Fréttir

Vísitasía prófasts og vígslubiskups

Vísitasíuferð Flatey jún2015 gestir á bryggjunni

Gunnar Sveinsson skrifar:
23. júní s.l. komu tignir gestir í heimsókn
til Flateyjar. Hér voru á ferð vígslubiskup
Skálholtsumdæmis, Kristján Valur Ingólfsson,
prófastur Vestfjarðaprófastsdæmis, Magnús Erlingsson og sóknarprestur Flateyjarkirkju, Elína Hrund Kristjánsdóttir.  Tilgangur heimsóknar þessara ágætu fulltrúa kirkjunnar var vísitasíuferð þeirra Kristjáns Vals og Magnúsar til Flateyjar en þeir hafa verið í vísitasíuferð um Vestfjarðaprófastdæmið og heimsækja allar kirkjur í umdæminu sem eru fleiri en fimmtíu talsins.  Voru þeir búnir að vera á ferðalagi um alla Vestfirði frá 16. júní og frá Flatey fóru þau síðan upp á Brjánslæk til að vísitera kirkjur í Patreksfjarðarumdæmi.  Stefna þeir á að ljúka þessari miklu ferð sinni föstudaginn 26. júní.

Fallegt veður var þennan dag í Flatey og var greinilegt að veðurguðirnir höfðu velþóknun á þessum ágætu gestum Flateyjarkirkju.  Fulltrúar sóknarnefndar og kirkjustjórnar Flateyjarkirkju, þeir Magnús Jónsson í Krákuvör og Gunnar Sveinsson í Eyjólfshúsi tóku á móti þeim á bryggjunni við komu Baldurs ofan af Læk.  Elína er auðvitað hagvön í Flatey enda messað ótal sinnum í Flateyjarkirkju, Magnús hefur komið áður í Flatey en Kristján Valur var að koma í fyrsta sinn.  Gunnar tók að sér að vera leiðsögumaður þeirra um eyjuna og var sagan rakin í stórum dráttum á göngu okkar niður í þorp þar sem Ingibjörg hótelstýra hafði gert ráðstafanir að næra gesti okkar enda voru fyrirmæli til þeirra fyrirfram að næra sig alls ekki á ferðalagi þeirra frá Brjánslæk til Flateyjar.  Framreiddur var úrvals silungur ofan af Læk sem vakti mikla lukku og ánægju hjá öllum.  Skiptst var á frásögum úr Flatey, gamansögur sagðar af kirkjuferð þeirra Kristjáns Vals og Magnúsar sem og af Hornstrandarferðum og Elína rifjaði upp skemmtileg atvik úr prestskaparstörfum sínum.  Ánægjuleg byrjun á góðri heimsókn til Flateyjar.

Að málsverði loknum var boðið til stofu í Eyjólfshúsi svo gestir okkar mættu sjá og koma inn í virkilega gamalt hús í Flatey en Eyjólfshús er byggt 1882.  Í betri stofunni var gestum okkar færð smá minningargjöf frá kirkjunni en þetta voru tveir fallegir bollar með teikningum Baltasar ásamt bókamerkjum sem og nokkur sýnishorn af hlutum sem fjáröflunarnefnd Flateyjarkirkju hefur  staðið fyrir í fjáröflun sinni.  Gestum okkar var vinsamlegast bent á að þessir fallegu bollar væri í reynd sex með mismunandi teikningum og gætu þeir keypt þá fjóra sem upp á vantaði hjá fjáröflunarnefndinni eða í Bryggjubúðinni.  Höfðu menn gaman af þessa ábendingu gjaldkera fjáröflunarnefndar.

Nú var komið að þeirri stund að ganga til kirkju.  Vísitasíuferð kirkjunnar manna er í reynd eftirlitsferð biskups og prófasts um prófastsdæmið til eftirlits með kirkjum og eignum hennar, kapellum, kirkjugörðum, grafreitum og prestsetrum og úttekt um ástand þeirra.  Vísitasían er vettvangur þar sem biskupi og prófasti gefst tækifæri til að kynna sér kirkjustarfið, hitta starfsmenn og sjálfboðaliða sem starfa fyrir kirkjuna, hitta sóknarbörn og hvetja þau til góðra verka í þágu kirkju og kristni. Hugað er að og farið yfir eigur kirkjunnar og muni og borið saman við fyrri skrár úr vísitasíuferðum (vísitasíuskrá). 

Áður en gengið var til verka sagði Gunnar sögu kirkjunnar sem byggð var 1926 og rakti sögu og útskýrði  listaverk Baltasar og Kristjönu en listaverkin voru fyrst  máluð 1964 en síðan endurmáluð 1990 og gert síðan við þau 2013. Þegar sögumaður sagði frá heimsókn Brynjólfs biskups Sveinssonar til Flateyjar 1647 til að falast eftir Flateyjarbók af Jóni Finnssyni bónda mismælti sögumaður ártalið og sagði 1687.  Þá heyrðist hátt og snjallt í Kristjáni Vali víslubiskup „Þetta getur ekki verið, því Brynjólfur biskup deyr 1675“.  Alltaf er gaman þegar vel er tekið eftir og leiðrétt af þekkingarbrunni.

Upp var dregin hin fyrri vísitasíuskrá fyrir Flateyjarkirkju og þar sem nútíminn hefur knúið dyra hjá kirkjunni var skráin göldruð fram úr lítilli spjaldtölvu.  Lesnar voru upp eignir kirkjunnar og þær bornar fram og skoðaðar hvort heldur það voru kaleikar og oblátuskálar, höklar og kirkjudúkar, biblíur og sálmabækur. Upp voru taldar og lesnar gjafir sem kirkjunni hafa verið gefnar í áranna rás og kenndi þar margra góðra hluta, hugað að líkneskjum og kirkjuklukkum, stjökum og styttum, harmóníum og/eða öðrum hljóðfærum.  Einnig var allt naglfast ígrundað s.s. ljósastjakar og ljósakrónur, kirkjubekkir og sálmatöflur sem og predikunarstóll. Bent var á allar eignir sem upp voru lesnar sem og nýir hlutir sem kirkjunni höfðu borist frá því síðast var skráð og það fært samviskusamlega til bókar.   Allt stemmdi samviskusamlega við hina fyrri skrá en fjölmargir munir eru bæði gamlir og fagrir og var haft að orði að sumir væru þjóðargersemi.  Rétt er að taka fram til velunnara Flateyjarkirkju að nauðsynlegt verður á næstunni að fara að huga að nýjum kaleik og oblátuskál í stað þeirra sem nú eru í kirkjunni.

Í lok þessara embættisverka var sungin sálmur og fór vígslubiskup með bæn sem siður er og venja í lok slíkra góðra verka í kirkjum landsins.

Eitt var þó embættisverkið eftir en það var að skoða kirkjugarð Flateyjar sem að mörgu leyti þykir einstakur í sinni röð og sérstakur með þann fjölda stakketta, minningarmarka og grafsteina sem bera vott um fegurðarsmekk og væntumþykju genginna kynslóða í garð þeirra sem á undan hafa farið og fengið hinstan legstað í helgum reit.  Kirkjugarðaráð með Guðmund Rafn í broddi fylkingar hefur unnið frábært verk að lagfæra og gera við minningarmörk  garðsins og færa þau til fyrra ástands og fegurðar.  Mikið verk er þó enn óunnið við uppgerð hinna listilega velgerðra stakketta.  Gestir okkar skoðuðu allar þessar gersamar, dáðust að uppgerðum minningarmörkum, fóru höndum um stakkettin og rýndu í letur forna legsteina.  Umgjörðin umhverfis kirkjugarðinn og sálnahliðið var skoðað og rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir í garðinum með stígagerð, uppsetningu bekkjar og borðs ásamt upplýsingatöflu um kirkjugarðinn.  Að lokinni þessari úttekt lýstu menn yfir ánægju sinni og velþóknun á umhirðu garðsins og yfirsýn allri.

Nú var farið að halla að brottfarartíma enda miðast allt tímaskyn manna í Flatey annars vegar við flóð og fjöru og hins vegar við komu- og brottfarartíma Baldurs.  Þar sem gestir okkar ráðgerðu að fara með Baldri upp á Brjánslæk var rétt að fara að ganga til skips og völdum við göngustíginn eftir bökkunum, framhjá Bátaskýlinu og söfnunarstað fjáröflunarnefndar kirkjunnar fyrir einnota ílát.  Þeirri söfnun var auðvitað gerð góð skil enda drekka menn Guði til dýrðar í Flatey og Flateyjarkirkju til fjáröflunar.  Veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur og var fjallasýnin stórfengleg á göngu okkur að Tröllenda, framhjá vatnstanki vatnsveitunnar og niður á bryggju þar sem Baldur var að leggjast að.  Við brottför voru okkar góðu gestir kvaddir með virtum með loforði um að fljótt yrðu þau að koma aftur til að njóta dýrðar og lystisemda Flateyjar .

Fréttaritari heimasíðu Framfarafélagsins

Gunnar í Eyjólfshúsi