VELKOMIN
Framfarafélag Flateyjar
Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.
Fréttir
Húsin í Flatey
Sólheimar
Eigandi:
Gerður Gestsdóttir
Um húsið:
Byggt 1935 af Gesti O. Gestssyni en hann var skólastjóri 1933-1960 með hléum. Húsasmiðameistari og yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Gestur O. er afi Oddnýjar, Gest Karls og Ragnars í Sólheimum.
Byggt 1935 af Gesti Oddfinni Gestssyni kennara, skólastjóra og smið á háhólnum austan við Skansmýri, á svonefndum Myllumó en á þeim stað stóð áður vindmylla Guðmundar Schevings kaupmanns. Gestur fluttist til Flateyjar 1933 er hann tók við skólastjórastöðu í Flatey sem hann gengdi með hléum til 1959. Hann var húsasmíðameistari og var m.a. yfirsmiður við Andakílsárvirkjun og skólahúss við Ljósafoss. Kona Gests var Oddný Ingiríður Sölvadóttir fædd á Gafli í Svínavatnshreppi.
Skansinn
Eigandi:
GPÓ ehf. / Ingunn Jakobsdóttir
Um húsið:
Hús þetta var byggt í þremur áföngum; miðhluti hússins, sláturhús er byggt 1924-1925, suðurendi er hjallur endurbyggður 2002 og norðurendi er bátaskýli og vinnustofa endurbyggður árið 2002. Þak á sláturhúsi var lagt torfi árið 1987. Kaupfélag Flateyjar lét um 1950 byggja bifreiðageymslu fyrir tvo vörubíla við norðurenda sláturhússins en hún var rifin 2002.
Bræðraminni
Eigandi:
Félagið Bræðraminni í Flatey
Um húsið:
Byggt 1915 af sonum Kristjáns S. Jónssyni skipstjóra þeim Hermanni og Þorvarði. Kristján var skipstjóri í Flatey, bjó lengi í Snikkaraskemmu en keypti síðar austurenda Félagshúss með Hermanni bróður sínum.
Bræðraminni var byggt á árunum 1915-1916 á lóð Snikkaraskemmu sem Björg Jörgensdóttir Moul (1864-1933) keypti af Guðjóni Ingimundarsyni, samkvæmt kaupsamningi dagsettum 4. nóvember 1912 og samkvæmt afsali 15. maí 1913 er hún réttur eigandi áðurnefndar Snikkaraskemmu ásamt lóð og öllu tilheyrandi, svo sem nefnt er í kaupsamningi. Tildrög þess að Björg kaupir Snikkaraskemmu eru eftirfarandi; Árið 1893 keyptu bræðurnir Hermann S. Jónsson og Kristján S. Jónsson (1864-1906) skipstjóri, Félagshús í Flatey. Hermann bjó í vestur endanum en Kristján í austur endanum í svonefndu Gunnlaugshúsi ásamt konu sinni, áður nefndri Björgu Jörgensdóttir en afi hennar, Jóhann Ludvig Moul hafði umsjón með því að reisa húsið. Eftir að Björg er orðin ekkja 1906 selur hún Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra húsið og ræðst í að kaupa „Snikkaraskemmuna“ og byggja Bræðraminni með sonum sínum Hermanni (1893-1921) og Þorvarði (1895-1954) með dyggri aðstoð mágs síns Hermann S. Jónssonar.
Bræðraminni er byggt úr steinsteypu, steypt í áföngum með einni borðhæð í senn og raðað í grjót. Það er síðan múrhúðað á viðeigandi hátt. Bræðraminni er tveggja hæða hús með lágt risþak þar sem milligólf er úr timbri ásamt því að hluta af gólfi neðri hæðar er úr timbri. Húsið er T-laga að grunnformi. Árið 1988 voru settir í húsið nýir gluggar. Árið 1995 var húsið einangrað að utan með steinullarmottum og múrhúðað með „ímúr“. Í framhaldi er járn á þaki, rennur og þakskegg endurnýjað.
Bjuggu þeir bræður með móður sinni í Bræðraminni, Hermann til dánardags 1921 og Björg til 1933. Eftir að Björg lést bjó Þorvarður í Bræðraminni með fjölskyldu sinni þar til hann lést 1954. Sigríður Kjartansdóttir kona hans bjó áfram í húsinu ásamt börnum þeirra en Sigríður flytur úr Flatey árið 1957 og stóð húsið að mestu leyti autt þar til fljótlega eftir 1960 þegar börn þeirra byrjuðu að lagfæra húsið. Í dag er húsið að mörgu leyti uppgert og eiga börn og afkomendur Þorvarðar Kristjánssonar og k. h. Sigríðar Kjartansdóttur húsið.
Skólahúsið
Eigandi:
A-hluti, Þorsteinn Baldvinsson / V-hluti Heimir Sigurðsson, Gróa Þóra Pétursdóttir.
Um húsið:
Skólahús var byggt í Flatey 1909 eftir teikningum Rögnvalds Ólassonar arkitekts og var það Jón Jónsson snikkari sem sá um verkið. Samkvæmt teikningum Rögnvalds átti að hlaða húsið úr steyptum steini en í þess stað var það steypt án mikilla járnbindinga - að öðru leiti var teikningum Rögnvalds fylgt eftir. Í skólanum voru tvær kennslustofur og var kennt í skólanum fram yfir 1950. Byggðir voru nokkrir skólar út um land eftir sömu teikningu. Skólinn var rifinn af grunni 1992.
Nýtt hús var byggt 2006-2007 og var reynt að fylgja yfirbragði gamla skólans eins og hægt var m.a. eru gluggar á suðurhlið og hurð á gafli eftir teikningum Rögnvalds. Í húsinu eru nú tvær íbúðir.
Eyjólfshús (Oddahús, Tangahús, Pálshús)
Eigandi:
Steinn Ágúst, Hanna María og Katrín Baldvinsbörn ásamt Kristínu Ágústsdóttir.
Um húsið:
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Jóhannssyni kaupmanni sem íbúðar- og verslunarhús. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og oft kallaður “tröllið með barns-andlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði. Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja, áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga.
Byggt 1882 af Bárar-Ólafi Guðmundssyni og tengdasyni hans Eyjólfi Einar Jóhannssyni kaupmanni. Ólafur var löngum kenndur við bæinn Bár í Helgafellssveit en í Flatey bjó hann fyrst í Fjósakoti en síðar í Innstabæ en síðast í Eyjólfshúsi. Hann var annálaður hákarlasjómaður og var oft kallaður ”tröllið með barnsandlitið”. Bátur hans Gustur var þekkt aflafley. Tengdasonur Ólafs, Eyjólfur var kaupmaður og bóndi í Flatey en fæddur í Svefneyjum en hann var faðir Jónínu Eyjólfsdóttir sem var kona Guðmundar Bergsteinssonar í Ásgarði.
Eyjólfshús hefur gengið undir ýmsum nöfnum í gegnum tíðina s.s. Oddahús, Tangahús og Pálshús. Í fyrstu búa í Eyjólfshúsi fjölskyldur Bárar-Ólafs og dóttir hans Sigurborg ásamt tengdasyni hans Eyjólfur Einar Jóhannsson. 1903 Eignast Verslunarfélagið húsið og bjó Páll Andrés Sigurður Nikulásson (1864-1932) verslunarmaður og kona hans Björg Pétursdóttir (1875-1962) ljósmóðir í húsinu er þá nefnist Pálshús. 1914 kaupir Steinn Ágúst Jónsson (1879-1969) húsið ásamt konu sinni Katrínu Þórðardóttir (1886-1966) og bjuggju þau í Eyjólfshúsi í meira en fimmtíu ár. Steinn Ágúst var alla tíð mjög áberandi í félags-, atvinnu-, trúar- og menningarlífi Flateyjar. Verslunarmaður í byrjun komu sinnar til Flateyjar (1909) hjá Guðna kaupmanni Guðmundssyni og síðar hjá Guðmundi Bergsteinssyni kaupmanni. Stofnaði fyrstu barnastúku í Flatey, formaður ungmennasambands Norður-Breiðfirðinga, kosinn í sóknarnefnd Flateyjar 1912 og hafði forgöngu um byggingu hinnar nýju Flateyjarkirkju 1926 og meðhjálpari kirkjunnar um tugi ára, gjaldkeri Sparisjóðs Flateyjar frá 1925 og hreppsnefndaroddviti frá 1945. Í Eyjólfshúsi bjuggi í gegnum tíðina fjölmargir s.s. Bjarni Ingibjartur Bjarnason (1882-1944) sjómaður og kona hans Guðrún Júlíanna Guðmundsdóttir (1873-1956), Halldór Friðriksson (1871-1946) skipstjóri og kona hans Anna Ragnheiður Erlendsdóttir (1878-1954), Halldór Kolbeins Eyjólfsson (1893-1964) prestur og kona hans Lára Ágústa Ólafsdóttir (1898-1973) og síðar Vigfús Sigurbjörn Stefánsson (1890-1970) bóndi og kona hans Ingibjörg Einarsdóttir (1889-1963). Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfsbryggja sem var áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga en bryggjan var stækkuð og steypt upp um 1934.
Vesturbúðir
Eigandi:
Félagið Hergils ehf.
Um húsið:
Vesturbúðir er ævafornt býli í Flatey. Nefna má að Eggert Ólafsson (hinn betri) fæddur um 1730 ólst upp í Vesturbúðum. Vesturbúðir voru upprunalega fiskverkunarhús og þá var staðurinn stundum nefndur “Paradís” enda vinnustaðstaðan til fiskverkunar innanhúss og á þeim árum þótt eins og að vera kominn í Paradís. Breytt úr fiskverkunarhúsi í íbúðarhús 1938 af Óskari Nielssyni þegar hann flutti úr Svefneyjum. Óskar var frá Bjarneyjum en bjó síðar í Bíldsey en varð bóndi og hreppstjóri í Svefneyjum.
Þegar Þórður Valgeir Benjamínsson flytur í Flatey úr Hergilsey 12. ágúst 1946 kaupir hann húsið og nefnir það Hergilsey en hann byggði við húsið og breikkaði til norðurs 1946. Þórður var síðasti bóndinn í Hergilsey en kona hans var Þorbjörg Sigurðardóttir. Þórður og Þorbjörg bjuggu í Vesturbúðum fram til 1966 er þau flytja í Stykkishólm yfir vetur en dvöldu sumarlangt í Flatey til að sinna hlunnindum Hergilseyjarlanda fram undir 1980. Þau hjónin áttu miklu barnaláni að fagna og eignuðust þau 16 börn áður en þau fluttu úr Hergilsey og náðu 14 þeirra fullorðinsaldri. Börn þeirra eru Valborg Elísabet, Sigurður, Dagbjört Guðríður, Björg Jóhanna, Auður, Benjamín, Guðmundur Sigurður, Ari Guðmundur, Sigríður Hrefna, Jóhannes, Guðbrandur, Ásta Sigrún, Ingunn, Gunnar, Gunnar Þórbergur og Sigurbjörg.
Byggðarendi
Eigandi:
Guðrún M Ársælsdóttir og Baldur Ragnarsson
Um húsið:
Byggt 1950 af Jóhanni Kristjánssyni fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð skipstjóri á flóabátnum Konráði BA. Kona hans var Kristín Ágústsdóttir úr Gufudalssveit. Þau bjuggu í Byggðarenda frá 1952-1962 er þau flytja á Akranes. Um nokkurn tíma var barnaskóli í húsinu. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið og nokkra vetur var rekinn í því barnaskóli. Helstu íbúar þess síðan voru Gunnar Jónsson og Aðalheiður Sigurðardóttir, Einir Guðmundsson og Marsibil Guðmundsdóttir, Jóhannes Geir Gíslason og Svanhildur Jónsdóttir, Árni Sigmundsson og Þórdís Una Gunnarsdóttir og Magnús Magnússon og Hrönn Hafsteinsdóttir.
Flateyjarkirkja
Eigandi:
Flateyjarsöfnuður
Um húsið:
Byggð 1926. Eftir margra ára deilur um staðsetningu hennar og yfirtöku safnaðar úr höndum bænda var henni fenginn staður á núverandi stað, Bókhúsaflöt þar sem eyjan rís hæst. Aðdrættir efnis hófust í ársbyrjun 1926 og er kirkjan vígð 19. desember 1926. Við vígslu kirkjunnar var frumflutt lag Sigvalda Kaldalóns (1881-1946) við ljóð Eggerts Ólafssonar náttúrufræðings úr Svefneyjum, Ísland ögrum skorið en Sigvaldi var læknir í Flatey 1926-1929 og bjó í Læknishúsi hinu eldra. Um jól sama ár var annað þekkt lag Sigvalda frumflutt í kirkjunni við ljóð Stefáns frá Hvítadal, Kirkjan ómar öll. Næsta kirkja á undan henni var timburkirkja er stóð í kirkjugarði miðjum og byggð 1861 í tíð Ólafs Sívertsen. Kirkja hefur verið í Flatey um aldir.
Um nústandandi kirkjuhús hefur sitthvað verið skráð og er til bæði birt og óbirt. Látum nægja hér; Arkitekt var Guðjón Samúelsson og yfirsmiður Jónas Snæbjörnsson frá Hergilsey húsasmiður og kennari á Akureyri. Umbætur í málun innanhúss 1943 unnar af heimamönnum. Myndskreyting Baltasar 1965, endurunnin 1990 og lagfærð um aldamót og aftur 2013. Mikill fróðleikur í óvaranleik skreytingarinnar. Mikil viðgerð innanhús 1990-1996 er Minjavernd stjórnaði og vann að. Kirkjan var endurvígð 1996 af Ólafi Skúlasyni biskup. Safnaðarformaður lengst af eða 1926–1964 var Steinn Ágúst Jónsson, Eyjólfshúsi. 1964 –2010 Jóhannes Geir Gíslason Skáleyjum. Sóknarprestur nú er sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, Reykhólum. Kirkjustjórn nú: Gunnar Sveinsson, Eyjólfshúsi, Svanhildur Jónsdóttir, Krákuvör og Guðrún Marta Ársælsdóttir, Byggðarenda.
Það var 400 manna söfnuður sem byggði þessa kirkju á sínum tíma það er því afar erfitt að viðhalda sókn og sóknarkirkju þar sem lögmætur söfnuður er innan við tíu manns en með hjálp og velvilja fjölmargra velunnara Flateyjar hefur það tekist farsællega.
Eyjólfspakkhús
Eigandi:
Minjavernd
Um húsið:
Eyjólfur Einar Jóhannsson kaupmaður og bóndi lét byggja húsið um 1880 sem pakkhús. Guðmundur Bergsteinsson kaupmaður eignaðist síðan húsið og lét breyta því í fiskþurrkunarhús og m.a. koma þar fyrir þurrkofni. Eftir að verslun hans lagðist af komst húsið í eigu Flateyjarhrepps og var notað af ýmsum sem pakkhús og geymsla m.a. fyrir Ríkisskip. Minjavernd hf endurbyggði húsið á árunum frá 1987 til 2002 og tók það yfir til eignar 2007. Frá 2006 hefur húsið verið nýtt af Hótel Flatey og eru í því 5 gistiherbergi.
Vinaminni
Eigandi:
Óskar Eyþórsson og Dagbjört Höskuldsdóttir
Um húsið:
Byggt 1908-1909 af Guðmundi Guðmundssyni kaupmanni en kona hans var Jensína Henríetta skáldkona dóttir Hermanns S. Jónssonar skipstjóra og verslunarmanns í Hermannshúsi. Árið 1913 flytjast þau úr Flatey í Otradal í Arnarfirði og þá kaupa húsið Sigurður Sigurðsson ”norski” en hann ólst upp í Norskubúð og kona hans Kristbjörg Sigurðardóttir og Guðjón Ingimundarson sjómaður og beykir frá Bjarneyjum og kona hans Geirríður Sigurðardóttir. Um langt skeið voru tvær íbúðir í sitt hvorri burstinni. 1967 keyptu Anna Kristín Björnsdóttir og Sveinbjörn Pétursson sjómaður fæddur í Svefneyjum og bjuggu til 1983. Þá keyptu Pétur og Eyþór Ágústssynir húsið.