Umtalsverðir fjármunir verða lagðir í verkefni, framkvæmdir og undirbúning að verndarætlun fyrir Flatey. Um er að ræða 45,8 millj. króna sem áætlað er í þessi verk. Þessar upplýsingar og fjölmargar aðrar komu fram á aðalfundi Framfarafélags Flateyjar sem haldinn var 3. mars s.l.
Bryggjuframkvæmdir og aðgerðir
Styrkur að upphæð 35 millj. króna hefur fengist til viðgerða og endurbóta á bryggjunni sem er orðið löngu tímabært en jafnframt til aðgerða til sjóvarna á nokkrum stöðum í Flatey s.s. við Grýluvog, Þýskuvör, Stóragarð og inn með Bökkunum. Fjárhæð þessi kemur frá yfirvöldum samgöngumála til Vegagerðarinnar. Ráðgert er að framkvæmdir muni hefjast með vorinu en Baldur mun flytja grjót til eyjarinnar til þessara framkvæmda en samið hefur verið við verktakafyrirtæki Saurar-bræðra um útvegun á grjóti til framkvæmda. Til marks um lélegt ástand bryggjunnar var á aðalfundi FFF greint frá óhappi helgina 23. – 25 febrúar s.l. þegar hið stóra og þunga skip Baldur skall með nokkrum þunga á bryggju og lá við slysi á fólki er stóð á bryggjunni og traktor hentist til við áreksturinn. Ítrekuð voru þau tilmæli að fólk ætti alls ekki að vera á bryggju við komu Baldurs og verður þeim tilmælum fylgt stíft eftir nú í sumar.
Bygging brunaskýlis í Flatey
Ákveðið hefur verið í sveitarstjórn Reykhólahrepps að reisa brunaskýli í Flatey undir tæki og tól brunavarna eyjarinnar. Komin er fjárveiting til þessara framkvæmda er nemur 6 millj. króna. Staðsetning þessa skýlis er ráðgerð austan Ráðagerðis við stíginn niður að Innstapolli þar sem smábátahöfnin var fyrirhuguð á sínum tíma. Ráðgert er að reisa þetta skýli í byrjun sumars en skýlið verður smíðað í pörtum á Reykhólum og reist síðar í Flatey. Uppi hafa verið hugmyndir að Flateyjarveitur komi að brunavörnum í Flatey en engar ákvarðanir hafa enn verið teknar þar að lútandi né samningar gerðir við vatnsveituna. Áður en af slíku verður er afar brýnt að skoða alla þætti þessa máls m.t.t. ábyrðar, umfangs, fjárhagslegra skuldbindinga, lagalegra ákvæða og vilja beggja samningsaðila.
Undirbúningur að gildistöku Verndarsvæðis í byggð fyrir Flatey
Á síðasta ári fékkst styrkur að upphæð 4,8 millj. króna til að vinna að Verndarsvæði í byggð fyrir Flatey. Skipaður var stýrihópur sem í sitja fulltrúar sveitarfélagsins og Framfarafélagsins sem fundaði tvisvar á síðasta ári og í lok janúar s.l. var haldinn góður kynningarfundur með Flateyingum, húseigendum og ábúendum Flateyjar. Ráðgert er að halda annan kynningarfund á næstunni til að kynna vinnu stýrihópsins. Vitað er að fjölmargar athugasemdir hafa borist til stýrihópsins um þessa fyrirhuguðu áætlun í kjölfar kynningarfundarins í janúar.
Með góðum kveðjum úr Flatey
Gunnar í Eyjólfshúsi
gunnarsv@landspitali.is