All mikil umræða varð um komu skemmtiferðaskipa til Flateyjar á síðasta aðalfundar Framfarafélags Flateyjar í mars mánuði s.l. Bent var á að fjöldi skipa komi árlega til Flateyjar en engar tekjur komi í hlut Flateyjar eða íbúa hennar við þessar skipakomur.
Í síðustu viku brá svo við að skemmtiferðaskip boðaði komu sína í gegnum hina ágætu ferðaskrifstofu Atlantik í Reykjavík og óskaði hún eftir aðstoð staðkunnugra fararstjóra til að fara með farþega um eyjuna. Snarlega var brugðist við því hæg eru heimatökin. Guðmundur Stefánsson á Myllustöðum var kallaður til í snarhasti enda sprenglærður í leiðsögumannafræðum og Gunnar í Eyjólfshúsi munstraður sem hans hægri hönd og aðstoðarfararstjóri.
Úr varð að skemmtiferðaskipið Seaspirit kom tvisvar í Flatey í síðustu viku, fyrst sunnudaginn 31. maí og síðan aftur fimmtudaginn 4. júní en skipt hafði verið um farþega í Reykjavíkurhöfn í millitíðinni. Í bæði skiptin varpaði skipið akkeri sunnan við Flathólma og farþegar voru ferjaðir í land á stórum gúmmíbátum upp í Innstapoll þar sem leyfar af Ögra liggja og bíða síns vitjunartíma.
Þrátt fyrir leiðindaveður í byrjun síðustu viku með stífri norð-austanátt og örfáum hitagráðum dúraði veður niður báða þessa skipadaga og gerði sólskyn og hressilegan andvara farþegum Seaspirit til ómældar gleði og ánægju. Þegar velbúnir skemmtiskipafarþegarnir stigu á land í Flatey voru hinir ágætu staðkunnugu fararstjórar mættir til að taka á móti þeim. Í fyrri skemmtiskipakomunni voru það Bretar og Amerikanar þannig að tjáskipti voru auðveld á engilssaxneskri tungu. Hópnum um 60 – 65 manns var skipt í tvo hópa og var skunndað með fyrri hópinn upp í kirkju en sá síðari fór lengri leiðina í átt til kirkju meðan messað var þar.
Í kirkjunni var "messað yfir" þessum áhugasömu gestum, saga kirkjunnar tíunduð og síðan voru listaverk Baltasar og Kristjönu útskýrð í allmiklum smáatriðum og atvinnu- og menningarsaga Flateyjar allt frá landnámstíð sögð á litríkan og skemmtilegan hátt. Að sjálfsögðu er kryddað inn í með skemmtisögum af listamanninum, tilurð myndanna, sagðar gamansögur af Flateyingum og átakanlegar sögur af Flatey fyrri tíma. Alltaf er endað á hinni þekktu altaristöflu með Jesú í lopapeysunni og fiskimennina tvo þar sem í holdgerast bændur tveir úr Flatey og Skáleyjum. Hér bæti ég alltaf við í frásögn mína þau orð tengdamóður minnar Gyðu í Eyjólfshúsi þegar altaristaflan bar á góma, "Alltaf fannst mér gamla altaristaflan fallegri"
Hafandi fengið hina kirkjulega yfirlesningu var gengið niður í þorp eftir þjóðvegi nr eitt í Flatey. Atvinnusagan sögð, frægð, uppgangur og niðurlægð Flateyjar rakin og saga garðsins sögð þar sem vinnulaunin voru með silfurpeningum úr hendi Guðmundar Scheving greidd forðum. Saga húsanna tíunduð og bætt við nokkrum gamansögum af Flateyingum lífs eða liðnum.
Skemmtigangan endaði á Myllustöðum þar sem fólk gat farið á salernið og "lókal" viðurgjörningur veittur er samanstóð af Opal, Tópas, Síríussúkkulaði og Flateyjarmjöður sem framreitt var í Lundastaupum og er söngvatn gott og gefur fólki roða í vanga. Var haft að orði að eftir fjögur slík glös færu útlendingar í Flatey að tala íslensku. Einn úr hópnum sagði þá strax að hann væri þegar farinn að tala hálf-íslensku.
Seinni hópurinn samanstóð af Rússum og sagt var að þetta hefðu verið vinir og kunningjar eiganda skemmtiskipsins Seaspirit en hann er einmitt Rússi sjálfur. Greinilegt var að fólk þetta var velstætt fólk sem bar sig fyrirmannlega, var sjálfsöruggt, skemmtilegt og var fullt af áhuga á Flatey. Nú var hópnum skipt í þrennt þar sem tveir rússnesk talandi fararstjórar af skipinu fylgdu fyrstu tveim hópunum en ég fékk Boris "hinn rússneska" mér til traust og halds fyrir þriðja hópinn en Boris túlkað jafnharðan allt á rússnesku sem ég sagði.
"Yfirreiðin" tókst með miklum ágætum. Fólkið var áhugasamt og mikið spurgt um málfefni kirkjunnar, afkomu bænda og lífsafkomu í Flatey. Sérstakan áhuga vakti sá fjöldi kinda sem í Flatey er og sú staðreynd að þær eru fluttar sumarlangt í sína sumarhaga í nálægum eyjum. Að sjálfsögðu endaði skoðunarferðin á Myllustöðum með tilheyrandi velgjörningi.
Þessi hópur skemmtiferðaskipagesta hafði mjög rúman tíma frá kl 08:00 til 13:00 og notaði hópurinn sinn "frjálsa tíma" til að kaupa sér góðgerðir á hinu fallega veitingarhúsi í Samkomuhúsinu. Hafði Ingbjörg hótelstýra að orði að sjaldan hefðu svo margir keypt svona mikið af góðu rauðvíni og bragðmiklum ostum ásamt kökum, brauði, súpu og kaffi og það fyrir hádegi. Heimsfræg söngkona í Rússlandi vildi endilega kaupa skinn, íslenska lopapeysu og vettlinga og var henni snarlega vísað til Línu í Læknishúsi.
Greinilegt er að þessi hópur hefur skilið dágóðan pening eftir í Flatey og öll fararstjórnarlaun fara auðvitað óskipt til Flateyjarkirkju. Það voru ánægðir og skemmtilegir Rússar sem fóru til skips og margir höfðu á orði að koma aftur.Til marks um gamansemi hópsins og starfsmanna skipsins þá heyrði ég einn úr "staffinu" kalla í talstöð sína þegar síðasti hópurinn sigldi til skips. "Hefur einhver gleymt tösku með 10.000 dollurum í reiðufé?"
Fréttaritaði heimasíðu Framfarafélags Flateyjar
Gunnar í Eyjólfshúsi
Eftirmáli;
Það er annars umhugsunarvert hvort sveitarfélagið Reykhólahreppur geti ekki í krafti stjórnvalds síns innheimt hafnargjöld af skemmtiferðaskipum og/eða nefskatt af farþegum þeirra þegar komið er í land í Flatey. Vitað er að mikil umræða hefur átt sér stað varðandi slíka innheimtu á Hornströndum þar sem Ísafjarðarkaupstaður framfylgir slíkri innheimtu. Skorað er á Reykhólahrepp að taka þetta til íhugunar og framfylgja slíkri hóflegri innheimtu.