Karl Gunnarsson í Vertshúsi skrifar úr Flatey. Það er fátt skemmtilegra en að fara með kíki, í góðu veðri leggjast í grasið og skoða fugla. Fuglar eru áberandi í náttúrunni, tiltölulega stórir og eru stöðugt á hreyfingu. Þó að margar aðrar lífverur séu jafnáhugaverðar bæði hvað varðar atferli og lifnaðarhætti þá draga fuglar samt alltaf athyglina að sér. Það eru e.t.v. bara menn sem draga að sér meiri athygli. Það þykir hins vegar ekki viðeigandi að sitja með kíki og stúdera atferli nágrannanna.
Ég er staddur í Flatey. Það er bjart veður og sléttur sjór. Það var notarleg tilfinning þegar við lögðumst að bryggju í dag. Kría var um allt og fagnaði komu okkar. Vorið hefur verið kalt hér fyrir vestan; stöðugar norðaustanáttir. Þó að krían hafi komið til landsins strax um mánaðarmótin apríl/maí þá kom hún ekki hingað vestur fyrr en núna í vikunni þegar dró úr NA-áttinni.
Flestir farfuglarnir eru nú komnir í Flatey. Steindepill og óðinshani komu um síðustu helgi og urtönd sást þá líka í Skansmýri. Nú er eiginlega bara þórshaninn eftir. Hann er sjaldgæfasti fuglinn og finnst því að hann geti látið bíða eftir sér.
Jaðrakan er hér líka og virðist vera búinn að festa rætur. Hann byrjaði að verpa í Flatey árið 2010 en hafði aldrei verpt hér áður svo vitað sé. Síðan 2010 hefur hann verpt á hverju ári, a.m.k. tvö pör síðustu árin. Það fer ekki fram hjá neinum þegar jaðrakan kemur í eyjuna á vorin. Hann hefur hátt og er sífellt kvakandi. Bjarni í Bergi hefur ekki getað sofið fyrir látunum í honum. Kannske róast hann þegar hann er búinn að verpa, þ.e. fuglinn.
Ég gekk í dag inn í Mjósund, settist í grasið og horfði á vaðfuglana innarlega í Sundavognum, sem voru að éta á meðan sjórinn hafði fært sig í smá stund neðar í fjörunna og þeir gátu náð í ferska fæðu. Þarna voru sandlóur og lóuþrælar að éta orma og aðrar lífverur sem úr leirnum en sendlingar, tjaldar og tildrur að tína fæðuna úr þanginu. Þá sá ég um 20 fugla hóp fljúga að og setjast í fjöruna innan um lóuþrælana. Þeir voru talsvert stærri en lóuþrælarnir og rauðir brjósti og framan á hálsi. Rauðbrystingar voru það; vaðfuglar sem koma í stórum hópum frá meginlandi Evrópu hvert vor. Þeir fara beint í Breiðafjörð, éta eins og hver getur og safna forða fyrir næsta legg á fluginu til varpstöðvanna á Grænlandi og nyrst í Kanada.
Ég kíkti svo suður fyrir Mjósundið spenntur að vita hvort þar væri önnur tegund á sömu leið. Jú viti menn! margæsir í hundraðavís voru innst í Hólsbúðavognum, að éta einhvern sjávargróður í sama tilgangi og rauðbrystingarnir, að fita sig fyrir langt flug til varpstöðvanna.
Maí er einn alskemmtilegasti tími Flatey. Farfuglarnir koma hver af öðrum og byrja varp. Þeir eru í sínum fínasta skrúða. Pörin láta vel hvert að öðru en það getur orðið handagangur í öskjunni ef óboðinn laumast að og er staðinn að því að daðra við makann.
Skrifað fimmtudaginn 14. maí 2015.