
VELKOMIN
Framfarafélag Flateyjar
Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.
Fréttir
Húsin í Flatey
Sólheimar
Eigandi:
Gerður Gestsdóttir
Um húsið:
Byggt 1935 af Gesti O. Gestssyni en hann var skólastjóri 1933-1960 með hléum. Húsasmiðameistari og yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Gestur O. er afi Oddnýjar, Gest Karls og Ragnars í Sólheimum.
Byggt 1935 af Gesti Oddfinni Gestssyni kennara, skólastjóra og smið á háhólnum austan við Skansmýri, á svonefndum Myllumó en á þeim stað stóð áður vindmylla Guðmundar Schevings kaupmanns. Gestur fluttist til Flateyjar 1933 er hann tók við skólastjórastöðu í Flatey sem hann gengdi með hléum til 1959. Hann var húsasmíðameistari og var m.a. yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Kona Gests var Oddný Ingiríður Sölvadóttir fædd á Gafli í Svínavatnshreppi.
Samkomuhúsið (Nýjapakkahús, Loftskeytastöðin)
Eigandi:
Minjavernd
Um húsið:
Samkomuhúsið (til hægri á mynd) sem upphaflega var nefnt Nýjapakkhús var byggt um eða laust fyrir 1890. Það var reist á steinhlöðnum sökkli og var upphaflega tvílyft. Það var byggt sem pakkhús og nýtt fyrir verslunarrekstur í Flatey fram til 1918 þegar Landsíminn hóf þar rekstur loftskeytastöðvar. Ungmennafélag Flateyjar eignaðist húsið 1931 og var þá milligólfið tekið úr húsinu og gerðar á því fleiri breytingar. Það var þá jafnframt nýtt fyrir leikfimikennslu barnaskólans í Flatey. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið. Minjavernd tók húsið yfir til endurbyggingar 1987 og eignar 2007. Endurbygging hússins var lokið 2006 og þá hóf Hótel Flatey rekstur í því. Þar er nú matsalur hótelsins en salurinn er jafnframt nýttur fyrir fjölbreytta menningarstarfsemi, tónlist, upplestur og dansleiki sem Hótel Flatey stendur fyrir.
Stóra pakkhúsið – Hótel Flatey
Eigandi:
Minjavernd
Um húsið:
Bygging til vinstri - Björn Sigurðsson (1856-1930) kaupmaður lét hlaða kjallaraveggi hússins 1904. Guðmundur Bergsteinsson (1878-1941) kaupmaður lét reisa húsið á steinhlöðnum kjallaranum1918. Máttarviðir þess eru að töluverðum hluta úr Gamlhúsinu sem reist var 1777. Húsið var alla tíð nýtt fyrir verslun í Flatey meðan verslun var rekin þar. Minjavernd hf tók það yfir til endurbyggingar 1987 og til eignar 2007. Endurbygging þess var lokið 2007 og það ár hóf Hótel Flatey í því sinn rekstur. Eru í því 8 gistiherbergi og eldhús ásamt bar og aðstöðu í steinhlöðnum kjallaranum.
Ásgarður
Eigandi:
Afkomendur Guðmundar Bergsteinssonar og Jónínu Eyjólfsdóttur
Um húsið:
Byggt 1907 fyrir Guðmund Bergsteinsson kaupmann sem íbúðar- og verslunarhús. Guðmundur tók við verslun tengdaföður síns Eyjólfs Einars Jóhannssonar 1900, keypti Gamlhús, þá 130 ára gamals hús og reif niður en byggði Ásgarð á grunni þess. Rak umfangsmikla verslun og útgerð í Flatey í fjölmörg ár. Ásgarður var bæði íbúðar- og verslunarhús og Guðmundur og kona hans, Jónína Eyjólfsdóttir, versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960. Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins. Meðal afkomenda þeirra eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.
Vertshús-austur
Eigandi:
Sigríður, Örn, Atli og Hrönn Sturlubörn, Herdís Jónsdóttir
Pakkhúsið (Tilheyrir Hermannshúsi)
Eigandi:
Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir
Um húsið:
Byggt skömmu eftir 1909 en breytt úr útihúsi frá Félagshúsi á seinni hluta tuttugustu aldar í íbúð að hluta. Pakkhúsið var byggt upp úr viðum gamla pakkhússins sem þýskir kaupmenn er sagðir hafa bygg á sama stað. Það hús var síðan rifið og hluti viða þess húss fór í Vinaminni sem hluti heimamundar Henríettu Hermannsdóttir, skáldkonu.
Straumur – Rarik
Eigandi:
Starfsmannafélag RARIK
Um húsið:
Byggt 1983. Húsið er í eigu Starfsmannafélags Rafmagnsveitna ríkisins og leigt út til starfsmanna félagsins. Hús þetta þótti í upphafi vera stílbrot við markaða stefnu um útlit húsa í Flatey. 2011-2012 var húsið endurbyggt, allar innréttingar endurnýjaðar, húsið járnklætt og það fært í það horf sem fellur vel inn í húsamyndina í Flatey.
Vinaminni
Eigandi:
Óskar Eyþórsson og Dagbjört Höskuldsdóttir
Um húsið:
Byggt 1908-1909 af Guðmundi Guðmundssyni kaupmanni en kona hans var Jensína Henríetta skáldkona dóttir Hermanns S. Jónssonar skipstjóra og verslunarmanns í Hermannshúsi. Árið 1913 flytjast þau úr Flatey í Otradal í Arnarfirði og þá kaupa húsið Sigurður Sigurðsson ”norski” en hann ólst upp í Norskubúð og kona hans Kristbjörg Sigurðardóttir og Guðjón Ingimundarson sjómaður og beykir frá Bjarneyjum og kona hans Geirríður Sigurðardóttir. Um langt skeið voru tvær íbúðir í sitt hvorri burstinni. 1967 keyptu Anna Kristín Björnsdóttir og Sveinbjörn Pétursson sjómaður fæddur í Svefneyjum og bjuggu til 1983. Þá keyptu Pétur og Eyþór Ágústssynir húsið.
Vesturbúðir
Eigandi:
Félagið Hergils ehf.
Um húsið:
Vesturbúðir er ævafornt býli í Flatey. Nefna má að Eggert Ólafsson (hinn betri) fæddur um 1730 ólst upp í Vesturbúðum. Vesturbúðir voru upprunalega fiskverkunarhús og þá var staðurinn stundum nefndur “Paradís” enda vinnustaðstaðan til fiskverkunar innanhúss og á þeim árum þótt eins og að vera kominn í Paradís. Breytt úr fiskverkunarhúsi í íbúðarhús 1938 af Óskari Nielssyni þegar hann flutti úr Svefneyjum. Óskar var frá Bjarneyjum en bjó síðar í Bíldsey en varð bóndi og hreppstjóri í Svefneyjum.
Þegar Þórður Valgeir Benjamínsson flytur í Flatey úr Hergilsey 12. ágúst 1946 kaupir hann húsið og nefnir það Hergilsey en hann byggði við húsið og breikkaði til norðurs 1946. Þórður var síðasti bóndinn í Hergilsey en kona hans var Þorbjörg Sigurðardóttir. Þórður og Þorbjörg bjuggu í Vesturbúðum fram til 1966 er þau flytja í Stykkishólm yfir vetur en dvöldu sumarlangt í Flatey til að sinna hlunnindum Hergilseyjarlanda fram undir 1980. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna og eignuðust þau 16 börn áður en þau fluttu úr Hergilsey og náðu 14 þeirra fullorðinsaldri. Börn þeirra eru Valborg Elísabet, Sigurður, Dagbjört Guðríður, Björg Jóhanna, Auður, Benjamín, Guðmundur Sigurður, Ari Guðmundur, Sigríður Hrefna, Jóhannes, Guðbrandur, Ásta Sigrún, Ingunn, Gunnar, Gunnar Þórbergur og Sigurbjörg.
Ráðagerði
Eigandi:
Félag starfsmanna stjórnarráðsins
Um húsið:
Byggt 1976-1980 sem félags- og sumarbústaður fyrir starfsmenn stjórnarráðsins.