Fréttir

Stormsveitin í Flateyjarkirkju

IMG_0573

Gunnar Sveinsson skrifar:
Sannkallaðir stórtónleikar voru haldnir í Flateyjarkirkju s.l. laugardag. 
Mættur á staðinn var hinn ágæti karlakór Stormsveitin úr Mosfellssveit.
Með sanni má segja að veðurguðir voru á okkar bandi sem voru í Flatey þennan laugardag.  Brakandi þerrir, sól í heiði og logn svo mikið að mófuglar nenntu varla að lyfta sér til flugs þó krían dansaði sinn stríðsdans um loftin blá.  Kjaftfullur Baldur lagðist að bryggju stundvíslega kl 10:30 og upp úr bátnum streymdi ótrúlegur fjöldi og var þó fyrir mikill fjöldi í Flatey  þessa helgi enda m.a. ættarmót Hrappseyinga á tjaldsvæðinu hjá Svönu og Magnúsar í Krákuvör.  Með í för Stormsveitarinnar var stór hópur ættmenna, konur og börn kórfélaga og all margir einlægir áhangendur þessa stórskemmtilega kórs.    Þar sem þessir góðu gestir ætluðu að dvelja í Flatey dagstund komu þeir með vistir góðar, matvæli til grillveislu eftir tónleikana og svalardrykki fyrir hópinn í sólinni.  Fengu þau aðstöðu í Sunnuhvoli þar sem bæði sér til kirkju og útsýni í allar áttir.  Ekki amalegur staður fyrir söngelska gesti.  Þar sem tónleikarnir voru ráðgerðir kl 16:00 var afráðið að Gunnar í Eyjólfshúsi færi með hópinn í gönguferð og saga eyjarinnar rakin, skemmtisögur af lifandi og brottförnum Flateyingum rifjaðar upp, heilsað upp á Flateyinga sem á vegi hópsins urðu og að lokum endað í kirkunni þar sem listasagan tvinnast saman við fyrri frægð Flateyjar.

Nokkru fyrir auglýstan tónleikatíma fór fólk að drífa að úr öllum áttum og á skammri stundu gjörsamlega fyllist kirkjan af tónlistarunnendum.  Bekkir kirkjunnar voru þétt setnir, kirkjuloftið stútfullt, staðið var aftast í kirkjunni og stiganum upp á loftið og jafnvel nokkrir sem komust ekki inn stóðu í sólskininu fyrir utan.  Ekki amaleg aðsókn í Flateyjarkirkju þar sem messað er einu sinni á ári.  Og tónleikarnir fór af stað með trukki.

Sextán manna karlakór hafði komið sér fyrir frammi fyrir kunnuglegum andlitum altaristöflunnar, þriggja manna hljómsveit búin að tengja græjur sínar og hljóðfæri og búnir að stilla sér upp framan við predikunarstólinn og básúnublásari kórsins stóð hæverskur í norðaustur horni kirkjunnar.  Af stað var haldið með miklu skriði þar sem skemmtilegar karlakórsraddir fylltu út í hvern kima kirkjunnar.  Af léttleika og krafti var rennt í gengum hvert skemmtilegt sönglagið sem nánast hver einasti tónlistagestur þekkti, raulaði með og hreyfði sig taktfast  í anda sönglagsins.  En þetta var ekki bara karlakór heldur höfðu þeir með í för hina fallegu stórsöngkonu Stefaníu Svavarsdóttir sem heillaði tónleikagesti upp úr skónum með sinni dróttmiklu og englafögru rödd enda sagði stjórnandi kórsins og kynnir, Sigurður Hansson að kórinn hefði einfaldan smekk og veldi aðeins það besta þegar að söngkonum kæmi.  Kórinn og Stefanía renndu sér í gegnum mikinn fjölda laga eins og Álfar hans Magnúsar, Sálminn hans Bubba, lög Shady Owens, dynjandi Metalica lög, angurvær kórlög á fjölradda nótum, Siggi fór hamförum í stórgóðum einsöngslögum þar sem kórinn kom flottur inn og Stefanía tók hvert meistarastykkið og skilaði þeim meistaralega og tónlistargestir klöppuðu og klöppuðu.  Að lokum stóðu gestir klappandi upp og heimtuðu meira, meira og meira.  Undan var látið og tvö aukalög tekin og síðan var lofað að taka enn eitt aukalagið fyrir utan kirkjuna.  Þar var lokaspretturinn á þessum stórkostlegu tónleikum tekinn þar sem aðrir stórtenórar og bassar úr hópi tónleikagesta sameinuðust kórnum og tvö lög tekin í anda sveitarinnar og umhverfisins.   Það var ánægður hópur tónleikargesta sem gekk raulandi skemmtileg lög kórsins frá kirkju til síns heima í Flatey þennan sólríka dag.  Svona eiga tónleikar í Flatey að vera og tekið var loforð af kórnum að koma aftur.

Fréttaritari heimasíðu Framfarafélagsins

Gunnar í Eyjólfshúsi