Fyrir örfáum dögum tilkynnti sóknarprestur Flateyjarkirkju, séra Hildur Björk að hún hefði óskað eftir því við Agnesi biskup að hún leysti sig frá embætti sóknarprests Reykhólaprest 30. júní næstkomandi.
Ástæður þessarar ákvörðunar sinnar segir séra Hildur Björk í tilkynningu; „Ég hef staðið vörð um embættið síðastliðið ár eftir sameiningartillögur og eftir að prestbústaðurinn var úrskurðaður óíbúðarhæfur með því að vera ávallt til taks og sjá til þess að allt safnaðarstarf gangi vel og eftir áætlun. Þetta síðasta ár hefur hins vegar verið mjög flókið og margar áskoranir sem ég hafi þurft að takast á við með því að vera ekki búsett í prestakallinu og starfa einnig í Reykjavík og hef ég þurft að vera mikið frá fjölskyldunni minni og er svo komið að ég þarf að gera breytingar til að mæta þeirra þörfum.
Því varð þessi ákvörðun óumflýjanleg en um leið afar erfið en byggist á heilindum gagvart sjálfum mér og sóknarbörnum mínum. Það dýrmætasta sem ég hef eignast sem sóknarprestur í Reykhólaprestakalli eru samskiptin við það góða fólk sem þar býr og að hafa fengið að vera hluti af samfélaginu í þennan tíma og hef ég alltaf leitast við að standa með þeim í blíðu og stríðu. Það er því með trega sem ég tilkynni ykkur þetta núna og það er von mín að þið skiljið ákvörðun mína og forsendur hennar.
Ég er fullviss um að það eru bjartir tímar framundan í Reykhólaprestakalli og ég hlakka til að fylgjast með á hliðarlínunni og verð ávallt til staðar ef eitthvað er“.
Það er með söknuði að við kveðjum prest okkar og vonum svo sannarlega að „bjartir tímar eru framundan í Reykhólaprestakalli“ en maður kemur í manns stað og við bjóðum nýjan prest velkominn til starfa þegar að því kemur.
Með góðum kveðjum úr Flatey
Gunnar í Eyjólfshúsi
gunnarsv@landspitali.is