Fréttir

Ólína og Herdís skáldkonur í Flatey

Herdis_Maria_og_Olina_Andresdaetur

Ólína og Herdís Andrésdætur fæddust í Hólsbúð í Flatey 13. júní 1858.  Þær voru „af hinni merku breiðfirsku skáldaætt, sem séra Matthías gerði frægasta“, eins og séra Jón Auðuns komst að orði í grein um þær systur í Lesbók Morgunblaðsins 1935. (Á mynd Herdís, María og Ólína Andrésdætur).

Þær systur eru náfrænkur annarar þekktrar skáldkonu sem tengist Flatey en það er Theodóra Thoroddsen.  Listamaðurinn Muggur (Guðmundur Thorsteinsson) frá Bíldudal var frændi þeirra en Hölluhús í Flatey var kennt við systur hans.  Annað skáld sem kom ungur til Flateyjar er einnig náfrændi þeirra en það er þjóðskáldið Matthíasar Jochumsson.  Það má því sannarlega segja að þær eru vel ætttengdar við mörg góð skáld og listamenn sem í Flatey hafa dvalið.

Staðreynd er að þær skáldsystur nutu ekki þeirra virðingar í „bókmenntaheiminum“ sem þær svo sannarlega eiga skilið en samt hafa ljóð þeirra, þulur og kvæði lifað með þjóðinni og ljóðabók þeirra Ljóðmæli Ólínar og Herdísar hefur verið gefin út fimm sinnum og alltaf selst upp og er ófáanleg í dag.
Sigurður Nordal segir um þær skáldkonur í Áföngum II „Þær voru aðalskonur í fátækt sinni, hafnar yfir allt lítilmótlegt og auvirðilegt í hugsun og breytni, vammlausar, drenglyndar, hjartahreinar og hjartagóðar“. Hér er tekið fallegt dæmi um ljóð Ólínar úr ljóðmælum þeirra er kom út 1982.  

Vonin mín er ljett í lund

Vonin mín er ljett í lund
ljós, sem deyr og fæðist.
Ef hún daprast eina stund
aðra lífið glæðist.

Talar hún ávalt ljúft, en lágt
leikur við hvern sinn fingur,
sjer á rósum dillar dátt,
dansar, hlær og syngur.

Ekki var hún á sjer þung
með unaðs blóm í mundum.
Forðum þegar ég var ung,
elti jeg hana stundum

Þá var hún björt sem sól að sjá
á sumar morgni hlýjum:
minst er varði vikin frá,
vóð sem tungl í skýjum.

Kinka sá jeg kollin þinn
hverfleikans á bárum.
Fallega söngstu, fuglinn minn,
fyrir nokkrum árum.

Hlustaði‘ jeg á þín hulduljóð.
Hugurinn aldrei þreyttist,
uns í dauða dapran óð
dýrðar söngur breyttist.

Ei að síður enn í dag
eg vil söng þinn heyra.
Þetta blessað ljúflingslag
ljet svo vel í eyra.

Þú hefir gjafir fáar fært
fagrar, hjarta mínu.
Mjer hefir stundum verið vært
und vængjablaki þínu.

Bráðum mun jeg þiggja það,
að þreyttur hvílist andi
og þú verðir, von mín, að
vissu á sælu landi.

Komdu er húmar hels á veg
við hinsta æðar slagið,
þegar síðast sofna jeg,
og syngdu gamla lagið.

Stafsetning Ólínu og þess tíma hefur verið leyft að halda sér í þessu ágætis ljóði hennar úr Ljóðmælum þeirra.

Þegar hugað er að þulum Ólínu Andrésdóttur má segja að hún sé andlega skyld frænku sinni Theodóru Thoroddsen og tveimur öðrum skáldkonum þess tíma þ.e. Huldu og Ólöf frá Hlöðum. Í reynd má segja að þulan sér ein merkasta bragnýjung íslenskrar ljóðagerðar fram að atómskáldskapnum og er því í reynd hjá þessum skáldkonum nokkurs konar kvennabylting í skáldskap.  Svo segir Ármann Jakobsson í grein sinni „Þar sitja systur“ sem birtist í MBL 17. ágúst 1996.

Greinilegt er að þær systur hafa verið afar félagslyndar og haft samskipti við fjölda manns sem hafa verið skáldlega þenkjandi svo sem ljóðabréfin þeirra bera vitni um. Þær systur lentu jafnvel í sérstæðri ritdeilu við Þórberg Þórðarson sem hann segir frá í bók sinni Eddu en fer jafnframt fögrum orðum um þær systur.   Fjölmörg félög hafa þær systur annað hvort verið í eða ljóðað til eins og ljóðin þeirra Dalsmanna- og Barðstrendingamótt 1933, Kvæði til Lestrarfélags kvenna, Minni Lestrarfélags kvenna 1911-1931, Sungið í samsæti Breiðfirðinga 1927, Til Kvenréttinda-félagsins, Til kvæðafélagsins Iðunnar, Til ungmennafélags Skógstrendinga o.fl. bera vitni um. Hér er eitt erindið úr kvæði Ólínu er nefnist Kvæði til Lestrarfélags kvenna;

Hér er glatt á hjalla
holl er gleðin öllum
vílið þrífst hér varla
í vinahópi snjöllum.
Geislar gleðitára
glitra um vonarhjarnið
tvenna tugi ára
telur óskabarnið

Í þessu sambandi langar mig að kasta fram hugmynd um félag sem mér finnst sárlega vanta í Flatey en það er að stofnað verði n.k. Menningarfélag Flateyjar.  Markmið með þessu félagi væri að hlúa að menningarlífi í Flatey í sinni víðustu mynd í nútíð, fortíð og framtíð.  Tekið yrði fyrir og hlúð að sögu skálda og kveðskap í eyjunum, stuðla að og standa fyrir tónleikahaldi, myndlistasýningum og menningarlegum viðburðum í Flatey, keppnis- og íþróttaatburðum s.s. skákmótum, endurreisa og endurheimta bókasafn Flateyjar og búa því fallegan stað sem síðar gæti orðið menningarsetur Flateyjar, koma á fót byggða- og minjasafni í Flatey en vitað er af miklum fjölda athyglisverða, gamalla muna og gripa í Flatey og Inneyjum sem sárlega þarfnast umhirðu og samastaðs,  safna saman kvæðum og sönglögum og gefa út söngbók Flateyinga, huga að og safna saman upplýsingum og fróðleik um mat, matargerð og matarhefðir úr þessari „matarkistu Breiðafjarðar“ og hefja til virðingar á nýjan leik þessa sérstæðu matarmenningu,  endurreisa Flateyjardaga og koma á Degi Flateyjarkirkju.  Koma á samvinnu við álíka menningarfélög og hollvinasamtök um menningu t.d. Hollvinasamtök Atla Heimis.  Fá skáld og rithöfunda í heimsókn til að lesa úr verkum sínum og segja frá tilurð ritverka sinna.  Huga að og aðstoða Framfarafélagið við uppsetningu skilta um sögu og markverða staði í Flatey , hvetja húseigendur til að merkja hús sín með fallegum og samræmdum skiltum sem segir sögu húsanna. Með tilkomu heimasíðu Framfarafélagsins og síðan tengingu við „fjésbók“ ætti að vera auðvelt að miðla hinum menningarlega boðskap til Flateyinga, Inneyinga og velunnara Flateyjar á auðveldan og fljótvirkan hátt.   Af nógu er að taka og verkefnin ærin þannig að ég óttast ekki að þetta tilvonandi Menningarfélag Flateyjar verði verkefnalaust í náinni framtíð. 

Ég þykist vita að glatt verður á hjalla í þessum góða menningarlega hópi Flateyinga og Inneyinga sem og velunnara Flateyjar þar sem menningin ræður ríkum og gleður andann.

(Ljóðabækur Herdísar og Ólíu Andresardætur hafa verið gefna út fimm sinnum undir heitinu Ljóðmæli Ólínu og Herdísar og alltaf selst upp og eru í dag ófáanlegar.  Ljóðmæli þeirra kom fyrst út 1924 og síðan endurútgefnar 1930 (aukin útgáfa), 1976 (stóraukin útgáfa), 1980 (inniheldur öll ljóð þeirra sem þá var vitað um) og 1982 ( örfá ný ljóð Herdísar birtast í þessari útgáfa en ljóst er að mörg ljóð eru enn óprentuð eftir þær systur sem ekki næst til enn)

Ritað í janúar 2014.
Gunnar SveinsonEyjólfshúsi, Flatey, gunnarsv@landspitali.is              

Flatey bókahornið 3 – Ólína og Herdís skáldkonur í Flatey