Fréttir

Leitir í Flateyjarlöndum

Einar og gæsaungar

Föstudagurinn 4. júní rann upp fagur og bjartur.  Sól og hægur andvari af norðan.  Mikil breyting eftir langvarandi stífa norð-austan átt með allnokkrum kulda.
Nú var gott að fara í dúnleitir upp í Skeley, Stikkiseyjar, Sultarhólma og Sandey. Eftir komu Baldurs var bátur Magnúsar, Bliki gerður klár, gúmmíbáturinn Loftmalakof bundinn aftan í og allþung keðja bundin í bandi við gúmmíbátinn svo hann yrði stöðugri í drætti.  Um borð kom hópur vaskra leitunarmanna er samanstóð af Magnúsi í Krákuvör, Gunnari í Eyjólfshúsi, Þórdísi, Hjalta, Sædísi og Einari Óla í Krákuvör.

Hálftíma sigling er upp í Skeley og var dýrðlegt að horfa á lundann hópa sig á sjónum, múkkan lyfta sig til flugs til að skima eftir æti og svartar teistur sáumst af og til bylta sér í logntærum sjónum.

Komið var að norð-vestan enda Skeleyjar þar sem uppgangur í eyjuna var fyrirhugaður.  Eftir að drekinn var farinn út var Loftmalarkof gerður klár, pokarnir, nestið, drykkjarvatnið settur í bátinn og ákafur leitarhópurinn var klár í bátinn.

Skeley tók okkur fagnandi, blikinn úaði rólyndislega á sjónum, lundinn kíkti spekingslega upp úr holum sínum, tvær gæsir lyftu sig til flugs og selurinn horfði á aðkomumenn með sínum mannlegu augum.

Strax í upphafi var leitarverkið skipulagt og hvernig skyldi leitað og hver og einn fékk sitt poka fyrir dúninn. Skeley er allstór eyja er liggur frá vestri til austurs og all breið um sig miðja. Hópurinn skipaði sér í röð þar sem einn fór strandkantinn og síðan raðaði hver og einn sig með jöfnu millimili upp að miðju eyjarinnar en sá merkti jafnharðan leiðina með hvannarstöglum til að vita skilin í bakaleiðinni.  Og síðan var gengið af stað.

Skeley er nokkuð erfið til leitar, mikið um þúfur umvafnar kafalssinu og hvönn að breiða úr sér.  Nauðsynlegt er að leita  vandlega milli þúfna, ýta sinukafinu til hliðar og kíkja gaumgæfilega inn í þessa náttúrulega felustaði og oftast sést ekki hvar kollan flýgur af hreiðri. Þær kollur sem eru reynslumiklar og skynsamar sitja sem fastast og treysta á að við sjáum þær ekki eða finnum.

Fyrir þá sem aldrei hafa farið í leitir (dúnleitir) þá er byrjað á því að leggja eggin til hliðar en fuglinn skítur ævinlega á þau er hann flýgur upp.  Nú orðið er allur dúnn tekinn úr hreiðrinu og síðan er sinubrúskur lagður í hreiðrið í hans stað og eggjunum komið haganlega fyrir á nýjan leik. Oft er svolítið af heyi sett of á eggin sérstaklega ef kalt er og kaslalegt.

Tiltöklulega auðvelt var að leita Skeley í þetta sinn. Ekki hafði rignt í langan tíma og því var allt þurrt og fínt og dúnninn skraufþurr.  Gróðurinn og hvönnin ekkert kominn af stað í vexti þannig að yfirferðin var tiltölulega auðveld en um klukkustund tekur að leita frá vestri til austurs eyjuna og síðan aðra stund til baka hinn helminginn.

Margt verður á vegi manns við þessar leitir ekki bara kolluhreiður.  All mikið var af tómum gæsahreiðrum en hún verpir oftast nokkuð fyrr, andahreiður með sín átta til tíu egg, nokkur upprifin hreiður eftir varginn finnast alltaf og síðan sílamáfs- og svarbakshreiðurstæði.  Reglan er að hrista sílamáfseggin duglega og leggja þau síðan aftur í hreiðrið því þá liggur sílamáfurinn á en engir koma ungarnir.  Svartbakseggin eru yfirleitt brotin.

Á þessum tíma eru gæsaungarnir komnir á kreik og nú fylgdu okkur sex fallegir og krúttlegir ungar alla leið frá miðri ey út á eyjarenda.  Þeir komu kjagandi á eftir okkur og skyldu ekkert í þessari "fósturmóður" sem var að leiða þá alla þessa löngu vegaleið. Tilvalið var að gera sér stundarhlé í leitinni og ræða við þessa nýju félaga okkar og láta taka mynd af sér með þessum gulgrænu nýliðum í leiðarflokknum.

Allaf kemur upp í leitarhópnum ákveðin jákvæð keppni um að ná í dún úr sem flestum hreiðrum.  Mikil samkeppni var á milli Einars Óla, yngsta meðlims hópsins og Magnúsar afa um sem flest hreiður og var dugnaður stráksins aðdáunarverður.  Heyrðist Magnús tauta fyrir munni sér "að þessi strákur verður feykilega duglegur dúnleitarmaður og er reyndar þegar orðinn það svo ég verð að fara að vara mig". 

Dúnpokarnir þyngdust sífellt og voru orðnir vel hálfir þegar á eyjarenda var komið þar sem sem gerð var hvíldarpása, kærkominn svalardrykkur þeginn og lúin bein og bak hvíld örskotsstund.  Þeir yngstu fóru að leita að fallegum steinum en mikið er af þeim í Skeley.  Við hin vorum í móttökunefndinni þegar gæsaungarinir komu kjagandi.

Fyrir þá sem koma í þessar sömu eyjar ár eftir ár þá er gaman og áhugavert að bera saman ásýnd og útlit eyjanna eftir hörð vetrarveðrin sem geysað hafa og hvernig brimaldan hefur leikið þessar eyjar.  Oft eru stór stykki farin á haf út, sandurinn færst til um tugi metra og ný strandlengja orðin til.  En þetta er náttúran sem bæði rífur niður og byggir upp á öðrum stað.

Leiðin til baka leið fljótt en sífellt þyngdust pokarnir og við nánast drógum þá á eftir okkur.  Sem betur fer áttum við aukapoka fyrir þá sem voru fundvísastir á velfalin æðarkolluhreiður. 

Eftir smástund á eyjarenda þar sem við komum upp í Skeley voru tölur uppgefnar og safnað saman því sérhver verður að telja og halda saman úr hve mörgum hreiðrum hann tekuof eftir það var farið að huga að brottför.

En hvað gerist þá?

Koma ekki þá sex nýju nýliðirnir í leitarhópnum kjagandi og vildu augsýnilega koma með.  Það var með nokkrum söknuði sem við kvöddum þessa nýju vini okkar.  En söknuðurinn breytist í raun í sorg og fékk Þórdís sting í móðurhjartað þegar einn unganna steypti sér fram af klettunumog kom syndandi í átt að bátnum hjá okkur.

Fréttarritari heimasíðu Framfarafélags Flateyjar

Gunnar í Eyjólfshúsi