Fréttir

Lukka úr Sviðnum – hleypt í Höskuldsey

46360024

Kafli úr sögu Lukku – hleypt í Höskuldsey.  Það var að áliðinni góu, veturinn 1941. Faðir minn, Jens Nikulásson bóndi í Sviðnum, hafði Öllu og Summa í húsmennsku þetta ár. Þau bjuggu frammi á dyralofti og hétu fullu nafni Aðalheiður Ólafsdóttir og Sumarliði Sigurðsson. Annað heimilisfólk var móðir mín Dagbjört Andrésdóttir og amma, Klásína Guðfinnsdóttir að ógleymdum honum Eiði Stefánssyni, sem tilheyrði hugarheimi bernsku minnar, álíka forn og veðurbarinn eins og hlaðni túngarðurinn neðan við Flötina, eða Varðan á Kastalanum. Gunna, Guðrún Torfadóttir var einnig í Sviðnum þennan vetur eins og aðra vetur frá því ég man fyrst eftir mér. Annars var þessi aldraða dugnaðarkona í kaupavinnu á sumrin, hjá ýmsum bændum í nágrenninu.

Þetta hafði verið ósköp venjulegur vetur, með landsynningi og tilheyrandi blotum, er fljótlega snérist í úrsynning með hryssingslegum éljagangi. Síðan gekk hann í vestrið og birti til, jafnframt sem hann gekk niður. Þess á milli renndi á með norðan garð er staðið gat í viku eða lengur. Bátarnir í eyjunum urðu innifrosta, svo þreyja varð þorrann og góuna í heimavör.

Ég man óljóst eftir ljósagangi og fótaferð um miðja nótt. Kyrrðin varð næstum yfirþyrmandi í nýfengnu logninu, svo ekki bærðist strá við gluggakistu. Ég sofnaði samt fljótlega aftur, í tryggu posi mínu, við fótagaflinn á ömmu rúmi.

Um morguninn, þegar kominn var bjartur dagur, fékk ég að vita að pabbi og Summi hefðu tekið lóðirnar, sem þeir höfðu átt beittar meðan norðan garðurinn geisaði.

Þeir höfðu haldið af stað í róður út í Bjarneyjaál.

Án efa hefur faðir minn vonast eftir að eitthvað stillti til eftir hina langvinnu norðaustan átt og gripið tækifærið þegar stórstraumurinn og úrsynningurinn hreinsuðu ísinn frá Vörinni.

Karlarnir í eyjunum voru veðurglöggir og reynsla kynslóðanna hafði kennt þeim lögmál veðurfræðinnar í stórum dráttum. Vegna stríðsreksturs stórveldanna um þessar mundir var veðurfregnum ekki útvarpað, enda aldeilis óvíst að veðurþjónustan hefði betur spáð fyrir um þau veðrabrigði er nú fóru í hönd en bændur og sjómenn þeirra tíma sem einatt áttu líf sitt undir veðurglegni sinni.

Ekki var þó orðið meira en svo bjart af degi, þegar þykkna tók í lofti. Það var líkt og gráblár veggur færði sig inn eftir firðinum og gleypti í sig birtuna. Von bráðar fór að kyngja niður snjó í stórum flygsum svo tæpast grillti í Eldiviðarhúsið utan við Nýjuvörina, aðeins steinsnar frá bænum.

Ömmu varð venju fremur tíðförult með kíkinn upp í Vörðu þennan morgun, áður en kafaldið byrgði alla útsýn.

Þótt ekki væri mikið sagt, skynjaði drengurinn að konurnar vonuðust eftir að þeir á Lukku, hefðu séð hvað verða vildi og byrjað að draga, fyrr en ella.

Að afliðnu hádegi, heyrðist þungur hvinur í lofti, þótt enn væri lognmuggu kafaldið þar heima í Sviðnum. Það leið þó ekki á löngu að fyrstu vindstrokurnar byrjuðu að svifta til þungum snjóflygsunum svo fljótlega varð úr iðulaus hríð svo ekki sá út úr augunum. Kvikasilfrið í hitamælinum við eldhúsgluggann hrapaði frá +6°, niður í –10°, á örskammri stundu.

Norðan áhlaup var brostið á.

Faðir minn var skemmtilegur frásagnarmaður.

Oft fékk ég að vera nærstaddur þegar karlarnir komu saman og ræddu landsins gagn og nauðsynjar. Skemmtilegast þótti mér, þegar sögumenn eins og Sveinn Gunnlaugsson, Sveinbjörn Guðmundsson og jafnvel Pétur sterki Einarsson sátu að skrafi við föður minn.

Slík samtöl svo og lifandi frásagnir  pabba og ömmu, urðu þess valdandi, að mér finnst ég hafa þekkt nafngreindar persónur fyrri aldar, eins vel og nágranna okkar úr hinum eyjunum.

Þess vegna er þessi kafli úr sögu Lukku, sem fjallar um áhlaupsveður á Bjarneyjamiðum, lifandi í minni mínu vegna frásagnir hans.  Mér fannst lengi líkt og ég hefði sjálfur verið viðstaddur.

 

Jens Elías Nikulásson bóndi í Sviðnum (1935-1958) og háseti hans og vinnumaður Sumarliði Sigurðsson, lögðu upp í fiskiróður frá Sviðnum um fjögur leitið að áliðinni nóttu. Bátur Jens, Lukka, var opinn súðbyrðingur, upphaflega smíðuð af Eyjólfi bónda Ólafssyni í Sviðnum. Bátinn smíðaði hann fyrir sjálfan sig heima í Sviðnum árið 1880.

Það var gamalla manna mál að Lukka hafði verið snotur skekkta, lítill sexæringur og góður siglari.

Eyjólfur og kona hans, Kristín Guðmundsdóttir, brugðu búi í Sviðnum 1918 og við tóku afi minn, Nikulás Jensson og amma, Klásína Guðfinnsdóttir.

Um það leyti munu þau afi og amma hafa keypt bátinn af fyrri ábúendum

Árið 1925 keyptu þeir Sviðnafeðgar, Nikulás og Jens, vél í Lukku, það var 5 ha. Solo. Þetta var norskbyggð bensínvél með magnetukveikju, sem Kristján Rögnvaldsson, vélsmiður í Stykkishólmi, setti niður í bátinn. Jafnframt var báturinn borðhækkaður, en það mun hafa verið talið nauðsynlegt að vélknúinn bátur þyrfti að hafa meiri burðargetu en seglbátur.

Lukka varð fyrsti seglbáturinn í Vestureyjum sem breytt var í vélbát, en áður hafði Eyjólfur smíðað fyrsta mótorbátinn þar, fyrir stjúpson sinn, Guðmund Bergsteinsson kaupmann í Flatey.

Árið 1932 setti Árni Einarsson í Flatey niður 4 cyl. Overland-bílvél í Lukku. Árni var þjóðhaga smiður og varð ekki skotaskuld úr því tengja tveggja blaða skiptiskrúfu við    þennan bílmótor. Margar ævintýrasögur voru þá sagðar um ganghraða bátsins, með þessari vél, en höfuðástæða vélaskiptanna, var að faðir minn hafði atvinnu við að draga uppskipunarbáta við lestun og losun verslunarskipa í Flatey. Við þá vinnu var litla Solo vélin of afllítil.

Síðasta breyting á Lukku, fyrir þá ferð er þessi frásögn fjallar um, var sumarið 1939, þegar Árni Einarsson setti niður 10 ha. June Munktell dieselvél í bátinn og smíðaði það sem faðir minn kallaði "maskínuhús" og stýrishús. Einnig var sett skjólborð á afturhluta bátsins. Lukka náði nú ekki nálægt því sama ganghraða og hin fyrri vél hafði gefið. Nú varð sparneytni ásamt ódýru eldsneyti að sitja í fyrirrúmi, vegna breyttrar notkunar bátsins, því tekjur við uppskipanir í Flatey féllu að mestu niður um þetta leyti.

Yfirbygging á opna súðbyrðinga af stærð Lukku tíðkuðust lítið sem ekki á norðanverðum Breiðafirði fyrr en löngu síðar. Karlarnir í eyjununum höfðu hina megnustu ótrú á slíkri fordild, þótti jafnvel lítill hetjuskapur að kúra undir þaki í sjóferðum, en meiri að standa hundblautur undir ágjöfinni, í ferðum sínum milli eyja, því oft var ekki farið í sjóstakkinn fyrr en í fulla hnefana.

Aldrei bar þó við að Lukka bæri yfirbygginguna illa, með tilliti til sjóhæfni, þótt upp á ýmislegt væri boðið í lengri og skemmri svaðilförum. Ferðum sem ekki voru ætíð farnar í tryggu skjóli við heimalöndin.

Oft minntist faðir minn á það sem varð þess valdandi að þeir feðgar réðust í að setja vél í Lukku.

Marga vorvertíðina í Bjarneyjum máttu þeir og aðrir sjófarendur sem réru frá Bjarneyjum, sæta því að komast aðeins fram í Lónsund eða önnur þau Bjarneyjamið sem  næst lágu eyjunum, þaðan sem hægt var að krusa eða berja á árum til lendingar. Enda þótt menn vissu af betri og örari fiskgengd úti á hinum fjarlægari miðum. Langvarandi norðan þræsingar, iðulega seinni part vetra, komu í veg fyrir að lengra væri sótt á hinum litlu opnu seglbátum þeirra tíma.

Þegar þeir Sviðnafeðgar urðu þess megnugir að sækja lengra út og á gjöfulli mið, með hjálp hinnar nýju tækni, ákváðu Bjarneyjabændur, einn eftir annan, að fara að dæmi þeirra.

Hér á eftir mun  ég að freista  þess að endurskapa frásögn föður míns af þessum fiskiróðri á Bjarneyjamið, fyrir nærfellt 60 árum síðan. Mun sjóferð þessi að mörgu leyti gott dæmi um ferðir Jens í Sviðnum. Sjóferðir sem oft voru meira eða minna viðburðaríkar og báru kannski ekki allar heim í tryggt bólið að kvöldi dags, en enduðu þó alltaf farsællega, líkt og starfsæfi þessa ferðamanns sem ekki fetaði æfinlega troðnar slóðir.

Um þriggja klukkustunda sigling var úr Sviðnum og út í Bæjarálsbragð, yst Bjarneyjamiða, þar sem Jenni hafi ákveðið að leggja þá fiskilóðarstubba sem þeir Summi áttu beitta. Þetta voru mið sem hann gjörþekkti frá sjóferðum sínum á vorvertíðum frá Bjarneyjum, með föður sínum, Nikulási í Sviðnum.

Hægviðri en þung undiralda, eftir undanfarandi vestan átt, var á miðunum þar sem þeir lögðu lóðirnar. Stjörnubjart hafði verið á siglingu þeirra út fjörðinn, en fljótlega dimmdi í lofti og sjólag gerðist óreglulegra með vaxandi NV undiröldu. Myrkt var enn af nóttu þegar Jenni ákvað að leggja ekki síðustu línurnar, en byrja þess í stað að draga það sem fyrst hafi verið lagt. Drátturinn gekk greiðlega í fyrstu, þar eð enn var hið besta sjóveður.

Þeir félagar skiptu þannig með sér verkum að Jenni dró, en Summi stóð við stýri og andæfði. Eitthvað hafði Summi furðað sig á þessu athæfi föður míns, að byrja að draga áður en öll línan hafði komist í sjó. Línan var þó ekki ærið löng á trillubátum í þá daga. Ekkert línuspil var í bátnum, frekar en í öðrum slíkum, þau þægindi komu síðar.

Verk þeirra sóttist vel, en þegar birta tók af degi var komið muggu kafald með ókyrrum sjó, þótt enn væri hægur vindur.

Fljótlega byrjaði þó NA vindbára að leggja sig yfir NV ölduna sem fyrir var. Varð af þessu hinn versti typpingur sem síður en svo auðveldaði dráttinn. Skipti fljótlega engum togum að brostinn var á NA stormur með iðulausri hríð svo skyggnið varð litlu meira en bátslengdin.  Við þessar aðstæður bjó Jenni sig til að skera á línuna og seildist um leið

eftir belg til að binda við. Í sömu svifum tókst þó ekki betur til en svo að bátnum sló flötum, svo skrúfublöðin gripu línuna, sem vafðist í skrúfuna þar til vélin stoppaði.

Þeir félagar reyndu strax að skera úr, bundu sjóhníf á skaft og sörguðu eins og orkan leyfði á hart tvinnaða línuna sem vafðist hafði með orku vélarinnar utan um skrúfuhausinn.

Það vita þó þeir sem reynt hafa, að erfitt getur verið að hreinsa skrúfu í hvassviðri og sjógangi, þótt á trillubát sé. Allar tilraunir þeirra enduðu með því að vélin drap á sér, jafnskjótt og reynt var að nota skrúfuna. Vél bátsins var með skiptiskrúfu sem ætíð snerist í sömu átt og öxull vélarinnar.

Þeir félagar tóku þá til við að reisa mastur og seglbúa.

Allir trillubátar þeirra tíma voru meira eða minna seglum búnir, þó ekki væru þeir eins hæfir til siglinga eins og seglbátarnir voru.  Þrátt fyrir verstu aðstæður vegna sjógangs og ísingar, tókst þeim fljótlega að hefja siglinguna. Nokkur orðræða fór þeirra á milli um það hvert bera mundi, en faðir minn hafði sagt svona í gamni og alvöru, að líkur væri á því að þeir næðu Grundarfirði. Summi taldi það langa og illa siglingu og að landtaka við vestanverðan Grunarfjörð væri bæði hafnlaus og lítt fær ókunnugum. Þá kvaðst faðir minn hafa sagt, svona í hálfkæringi, þá er það Ólafsvíkin Summi minn. Við þessa orðræðu mun Summi hafa hrist höfuðið og látið talið niður falla, um leið og hann settist á bekkinn í ”maskínuhúsinu”.

Þeir Jenni og Summi voru góðir vinir. Summi var hinn þarfasti maður í hvívetna og hvers manns hugljúfi. Brást það ekki að þessu sinni frekar en endranær.

Þegar hér var komið sögu, voru aðstæður hinar verstu fyrir vélvana trillubát á opnum Breiðafirði. Nýlega brostinn á NA stormur eftir SV átt með tilheyrandi sjó. Hitastigið hafði á skömmum tíma breyst frá 5-6° hita niður í 8-10° frost. Sjávarhiti var lágur svo öll ágjöf sem á bátinn kom varð að ís. Hið ókyrra sjólag orsakað af vindbárunni ofan á vestan undiröldu, æstist um allan helming við aðfallið, sem gerist þegar straumur liggur undir vind eins og sjómenn orða það og alþekkt er meðal þeirra. Við þetta bættist hríðarbylurinn, að vísu ekki eins svartur og þegar veðrið brast á, en nægilega dimmur til að hvergi sást til fjalla. Ekki auðveldaði það stefnumörkun, að áttavitar trillubáta verða meira og minna ruglaðir við hinar snöggu hreyfingar þeirra, sem orsakast af öldurótinu.

Við þessar aðstæður sigldu þeir félagar af Bjarneyjamiðum SV yfir Breiðafjörð. Svo að segja í sporum hinna gengnu fyrrennara sinna sem höfðu í aldanna rás, óvænt eins og þeir, orðið að hleypa suður yfir af svipuðum veðurfarsástæðum.

Vafalaust hefur ýmislegt brotist um í huga föður míns á þessari siglingu. Ég tel mig þó hafa þekkt gamla manninn það vel, að nokkur ráð mun hann eins og oftast, hafa haft uppi í erminni, ef svo mætti segja. Hann hefur eflaust gert sér grein fyrir að þótt þetta bullandi stórstraums aðfall, gerði þeim svo erfitt fyrir við siglinguna að hver straumhnúturinn gæti orðið sá síðasti, hefði það þó i för með sér að bátinn bæri meira suður á bóginn, en ef um útfall hefði verið að ræða og því nokkur von um að ná landi í Höskuldsey. Ekki mun honum hafa þótt fýsilegt að fara frá stýri Lukku á þessari siglingu, en bað þess í stað Summa að reyna gangsetningu vélarinnar, í því skyni að halda áfram tilraunum til að fá hreyfingu á skrúfu bátsins. Þetta þótti Summa mikið betra en aðgerðarleysið. Þótt vélin stoppaði æ ofan í æ, svo svitinn bogaði af hásetanum við sí endurteknar gangsetningar með handsveif vélarinnar fór svo að lokum, eftir langa mæðu, að skrúfa bátsins tók að snúast.  Aflið nægði síður en svo til að drífa bátinn mót sjó og vindi, en hjálpaði þó föður mínum til að sigla mikið krappari beitivind og meira suður á bóginn. Samtímis gerði þetta stjórn bátsins mun auðveldari.

Hér væri vert að staldra við og segja frá því, að sumarið áður en þessir viðburðir áttu sér stað, gerði faðir minn sér för út í Höskuldsey, gagngert til að skoða aðkomu til eyjarinnar og lendingu þar. Lýsir þetta forvitni hans og framtaksemi við að kanna ókunnugar slóðir. Mun honum hafa verið slík nýjungagirni í blóð borin.

Ég tel að Jens í Sviðnum hafi verið öruggur liðsmaður í fylkingu þeirra manna sem ekki víla fyrir sér að sigla skipi í höfn, hvert og  hvenær sem þörfin kallar. Það sem meira var, engu skipi sem hann var beðinn að liðsinna, hlekktist á að neinu leyti.

Nú kom sér þessi nýjungagirni og forvitni Jens í Sviðnum í góðar þarfir.

Víkur nú sögunni aftur heim í Sviðnur.

Þar beið heimilisfólkið milli vonar og ótta um að frétta af sjófarendunum.

Talstöðvar voru þá aðeins komnar í hluta af hinum mörgu byggðu eyjum Breiðafjarðar.

Landsímastöð var í Stykkishólmi, sem hafði reglubundið talstöðvarsamband við Flatey.

Vikulegar póstferðir munu hafa verið farnar um skamma hríð frá Flatey til hinna svonefndu Inneyja Flateyjarhrepps, en það voru Svefneyjar, Hvallátur, Skáleyjar og Sviðnur.

Um það leyti sem loftskeytastöðin í Flatey var lögð niður árið 1931, var í staðinn sett upp talstöð þar. Það er mér í barnsminni að eyjamenn töluðu um að Inneyingar hefði fengið að velja milli áframhaldandi póstferða frá Flatey um Inneyjar eða fá talstöðvar í staðinn.

Þeir völdu hið síðarnefnda.

Hergilsey og Bjarneyjar voru hins vegar viðkomustaðir flóabátsins Baldurs, ásamt Flatey og fengu ekki talstöðvar fyrr en löngu síðar.

Þrátt fyrir þá miklu framför og öryggi sem fylgdi talstöðvarsambandinu, skorti oft mikið á að sambandið við umheiminn yrði jafn gott og ætla mætti með tilliti til hinna nýju fjarskiptamöguleika. Var það aðallega vegna ófullkominnar tækni við rafmagnsframleiðslu til að hlaða rafgeyma tækjanna. Iðuglega bar svo við að rafmagnið þraut og tækin þar með óvirk. Vindrafstöð í einkaeign William Hansen í Flatey var, að ég hygg, aðal tækið til að hlaða rafgeyma eyjamanna. Tómir rafgeymar voru skildir eftir í Flatey þegar ferðir féllu, en aðrir fullhlaðnir teknir til baka. Ég man snemma eftir viðleitni föður míns til að hlaða rafgeyma með lítilli heimagerðri vindmyllu, en oft gekk það brösótt, vegna ófullkominna stjórnunarmöguleika við breytilegan snúningshraða.

Að þessu sinni þrutu rafgeymar talstöðvarinnar í Sviðnum við tilraunir ömmu minnar við að fá fréttir af skipverjum mb. Lukku.

Nærri  má geta að ekki hefur þeim sem heima biðu verið rótt í sinni við þessar aðstæður.

Klásína í Sviðnum var þó ekki þeirrar gerðar að sitja lengi með hendur í skauti.

Ekki var viðlit, sökum hvassviðris, að reyna hleðslu rafgeymanna með hinni ófullkomnu vindmyllu sem stundum var notuð þegar best lét.

Í sameiningu tókst heimilisfólkinu að tjasla upp einskonar neyðarrafstöð, sem sett var upp á hefilbekkinn í skemmunni í Sviðnum.

Hjól og öxull voru tekin undan hestvagni. Annað vagnhjólið tekið af öxlinum og öxullinn síðan rammlega festur ofan á hefilbekkinn, í láréttri stöðu. Vagnhjólið sem eftir var á öxlinum gat með þessu móti gagnast sem reimhjól fyrir hinn litla rafal sem tryggilega var festur við skemmugólfið. Við vagnhjólsnafið var festur smá bolti sem þjónaði sem hjámiðjuöxull fyrir “hlaupastelpu” er tengdist stigfjöl við gólfið. Reimar úr færagarni voru strengdar milli vagnhjólsins og hjóls rafalsins. Vegna hins mikla stærðarmunar þessara hjóla, fékkst yfrið nægur snúningshraði til að framleiða rafmagn með rafaflnum, til hleðslu rafgeymanna.

Hugmyndin, sem faðir minn hafði áður útfært, var að sjálfsögðu tekin frá spunarokk þeirra tíma, sem þá var ómissandi tæki á nærfellt öllum íslenskum sveitabæjum.

Nóttin leið svo, að heimilisfólkið í Sviðnum skiptist á að stíga vagnhjólið við þessa sérstæðu raforkuframleiðslu og þegar kom að tilskildum hlustunartíma talstöðva eyjamanna, kl. 10.00 árdegis næsta dag, voru hlaðnir rafgeymar til reiðu við stöðina.

Þrátt fyrir hvassviðri og slæmt sjólag, gekk sigling þeirra félaga á Lukku án nokkurra meiri háttar áfalla.

Heldur dróg úr kafaldinu þegar líða tók á daginn, en ekki höfðu þeir haft neina landkenningu þegar skyggja tók.

Skyndilega versnaði sjólagið enn að miklum mun. Gaf það ótvírætt til kynna að þeir höfðu siglt inn í straumröst. Jenni taldi það merki þess að báturinn nálgaðist land, en vegna þess hve erfitt var að áætla hraða og stefnu í þessari för, gat allt eins verið um blindsker að ræða, austan, eða jafnvel vestan við Höskuldsey.

Summi tók sér stöðu frammi í stafni til að reyna að greina brimbrot í tæka tíð.

Geta má nærri hve föður mínum létti þegar hann greindi, svo ekki var um að villast, ljósmerki Höskuldseyjarvitans svo að segja beint framundan.

Mátti það tæpast seinna vera, þar eð straumröst þessi var fram af svonefndu Brimnesi á NA verðri Höskuldsey. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef þeir hefðu siglt á nesið.

Siglingaleiðin til lendingar við eyjuna var rétt vestan við Brimnesið og reið nú á að greina innsiglingamerkin til lendingarinnar.

Þegar grilla tók í eyjuna, þarna í sortanum, minntist hann þess að lendingin var svo að segja rétt niður undan íbúðarhúsinu, sem reis eins og svört þúst upp af miðbiki eyjarinnar.

Lét hann nú slag standa, í von um að greina innsiglingarmerkin í tæka tíð, áður en bátinn bæri upp í hvítan brimgarðinn, sem honum virtist án nokkurs hliðs að sjá, þarna  í náttmyrkrinu.

Svo að segja samtímis og vogurinn opnaðist framundan greindi hann siglingamerkin, a.m.k. svo að honum tókst að stýra bátnum upp í lendinguna, án þess að verða fyrir brotsjó.

Ekki var rafmagn um borð í Lukku og ekki vildu þeir félagar kveikja á olíuluktinni, þeim eina ljósgjafa sem þeir höfðu um borð. Þeim veitti sannarlega ekki af því litla skyggni sem fyrir hendi var við þessa landtöku.

Þrátt fyrir að ljóslausan bátinn bæri þarna aldeilis óvænt að landi og engra mannaferða væri von, síst við þær aðstæður sem hér hefur verið lýst, urðu heimamenn í Höskuldsey varir við hann í þeim svifum sem hann sigldi upp í voginn.

Þustu þeir til hjálpar um leið og gátu komið streng, frá handspili eyjarinnar, í stefni Lukku niður við kjölinn. Allir bátar eyjamanna höfðu gegnumborað stefni til að hægt væri að festa þar spilstreng þegar draga þurfti bátana upp úr sjó.

Högni vitavörður í Höskuldsey var vel menntur um þessar mundir. Hann var barnmargur maður og nokkrir mannvænlegir synir hans enn heima í föðurhúsum.

Langan tíma tók þó að bjarga Lukku undan sjó. Ókyrrt var í vörinni, en vegna þunga bátsins, varð honum aðeins þokað hærra þegar öldurnar riðu undir.

Það var því ekki fyrr en eftir háflóð um kvöldið sem þreyttir sjófarendur og

björgunarmenn þeirra, gátu gengið til bæjar og þegið veitingar, sem húsráðendur báru fram af mikilli rausn.

Eftir endurnærandi nætursvefn í Höskuldsey tóku skipverjar Lukku að skera lóðardræsuna úr skrúfunni.

Þegar leið að háflóði tók aftur við baráttan að halda bátnum óskemmdum í vörinni.

Veðurlagið hafði nú breyst þannig að þarna út á firðinum var orðið kafaldslaust, en ennþá kembdi á með éljum milli nesjanna við norðanverðan flóann.

Þetta var m.ö.o. venjulegur norðan garður, 7-9 og vindsig, all mikið frost og ófært fyrir opna báta.

Þeir félagar urðu því að láta fjara undan bátnum á nýjan leik og bíða þess að veður gengi niður.

Kl. 10 árdegis tókst að ná sambandi, um talstöðina, við Stykkishólm, til að láta vita að þeir Sviðnamenn væru heilir á húfi.

Ekki voru talstöðvarnar svo langdrægar að hægt væri að ná beinu sambandi við Sviðnur, en með hjálp talstöðvanna í Stykkishólmi og Flatey, fékk heimilisfólkið í Sviðnum skilaboðin og þar með ávexti erfiðis síns við rafmagnsframleiðslu afliðinnar nætur.

Næstu dagar liðu með svipuðu veðurfari.

Vegna þess að nú fór smástraumur í hönd, tók við ný barátta þeirra félaga og heimamanna í Höskuldsey, við að setja Lukku til sjávar.

Ég minnist þess að faðir minn talaði um, að árangurinn af daglöngu striti þeirra hafi yfirleitt orðið sá, að við háflóð dag hvern, hafi skrúfa bátsins aðeins komist niður í sjávarmálið, áður aftur tók að falla út.

 

Að viku liðinni var loks auðsætt að veðrabrigði voru í vændum. Vindur gekk niður og ládautt varð við Höskuldsey. Á smástraumsflóði um miðja nótt tókst með sameinuðu átaki að hrinda bátnum á flot. Siglingin inn á Bjarneyjamið tók við og í birtingu fundu þeir félagar lóðir sínar sem þeir höfðu af skyndingu yfirgefið fyrir svo löngu síðan. Drátturinn gekk vel, en af aflabrögum fara engar stærri sögur. Líklega hefur tímakaupið verið rýrt í þessum óvenjulega róðri.

Í Sviðnum varð ömmu minni aftur tíðförult með kíkinn upp í Vörðu, þegar birta tók. Veðrabrigðin gáfu gömlu konunni til kynna að nú væri sjóferðamannanna von heim. Um miðdegisbil, færði hún þær fréttir í bæinn, að bátur sæist suður af Fæti, í stefnu frá Bjarneyjum og virtist honum sækjast siglingin eðlilega. Má nærri geta um gleði og eftirvæntingu heimilisfólksins.

Spennumyndir sjónvarps nútímans jafnast lítt á við þá dramatísku viðburði, er oft á tíðum urðu óaðskiljanlegur hluti þess veruleika sem þá var daglegt líf fólksins.

Viðburðaríkum fiskiróðri á góunni lauk á lukkulegan hátt. Aðrar ferðir, aðrar annir svo og stundir milli stríða, tóku við.

Á fullorðinsárum hef ég ekki getað varist þeirri hugsun, að lífið í eyjunum og þar með það uppeldi sem unglingurinn hlaut, hafi verið ferð án enda, með mismunandi löngum viðkomum.

Eða eins og gamlir Breiðfirðingar hefðu getað orðað það. Mönnum leggst mismunandi lengi, en  ferðinni er haldið áfram þegar hann gengur niður.

 

Þessi kafli úr sögu Lukku er skrifaður á góunni árið 2000 og tileinkaður vini mínum Jóni Frey.

Nikulás Jensson