Showing 37–45 of 45 results

Show sidebar
Loka

Strýta (Jaðar)

Eigandi: Guðrún Halldórsdóttir og Valdimar Valdimarsson Um húsið: Byggt 1915 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Svo virðist sem samvinna þeirra bræðra, hans og Sigurbrandar í Vinaminni, hafi alið af sér tvö hús. Strýta var smíðuð hjá Vinaminni án grunns og var dregin á breðanum 1918 suður yfir ey. Magnús var tengdasonur í Hólsbúð og fékk þar í túni lóð. Steypti þar grunn og eina hæð undir húsið. Af hæð sinni fékk húsið sitt kenningarnafn, en hét áður Jaðar. Ágúst Pétursson skipstjóri fæddur í Bjarneyjum og kona hans Ingveldur Stefánsdóttir hófu búskap sinn þar um eða upp úr 1937. Börn þeirra eru Stefán, Eyþór, Pétur fæddur 1946, Snorri Örn, Valdimar og Guðlaug Jónína. Flateyjarhreppur eignaðist húsið við eignarnám. Valdimar Valdimarsson kennari og kona hans Guðrún Halldórsdóttir kaupa síðan húsið 1975 og flytja það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli. Lækkuðu húsið og stækkuðu og 2014 voru gerðar verulegar endurbætur á húsinu, húsið einangrað, skipt um glugga og lagt nýju bárujárni. Jafnframt var byggt smáhýsi austan við húsið sem geymsla og fyrir kyndingu.
Loka

Sunnuhvoll

Eigandi: Baldur Þorleifsson og Gyða Steinsdóttir Um húsið: Byggt 2005 af Baldri Þorleifssyni trésmíðameistara og konu hans Gyðu Steinsdóttir. Á Brekku, sunnan við húsaþyrpinguna við Holustíg, stóð torfbærinn Brekkubær. Jón Jónsson snikkari byggði þar timburhús árið 1928 og nefndi Sunnuhvol. Það hús var rifið upp úr 1970.
Loka

Vegamót

Eigandi: Álfheiður Ingadóttir og Sigurmar Albertsson Um húsið: Byggt 1922 af Bjarna Jónssyni bónda og verkamanni en hann var jafnan nefndur “Bjarni gaddur”. Bjarni var frá Hálshúsum í Reykjarfjarðarhreppi en ólst upp á Selskerjum í Múlasveit en fór þaðan á Deildará í sömu sveit áður en hann kemur í Flatey 1901. Bjó í Brekkubæ og síðar í Vegamótum. Síðustu íbúar Vegamóta í fastri búsetu voru Sveinn Jónsson og Margrét Gestsdóttir. Fluttu þangað úr Skáleyjum. Seinna áttu þar heima skamman tíma Þorsteinn Valgeirsson og Anna Jóna Kristjánsdóttir og börn þeirra.
Loka

Vertshús (Veitingahús, Hótel Flatey)

Eigandi: Karl Gunnarsson og Ása Helga Ragnarsdóttir Um húsið: Byggt árið 1886 og var hönnuður Magnús vert Magnússon veitingamanni og snikkara. Hann flutti út í Flatey 1876 og tveimur árum síðar kvæntist hann Þorbjörgu Ólafsdóttur. Magnús stundaði smíðar í Flatey og víðar og byggði m.a. Hagakirkju á Barðaströnd . Hjá honum lærðu margir smíðar og var einn þeirra Bogi Guðmundsson smiður og kaupmaður. Magnús rak veitingasölu með konu sinni til 1933 auk þess að stunda búskap og sjósókn, einkum hákarlaveiðar. Eftir að Magnús lést keypti Bogi Guðmundsson í Bogabúð húsið og rak veitingasöluna í nokkur ár með konu sinni. Seldi hann síðar Guðmundi Zakaríassyni húsið og var rekin veitingasala í húsinu um árabil. Bogi hélt eftir viðbyggingu við austurgafl hússins og byggði ofan á hana eina hæð. (Sjá Vertshús austur-endi). Ólafur Jónsson kaupir 1966 húsið af Guðmundi.
Loka

Vertshús-austur

Eigandi: Sigríður, Örn, Atli og Hrönn Sturlubörn, Herdís Jónsdóttir
Loka

Vesturbúðir

Eigandi: Félagið Hergils ehf. Um húsið: Vesturbúðir er ævafornt býli í Flatey. Nefna má að Eggert Ólafsson (hinn betri) fæddur um 1730 ólst upp í Vesturbúðum. Vesturbúðir voru upprunalega fiskverkunarhús og þá var staðurinn stundum nefndur “Paradís” enda vinnustaðstaðan til fiskverkunar innanhúss og á þeim árum þótt eins og að vera kominn í Paradís. Breytt úr fiskverkunarhúsi í íbúðarhús 1938 af Óskari Nielssyni þegar hann flutti úr Svefneyjum. Óskar var frá Bjarneyjum en bjó síðar í Bíldsey en varð bóndi og hreppstjóri í Svefneyjum. Þegar Þórður Valgeir Benjamínsson flytur í Flatey úr Hergilsey 12. ágúst 1946 kaupir hann húsið og nefnir það Hergilsey en hann byggði við húsið og breikkaði til norðurs 1946. Þórður var síðasti bóndinn í Hergilsey en kona hans var Þorbjörg Sigurðardóttir. Þórður og Þorbjörg bjuggu í Vesturbúðum fram til 1966 er þau flytja í Stykkishólm yfir vetur en dvöldu sumarlangt í Flatey til að sinna hlunnindum Hergilseyjarlanda fram undir 1980. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna og eignuðust þau 16 börn áður en þau fluttu úr Hergilsey og náðu 14 þeirra fullorðinsaldri. Börn þeirra eru Valborg Elísabet, Sigurður, Dagbjört Guðríður, Björg Jóhanna, Auður, Benjamín, Guðmundur Sigurður, Ari Guðmundur, Sigríður Hrefna, Jóhannes, Guðbrandur, Ásta Sigrún, Ingunn, Gunnar, Gunnar Þórbergur og Sigurbjörg.
Loka

Vinaminni

Eigandi: Óskar Eyþórsson og Dagbjört Höskuldsdóttir Um húsið: Byggt 1908-1909 af Guðmundi Guðmundssyni kaupmanni en kona hans var Jensína Henríetta skáldkona dóttir Hermanns S. Jónssonar skipstjóra og verslunarmanns í Hermannshúsi. Árið 1913 flytjast þau úr Flatey í Otradal í Arnarfirði og þá kaupa húsið Sigurður Sigurðsson ”norski” en hann ólst upp í Norskubúð og kona hans Kristbjörg Sigurðardóttir og Guðjón Ingimundarson sjómaður og beykir frá Bjarneyjum og kona hans Geirríður Sigurðardóttir. Um langt skeið voru tvær íbúðir í sitt hvorri burstinni. 1967 keyptu Anna Kristín Björnsdóttir og Sveinbjörn Pétursson sjómaður fæddur í Svefneyjum og bjuggu til 1983. Þá keyptu Pétur og Eyþór Ágústssynir húsið.
Loka

Vogur (Nýjahús, Jónshús, Jakobshús, Prestshús)

Eigandi: Aðalheiður Sigurðardóttir og Guðmundur Lárusson Um húsið: Byggt 1885 af Jóni Guðmundssyni kaupmanni.Byggingarár: 1885. Hönnuður er ókunnur en trúlega er húisð innflutt frá Noregi. Jón var fæddur á Mýrum í Dýrafirði en kom til Flateyjar 1870 sem verslunarfélagi Bents kaupmanns Jónssonar. Húsið við Grýluvog hét í fyrstu Nýjahús síðan Jónshús, Vogshús og nú síðast Vogur en það var bústaður margra presta í Flatey s.s. sr. Sigurðar Haukdals, faðir Eggerts alþingismanns á Bergþórshvoli, fæddur í Flatey árið 1933. Í fjöldamörg ár var rekið gisti- og veitingahús í Vogi á sumrin. Húsið hefur mjög komið við sögu kvikmynda í Flatey t.d “Ungfrúin góða og Húsið” sem Guðrún Halldórsdóttir Laxness leikstýrði og “Brúðguminn” sem Baltasar Kormákur leikstýrði.
Loka

Vorsalir (Sölubúðin, Kaupfélagið)

Eigandi: Ingunn Jakobsdóttir Um húsið: Byggt 1885 og hönnuður ókunnur en ýmislegt bendir til að það hafi verið flutt tilsniðið til landsins. Húsið var byggt sem verslunar- og vörugeymsluhús og í því rak Björn Sigurðsson verslun ásamt dönskum kaupsýslumönnum sem stofnuðu með honum árið 1898 stórt útgerðar- og verslunarfyrirtæki, Islandsk Handel og Fiskeri Co. (IHF). Síðar tók Guðmundur Bergsteinsson í Ásgarði við húsinu og rak þar verslun uns Kaupfélag Flateyjar eignaðist húsið eftir að Guðmundur varð að draga úr umsvifum sínum 1922. Upphaflega var húsið kallað Sölubúðin en Kaupfélagið á meðan Kaupfélag Flateyjar rak verslun í húsinu um áratuga skeið fram til um 1958. Guðmundur Páll Ólafsson heitinn, náttúrufræðingur, rithöfundur og ljósmyndari eignaðist Vorsali 1973. Næsta áratug eða svo var unnið að viðgerð hússins og því breytt í íbúðarhús. Verslunarinnrétting á jarðhæð í vesturenda hússins hefur þó verið varðveitt að mestu og húsið heldur upprunalegu útliti.