Fréttir

Snúa vörn í sókn – tækifæri í komu skemmtiferðaskipa?

131

Gunnar Sveinsson skrifar:
Eins og Flateyingar muna vafalaust varð allmikil uppræða um komu
skemmtiferðaskipa til Flateyjar og hve mikið þessir ferðamenn skila
eftir fyrir Flatey.  Þessari umræðu var síðan fylgt eftir með skoðana-skiptum á Facebook og í greinum á heimasíðu Framfarafélagsins nú í sumar.  En eins og alltaf þá verður að bera sig eftir björginni og Flateyingar verða sjálfir að hafa dug til að gera eitthvað í sínum málum.  Nú í sumar hafa a.m.k. sjö skemmtiferðaskip komið til Flateyjar og flutt hundruða ferðamanna í land og er það vel.  Þetta eru ferðamenn sem stansa stutt við, ganga um eyjuna, heimsækja kirkjuna, líta við í Bryggjubúðinni eða fá sér eitthvað í svanginn á veitingarsal hótelsins.  Sumir þessara hópa hafa haft með sér íslenskan leiðsögumann frá skipinu en aðrir hafa notið þjónustu heimamanna sem ganga með hópnum um eyjuna og segja þeim sögu Flateyjar og skemmtisögur af Flateyingum lifandi og brottförnum.  Kirkjan er auðvitað heimsótt og ferðamönnum sögð saga hennar og listaverka Baltasar og Kristjönu. Þetta er ný þjónustu sem fjáröflunarnefnd Flateyjarkirkju hefur tekið upp nú í sumar að frumkvæði Guðmundar Stefánssonar á Myllustöðum og Gunnars Sveinssonar í Eyjólfshúsi.  Þessi nýlunda hefur mælst afar vel fyrir og hefur kirkjan notið góðra tekna af þessari nýjung í ferðaþjónustu í Flatey nú í sumar. 

Hér skal tiltekið dæmi af síðustu heimsókn skemmtiferðaskips til Flateyjar þriðjudaginn 28. júlí s.l. því með útsjónasemi er hægt að gera vel við þessa ágætu ferðamenn sem kjósa að heimasækja Flatey með þessum stóru, fallegu skipum sem leggjast við akkeri á legunni vestan við Hafnarey eða sunnan við Máveyjar ef vindátt er þannig.   Snemma morguns kl 07:00 voru mættir í Vesturbúðarvör Guðmundur Stefánsson „stórleiðsögumaður“ og hans stórgóða hjálparfólk þau Guðmundur Lárusson í Vogi, Þórarinn Guðmundsson á Myllustöðum og síðast enn ekki síst Björg Aradóttir í Eyjabergi til að taka á móti hópnum.  Skipt var liði þannig að hjálparfólkið fór með fólkið um eyjuna en Guðmundur  Stefánsson kom sér fyrir í kirkjunni til að messa yfir skemmtiferðafólki í þessari fallegu kirkju. Segja menn að sjaldan hafa „messur“ verið eins skemmtilegar í kirkjunna en þennan morgun enda varð Guðmundur að messa tvisvar til að fullnægja eftirspurn.  Mikið var hlegið, hlustað með andakt og menningar boðskapurinn inntekinn af ákafa og ánægju og gott ef ekki var ákaft klappað í lok hverrar messu enda „prófastur“ Guðmundur klæddur að eyjasið í sína frægu lopapeysu.  Til að toppa þessa heimsókn bauð Guðmundur síðan hópnum til Artic Tern Show norðan megin við hótelið.

Það voru eftirvæntingarfullir skemmtiferðamenn sem komu sér fyrir á grasbalann í stórum hring umhverfis Guðmund og hans hjálparfólk.  Þar hafði Guðmundur komið sér upp all miklum birgðum af fiskafskurði, hæfilega smátt niðurskornum sem hæfir litlum fallegum goggi kríunnar.  Hóf nú Guðmundur að kasta fiskbitum til kríunnar en sýningin fór hægt af stað.  Fyrst kom engin kría og kastaði sýningarmeistari því fleiri bitum upp í loftið og ein og ein kría fór að birtast.  Enn var bætt við bitum og þá fylltist allt af kríum í sýningarhringinn og skemmtiferðahópurinn fylgdist með af ánægju og myndavélarnar óspart notaðar.  Þegar Guðmundur sýningarstjóri setti síðan tvo fiskbita á sína mikilúðlegu formannshúfu og kría settist á húfuna til að fá sér bita ærðist skemmtiferðahópurinn bókstaflega.  Ákaft var myndað, fólk rak upp undrunaróp og skríkti af ánægju og síðan var klappað ákaft þegar sýningarstjóri og hjálparfólk hans hneigði sig í lok  sýningar.  Góður endir á góðri Flateyjarheimsókn sem verður í senn eftirminnileg og skemmtileg fyrir gesti og ekki síður heimamenn.  Svona á að gera þetta.

Fréttaritari heimasíðu Framfarafélagsins

Gunnar í Eyjólfshús