Kristín Ingimarsdóttir stjórnarmaður í FF skrifar:
Framfarafélag Flateyjar hefur unnið að því að undanförnu að koma á möguleikum til að flokka sorp í Flatey. Mjög margir flokka nú þegar á sínum heimilum og við fundum fyrir vilja til að koma slíku kerfi á í Flatey. Þessi vinna var kynnt stuttlega á íbúaþinginu sem haldið var í janúar.
Í samstarfi við Íslenska gámafélagið er búið að skipuleggja hvernig við megum ganga frá sorpi og flokka í gámana á bryggjunni.
Kerfið er í raun mjög einfalt, allt sem hægt er að flokka má fara í gáminn sem nú er merktur fyrir timbur og málma og en óflokkanlegt sorp í gáminn fyrir heimilissorp. Gámurinn er fluttur til Stykkishólms og þar er handflokkað upp úr honum í viðeigandi gáma sem svo fara sína leið og því er mikilvægt að ganga vel frá svo að sú vinna verði auðveld.
Félagið er búið að staðfæra leiðbeiningar um hvernig á að flokka og ganga frá í gámana og þessar leiðbeiningar er hægt að sjá hér á síðunni. Einnig er búið að prenta þær út og plasta til að hafa uppi við í öllum húsunum. Þeir sem voru á íbúaþinginu hafa fengið sín spjöld en aðrir geta nálgast þau hjá stjórn Framfarafélagsins eða þau verða borin í húsin í vor. Þessi spjöld eiga að auðvelda eigendum og gestum að kynna sér flokkunina þótt þeir komi stutta stund í húsin. Við hvetjum ykkur til að lesa leiðbeiningarnar og tileinka ykkur það sem á þeim stendur og koma á flokkun í öllum húsunum.
Jarðgerð:
Framfarafélagið hefur að langtímamarkmiði að koma upp sameiginlegri jarðgerð í eyjunni og gaman væri ef ekki þyrfti að flytja neitt lífrænt sorp brott. Þótt slík sameiginleg jarðgerð sé ekki komin til framkvæmda, þá hvetjum við alla íbúa til byrja og útbúa jarðgerðarílát í sínum görðum. Ýmsir hafa nú þegar slík jarðgerðarílát hjá sér og kunna á þessu lagið. Þótt fólk hafi ekki matjurtagarða til að nýta sér áburðinn sem til verður, má nýta hann á öðrum stöðum í eyjunni eða gefa þeim sem hafa garða! Heimajarðgerð getur snarminnkað það sorp sem flytja þarf brott. Unnt er að sameinast um slík jarðgerðarílát í húsum ef það hentar betur og hjálpast að við umhirðu. Jarðgerð er ekki flókin eða erfið og auðvelt er að kynna sér aðferðir og verkfæri á t.d. vefsíðu Íslenska Gámafélagsins www.gamur.is eða www.igf.is undir vörum og þjónustu eða smella hér: http://www.gamur.is/index.php?option=content&task=view&id=18&Itemid=42
Þar má hlaða niður ítarlegum bæklingi um jarðgerð og hvernig á að bera sig til við hana. Upplagt er að eiga þennan bækling útprentaðan í húsinu.
Brennan:
Mikil umræða skapast oft um brennustæðið og okkur langar að hvetja fólk til að ganga vel um það. Hver og einn ber ábyrgð á því sem hann setur á brennuna, enginn annar gerir það.
Hafa þarf í huga að á brennuna á eingöngu að setja það sem getur brunnið, þangað á ekki að hrúga dýnum, húsgögnum eða öðru drasli sem skilur eftir sig járnhrúgur eða nær ekki að brenna alveg upp. Slík húsgögn og dýnur, sem þarf að farga, á að flytja í land en ekki skilja eftir. Við hvetjum ykkur einnig til að ræða við unga athafnafólkið um að ganga vel um brennuna. Það er gaman að leika sér með ýmislegt sem þar finnst, en þá þarf að passa vel að ekki fari allt í drasl.