Fréttir

Framtíðar- og Fortíðarnefnd fyrir Flatey

Kríkrí

Allmiklar umræður hafa verið meðal Flateyinga að undanförnu um framtíð búsetu í Flatey og hvernig bregðast skal við þegar og ef heilsársbúseta í Flatey leggst niður.  Búast má við miklum breytingum í aðstöðu allri í Flatey ef heilsársbúseta leggst af og fjölmargar spurningar vakna sem nauðsynlegt er að svara eða leita svara við.

Mun ferjan Baldur halda uppi heilsárssiglum við Flatey ef búseta skerðist og verður vatn flutt á heilsársgrundvelli og hver tekur við spottanum ef enginn er í eyjunni? Mun Vegagerðin hafa einhverjar skyldur til að styrkja ferjusiglingar yfir Breiðafjörð ef búseta skerðist?  Mun Orkubú Vestfjarða (OV) halda úti og reka dísel rafstöðvarnar og hver mun sjá um viðhald á þeim? Verður olía flutt til Flateyjar og hver mun sjá um dreifingu hennar í hús í Flatey?  Hver mun taka að sér að flytja farangur og flutning í eyjunni? Hver mun hafa eftirlit með eignum og dreifikerfi vatnsveitunnar yfir vetrarmánuði?  Hver mun sinna eftirliti með húsum í Flatey og ef eitthvað kemur fyrir hver er þá til að tilkynna um tjón?  Hvernig verður eftirliti háttað með óæskilegu fólki sem kemur til Flateyjar í vafasömum tilgangi?  Hvað verður um brunavarnir ef eldur er uppi því fjölmörg hús eru hituð allt árið? Hvernig verður háttað viðhaldi og eftirliti með fjarskiptakerfi í eyjunni sem og lausamunum, dráttarvélum og bátum? Hverjar eru skyldur sveitarfélagsins Reykhóla ef búseta leggst af?  Þetta er bara örlítið brot af þeim spurningum sem vakna við þessa framtíðarsýn.

Á aðalfundi FFF sem haldinn var 3. mars s.l. var ákveðið að setja á fót nefnd er fékk nafnið „Framtíðarnefndin“ til  að fjalla um þetta mikilvæga mál í víðasta skilningi þess orðs.  Lýst er eftir fólki í þessa nefnd eða tilnefningar í hana.  Hægt er að senda nöfn, ábendingar og tilnefningar til Gyðu Steinsdóttir, Sunnuhvoli á netfangið gydast@simnet.is

Fortíðarnefnd Flateyjar
Á þessum sama fundi var ákveðið að setja á laggirnar aðra nefnd er fékk nafnið „Fortíðarnefnd“ Tilgangur með þessari nefnd er að safna saman á einn stað öllum þeim fróðleik um Flatey sem máli skiptir varðandi fornleifar og varðveislu þeirra, söfnun örnefnda og útgáfu bókar um það efni, sögum, þjóðlegum fróðleik, munnmælum og öðru er varðar sögu Flateyjar.  Áhugasamir fyrir þessari nefnd geta sent nöfn, ábendingar og tilnefningar til Alberts Páls Sigurðarsonar, Klausturhólum á netfangið alberts@landspitali.is

Með góðum kveðjum úr Flatey
Gunnar í Eyjólfshúsi
gunnarsv@landspitali.is