið elsta hús í Flatey af þeim sem enn standa. Guðmundur var áður en hann kom til Flateyjar 1812 sýslumaður og amtmaður fyrir Barðastrandasýslu og sat í Haga. Guðmundur gerðist amtmaður yfir norðuramtinu fyrir Jörundar hundadagakonung er ríkti hér sumarið 1809 en sagði sig frá sýsluvöldum 1812 og fluttist til Flateyjar. Sagt er að Jörundur hafi gefið Guðmundi veggfóður sem skreytti hýbýli í Gunnlaugshúsi áfast Félagshúsi.
Guðmundur var frumkvöðull þilskipaútgerðar í Breiðafirði og þegar 1830 gerði hann út þrjú þilskip og keypti nokkru síðar 36 lesta skútu frá Danmörku til millilandasiglinga. 1833 var Guðmundi veitt agentsnafnbót af Danakonungi. Árið 1838 gekk Brynjólfur Bogason Benedictsen að eiga Herdísi dóttir Guðmundar og tók við rekstri tengdaföður síns. Þrettán árum síðar (1851) lét Brynjólfur byggja viðbyggingu við húsið sem nú er nefnt Gunnlaugshús eftir Gunnlaugi Sveinssyni (1861-1950). Þau hjónin bjuggu þar fram til 1873 en þá tók Verslunarfélag Eyhreppinga sem jafnan var nefnt Félagið við húsunum sem eftir það voru nefnd Félagshús. Félagið rak verslun í austurhlutanum 1873-1888 og bjó verslunarstjórinn, Ólafur Skagfjörð einnig í húsinu en hann var faðir athafnamannsins og heildsalans Kristjáns Ó. Skagfjörð. Árið1893 keyptu bræðurnir Hermann Sigurður og Kristján Sigurgeir Jónssynir húsið og rak Hermann verslun í viðbyggingu við norðurhlið hússins frá 1913 til dánardags 1943 lengi í samvinnu við dóttir sína Jónínu en hún rak verslunina allt til 1970.
Krákuvör
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt 1970 af Jóhannesi Gíslasyni úr Skáleyjum og þáverandi konu hans, Svanhildi Jónsdóttir sem nú er bóndi í Flatey og býr í Krákuvör ásamt Magnúsi Arnari Jónssyni. Helstu smiðir af húsinu eru þeir bræður Jóhannesar, Ólafur og Eysteinn Gíslasynir ásamt Birni Guðmundssyni.
Vegamót
Eigandi:
Álfheiður Ingadóttir og Sigurmar Albertsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Bjarna Jónssyni bónda og verkamanni en hann var jafnan nefndur “Bjarni gaddur”. Bjarni var frá Hálshúsum í Reykjarfjarðarhreppi en ólst upp á Selskerjum í Múlasveit en fór þaðan á Deildará í sömu sveit áður en hann kemur í Flatey 1901. Bjó í Brekkubæ og síðar í Vegamótum. Síðustu íbúar Vegamóta í fastri búsetu voru Sveinn Jónsson og Margrét Gestsdóttir. Fluttu þangað úr Skáleyjum. Seinna áttu þar heima skamman tíma Þorsteinn Valgeirsson og Anna Jóna Kristjánsdóttir og börn þeirra.
Sólheimar
Eigandi:
Gerður Gestsdóttir
Um húsið:
Byggt 1935 af Gesti O. Gestssyni en hann var skólastjóri 1933-1960 með hléum. Húsasmiðameistari og yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Gestur O. er afi Oddnýjar, Gest Karls og Ragnars í Sólheimum.
Byggt 1935 af Gesti Oddfinni Gestssyni kennara, skólastjóra og smið á háhólnum austan við Skansmýri, á svonefndum Myllumó en á þeim stað stóð áður vindmylla Guðmundar Schevings kaupmanns. Gestur fluttist til Flateyjar 1933 er hann tók við skólastjórastöðu í Flatey sem hann gengdi með hléum til 1959. Hann var húsasmíðameistari og var m.a. yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Kona Gests var Oddný Ingiríður Sölvadóttir fædd á Gafli í Svínavatnshreppi.
Klausturhólar (Prófastshúsið)
Eigandi:
Afkomendur Sigurðar Jenssonar og Guðrúnu Sigurðardóttur þ.e.a.s. Sigurður og Oddný Sigríður, börn Jóns Sigurðssonar raffræðings.
Um húsið:
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í rúm fjörutíu ár (1880-1921) jafnframt prófastur Barðastrandaprófastdæmis 1881-1902, þingmaður Barðstrendinga 1886-1908, varaforseti efri deildar Alþingis 1899, amtráðsmaður 1901-1907, yfirskoðunarmaður landsreikninga 1895-1902 og póstafgreiðslumaður í Flatey 1914-1921. Sigurður var oddviti Flateyjarhrepps í mörg ár. Bókamaður var hann góður. Sigurður fékk lausn frá embætti 1921 og fluttist þá suður til Reykjavíkur þar sem hann lést árið 1924.
Jón Sigurður sonur Sigurðar og Guðrúnar var oddviti og stjórnarmaður í Kaupfélagi Flateyjar en hann og kona hans Sigríður Einarsdóttir (1892-1988) tóku við búinu á Klausturhólum 1921. Eftir andlát Jóns 1924 rak Sigríður búið áfram og var póst- og símstöðvarstjóri til 1954 en þá flutti hún til Bandaríkjanna og lést þar árið 1988.
Klausturhólar standa vestan við þann stað sem áður stóð Flateyjarklaustur sem reist var 1172 en flutt fáum árum síðar (1184) að Helgafelli í Helgafellssveit. Í túninu norðaustan við Klausturhóla er að finna Klaustursteininn sem í er klappaður kringlóttur bolli þar sem munkarnir geymdu vígt vatn og singdu sig með. Hafist var handa við endurbyggingu Klausturhólar um 1990 eftir að húsið hafði staðið autt frá miðjum sjötta tug síðustu aldar.
Berg (Hafliðahús)
Eigandi:
Bjarni H. Sigurjónsson
Um húsið:
Byggt 1922 af Sigurbrandi Kristjáni Jónssyni sjómanni og verkamanni. Húsið var byggt skammt frá þeim stað sem Appolonehús stóð, hlaða sem byggð var úr skipsviðum Appolene sem brotnaði 1841 í Flateyjarhöfn en Brynjólfur Benedictsen kaupmaður notaði húsið fyrir eldiviðageymslu. Árið 1936 keyptu húsið þau Árni Jón Einarsson vélstjóri á flóabátnum Konráði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. Árni var mikill hagleiksmaður og bátasmiður góður og smíðaði marga báta. Einnig gerði hann við vélar, allt frá stærstu bátavélum til smæstu úrverka. Börn þeirra hjóna eru Bergþóra, Anna Aðalheiður, Sigurjón, Hafliði Arnberg og Elísabet Matthildur.
Eyjólfshús (Oddahús, Tangahús, Pálshús)
Eigandi:
Steinn Ágúst, Hanna María og Katrín Baldvinsbörn ásamt Kristínu Ágústsdóttir.
Um húsið:
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Jóhannssyni kaupmanni sem íbúðar- og verslunarhús. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og oft kallaður “tröllið með barns-andlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði. Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja, áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga.
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Einar Jóhannssyni kaupmanni. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og var oft kallaður ”tröllið með barnsandlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði.
Eyjólfshús hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. Oddahús, Tangahús og Pálshús. Í fyrstu búa í Eyjólfshúsi fjölskyldur Bárar-Ólafs og dóttir hans Sigurborg ásamt tengdasyni hans Eyjólfur Einar Jóhannsson. 1903 Eignast Verslunarfélagið húsið og bjó Páll Andrés Sigurður Nikulásson (1864-1932) verslunarmaður og kona hans Björg Pétursdóttir (1875-1962) ljósmóðir í húsinu er þá nefnist Pálshús. 1914 kaupir Steinn Ágúst Jónsson (1879-1969) húsið ásamt konu sinni Katrínu Þórðardóttir (1886-1966) og bjuggju þau í Eyjólfshúsi í meira en fimmtíu ár. Steinn Ágúst var alla tíð mjög áberandi í félags-, atvinnu-, trúar- og menningarlífi Flateyjar. Verslunarmaður í byrjun komu sinnar til Flateyjar (1909) hjá Guðna kaupmanni Guðmundssyni og síðar hjá Guðmundi Bergsteinssyni kaupmanni. Stofnaði fyrstu barnastúku í Flatey, formaður ungmennasambands Norður-Breiðfirðinga, kosinn í sóknarnefnd Flateyjar 1912 og hafði forgöngu um byggingu hinnar nýju Flateyjarkirkju 1926 og meðhjálpari kirkjunnar um tugi ára, gjaldkeri Sparisjóðs Flateyjar frá 1925 og hreppsnefndaroddviti frá 1945. Í Eyjólfshúsi bjuggi í gegnum tíðina fjölmargir s.s. Bjarni Ingibjartur Bjarnason (1882-1944) sjómaður og kona hans Guðrún Júlíanna Guðmundsdóttir (1873-1956), Halldór Friðriksson (1871-1946) skipstjóri og kona hans Anna Ragnheiður Erlendsdóttir (1878-1954), Halldór Kolbeins Eyjólfsson (1893-1964) prestur og kona hans Lára Ágústa Ólafsdóttir (1898-1973) og síðar Vigfús Sigurbjörn Stefánsson (1890-1970) bóndi og kona hans Ingibjörg Einarsdóttir (1889-1963). Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja sem var áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga en bryggjan var stækkuð og steypt upp um 1934.
Bentshús
Eigandi:
Birgir Magnússon, Ögmundur og Guðný Gerður Gunnarsbörn, Sigfús og Jón Jónssynir, Hallbjörn Bergmann
Um húsið:
Byggt 1871 af Bent Jónssyni kaupmanni en hann drukknaði 1873 í Breiðafirði á heimleið úr verslunarferð frá Danmörku. Bent hafði keypt lóðina undir Bentshús af ekkjunni Herdísi Benedicts. Árið 1894 keyptu húsið í félagi þau Hallbjörn Bergmann skipstjóri og kona hans Guðlaug Þorgeirsdóttir og Jóhann Guðjón Arason skipstjóri á skútunni Arney og kona hans Valborg Sigrún Jónsdóttir. Sigfús Bergmann kaupfélagsstjóri bjó síðan á efri hæð hússins eftir lát foreldra sinna en á neðri hæðinni Guðmundur Jóhannesson frá Skáleyjum, loftskeytamaður og stöðvarstjóri yfir loftskeytastöðinni í Flatey er tók til starfa 1. júlí 1918. Kona Guðmundar var Sigríður dóttir Jóhanns og Valborgar. Þau bjuggu í húsinu þar til loftskeytastöðin var lögð niður 1931. Ýmsir bjuggu á neðri hæðinni eftir það m.a. Arngrímur Björnsson læknir en hann var læknir í Flatey 1934-1942. Ögmundur Ólafsson skipstjóri á Konráði og kona hans Guðný Hallbjarnardóttir Bergmann (systir Sigfúsar Bergmann) keyptu neðri hæðina 1939 og bjuggu þar til 1943. Ágúst Pétursson , skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir keyptu hæðina af þeim. Ágúst tók við skipstjórn á flóabátnum Konráði af Ögmundi Ólafssyni þegar hann fluttist úr Flatey. Síðar varð hann skipstjóri á Sigurfara, fiskibát sem keyptur var nýr til Flateyjar 1946. Ögmundur keypti síðan neðri hæðina aftur af Ágústi og Ingu 1972. Eigendur neðri hæðar eru afkomendur Ögmundar Ólafssonar skipstjóra og k.h. Guðnýjar Jónínu Hallbjarnadóttur Bergmann. Eigendur efri hæðar eru afkomendur Sigfúsar H. Bergmanns kaupfélagsstjóra og k.h. Emilíu Jónsdóttur.
