VELKOMIN
Framfarafélag Flateyjar
Framfarafélag Flateyjar er félagsskapur eigenda eða forráðamanna húseigna eða lóða í Flatey á Breiðafirði. Félagar eru allir þeir sem eru eigendur eða forráðamenn húseigna og lóða í eyjunni og/eða fulltrúar þeirra ef svo ber undir, s.s. maki og skyldmenni í beinan legg eða makar skyldmenna.
Fréttir
Húsin í Flatey
Pakkhúsið (Tilheyrir Hermannshúsi)
Eigandi:
Bjarni Arngrímsson, Jón Hermann Arngrímsson, Margrét Dóra Guðmundsdóttir ásamt Gylfa Guðmundssyni, Hákon Guðmundssyni og Guðrún Ásta Guðmundsdóttir Sablow, Jens Kristinsson, Tómas Kristinsson, Áslaug Kristinsdóttir, Gunnar Jensson, Elsa Nína Sigurðardóttir
Um húsið:
Byggt skömmu eftir 1909 en breytt úr útihúsi frá Félagshúsi á seinni hluta tuttugustu aldar í íbúð að hluta. Pakkhúsið var byggt upp úr viðum gamla pakkhússins sem þýskir kaupmenn er sagðir hafa bygg á sama stað. Það hús var síðan rifið og hluti viða þess húss fór í Vinaminni sem hluti heimamundar Henríettu Hermannsdóttir, skáldkonu.
Alheimur
Eigandi:
Guðjón, Margrét og Erla Sigurbergsbörn
Um húsið:
Húsið var byggt 1922 og var hönnuður Sigurður Jóhannsson.
Árið 1838 byggði Ólafur Jónsson skipstjóri og beykir torfbæ á þessum stað og sem nefndur var Alheimur. Bergþór Einarsson sjómaður fékk Sigurð Jóhannsson til að smíða timburhús í stað torfbæjarins árið 1922 og bjó þar með konu sinni Ingibjörgu Jónsdóttur. Húsið var um tíma nefnt Berþórshvoll en nafnið Alheimur var tekið upp aftur. Eftir þau bjó þar Sveinbjörn Pétur Guðmundsson kennari og fræðimaður frá Skáleyjum. Sigurberg Bogason trésmiður og Kristín Guðjónsdóttir eignuðust húsið 1951 og bjuggu í því til 1957 þegar fluttu úr Flatey. Árið 2006 var húsið endurbyggt frá grunni og sett á það vatnsklæðning.
Bjarg (Jóhannesarhús, Jakobshús, Bókasafnið)
Eigandi:
Skáleyingarnir Þorgeir, Gísli og Einar Kári Kristóferssynir ásamt Ólafi Gíslasyni
Um húsið:
Byggt af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra árið 1897. Jóhannes fæddist í Bjarneyjum 1868 en var skipstjóri í Flatey til fjölda ára. Fluttist til Reykjavíkur og byggði hús við Skólavörðustíginn og nefndi Bjarg. Húsið var endurbyggð frá grunni 2000.
Byggt 1897 af Jóhannesi Bjarnasyni skipstjóra úr Bjarneyjum en hann bjó hér aðeins fáein ár í byrjun og var það leigt Oddi Jónssyni lækni sem Flateyingar komu síðan af sér vegna drykkjuskapar hans aldamótaárið 1900 er hann fór að Miðhúsum í Reykhólalæknishéraði. Jóhannes flutti þá aftur í húsið og bjó þar er hann flutti frá Flatey 1907. Sama ár keypti Jakob Þorsteinsson verslunarmaður húsið og var það þá nefnt Jakobshús og bjó Jakob þar til dánardægurs 1935. Ekkja Jakobs var Kristín Jónsdóttir (1858-1946) ”ljósa” en hún var ljósmóðir í Flatey og bjó hún áfram í húsinu þar til hún dó 1946. Húsið var notað sem íbúðarhús fram á sjötta áratuginn. Erfingjar Kristínar gáfu húsið Bókasafninu í Flatey og hýsti það safnið frá 1954 til 1992. Þar réð ríkjum Sigríður Bogadóttir (Sigga Boga). Starf hennar sem bókavarðar var allt þar. Eftir að hún lét af störfum var safngæslan mjög laus í böndum um árabil. Húsið var að hrörna og eyðileggjast. Safninu var bjargað þaðan árið 1992 og sett í kassa og flutt að Reykhólum til geymslu. Áður eða 1968 var fágætasti hluti safnsins fluttur á Landsbókasafn til geymslu. Í þessum geymslum er safnið enn. Húsið komst í eigu Reykhólahrepps við sameiningu sveitarfélaga 1987. Það var endurbyggt frá grunni árið 2000 í umboði eiganda.
46. Gripahús, Flatey II
Eigandi:
Svanhildur Jónsdóttir
Um húsið:
Byggt sem gripahús um 1906 af Magnúsi Sæbjörnssyni (1871-1924) lækni sem var læknir í Flateyjarhéraði 1903 til 1923. Magnús keypti 10 hundruð í Flatey árið 1905 af séra Lárusi Benediktssyni (1841-1920). Íbúðarhúsið sem fylgdi þeim jarðarkaupum var nefnt Læknishús af setu hans þar. Núverandi fjárhús Krákuvarar.
Einarshús (Skrína)
Eigandi:
Hörður Guðmundsson
Um húsið:
Byggt 1905 af Einari Jónssyni sjómanni. Einar var Snæfellingur að upplagi en var við vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann flutti í Flatey og byggði sér hús við Hjallsvíkina sem nefnt var Einarshús. Einar var sjómaður alla tíð.
Byggt 1906 af Einari Jónssyni sjómanni. Seinna stækkaði hann húsið til norðurs og lyfti þakinu. Þess vegna varð það kallað Skrína. Einar var Snæfellingur en var í vinnumennsku í Svefneyjum áður en hann fluttist í Flatey og byggði hús sitt við Hjallsvík. Einar bjó í húsinu með seinni konu sinni Guðríði Sigurðardóttir frá Þernuvík í Ögurhreppi. Sonur hennar var Þórður Valgeir Benjamínsson er var bóndi í Hergilsey. Annar sonur hennar var Magnús Kristinn Benjamínsson,verslunarmaður og bókavörður í Flatey en hann gerðist 1925 verslunarmaður hjá Kaupfélagi Flateyjar. Magnús var fatlaður frá frumbernsku en mikill andans maður, margfróður og listrænn með afbrigðum.
Stóra pakkhúsið – Hótel Flatey
Eigandi:
Minjavernd
Um húsið:
Bygging til vinstri - Björn Sigurðsson (1856-1930) kaupmaður lét hlaða kjallaraveggi hússins 1904. Guðmundur Bergsteinsson (1878-1941) kaupmaður lét reisa húsið á steinhlöðnum kjallaranum1918. Máttarviðir þess eru að töluverðum hluta úr Gamlhúsinu sem reist var 1777. Húsið var alla tíð nýtt fyrir verslun í Flatey meðan verslun var rekin þar. Minjavernd hf tók það yfir til endurbyggingar 1987 og til eignar 2007. Endurbygging þess var lokið 2007 og það ár hóf Hótel Flatey í því sinn rekstur. Eru í því 8 gistiherbergi og eldhús ásamt bar og aðstöðu í steinhlöðnum kjallaranum.
Byggðarendi
Eigandi:
Guðrún M Ársælsdóttir og Baldur Ragnarsson
Um húsið:
Byggt 1950 af Jóhanni Kristjánssyni fæddur á Þingeyri við Dýrafjörð skipstjóri á flóabátnum Konráði BA. Kona hans var Kristín Ágústsdóttir úr Gufudalssveit. Þau bjuggu í Byggðarenda frá 1952-1962 er þau flytja á Akranes. Um nokkurn tíma var barnaskóli í húsinu. Flateyjarhreppur eignaðist síðan húsið og nokkra vetur var rekinn í því barnaskóli. Helstu íbúar þess síðan voru Gunnar Jónsson og Aðalheiður Sigurðardóttir, Einir Guðmundsson og Marsibil Guðmundsdóttir, Jóhannes Geir Gíslason og Svanhildur Jónsdóttir, Árni Sigmundsson og Þórdís Una Gunnarsdóttir og Magnús Magnússon og Hrönn Hafsteinsdóttir.
Eyjaberg
Eigandi:
Vaðsteinn ehf.
Um húsið:
Byggt 1994-6 af 16 barnabörnum Þórðar og Þorbjargar í Vesturbúðum og vígt á 100 ára fæðingaafmæli Þórðar Ben. 2. ágúst 1996. Meistari hússins er Sigurbjörn Guðjónsson. Húsið er byggt í anda gömlu húsanna í Flatey og fellur fallega inn í heildarhúsamynd eyjarinnar.
Sjávarslóð
Eigandi:
Hafþór Hafsteinsson
Um húsið:
Byggt 1994 af núverandi eiganda, Hafþóri Hafsteinssyni. Hafþór fæddur 1959 hefur verið einn af síðustu sjómönnum sem gert hafa út frá Flatey bæði á strandveiðar og grásleppuveiðar.
Flateyjarkirkja
Eigandi:
Flateyjarsöfnuður
Um húsið:
Byggð 1926. Eftir margra ára deilur um staðsetningu hennar og yfirtöku safnaðar úr höndum bænda var henni fenginn staður á núverandi stað, Bókhúsaflöt þar sem eyjan rís hæst. Aðdrættir efnis hófust í ársbyrjun 1926 og er kirkjan vígð 19. desember 1926. Við vígslu kirkjunnar var frumflutt lag Sigvalda Kaldalóns (1881-1946) við ljóð Eggerts Ólafssonar náttúrufræðings úr Svefneyjum, Ísland ögrum skorið en Sigvaldi var læknir í Flatey 1926-1929 og bjó í Læknishúsi hinu eldra. Um jól sama ár var annað þekkt lag Sigvalda frumflutt í kirkjunni við ljóð Stefáns frá Hvítadal, Kirkjan ómar öll. Næsta kirkja á undan henni var timburkirkja er stóð í kirkjugarði miðjum og byggð 1861 í tíð Ólafs Sívertsen. Kirkja hefur verið í Flatey um aldir.
Um nústandandi kirkjuhús hefur sitthvað verið skráð og er til bæði birt og óbirt. Látum nægja hér; Arkitekt var Guðjón Samúelsson og yfirsmiður Jónas Snæbjörnsson frá Hergilsey húsasmiður og kennari á Akureyri. Umbætur í málun innanhúss 1943 unnar af heimamönnum. Myndskreyting Baltasar 1965, endurunnin 1990 og lagfærð um aldamót og aftur 2013. Mikill fróðleikur í óvaranleik skreytingarinnar. Mikil viðgerð innanhús 1990-1996 er Minjavernd stjórnaði og vann að. Kirkjan var endurvígð 1996 af Ólafi Skúlasyni biskup. Safnaðarformaður lengst af eða 1926–1964 var Steinn Ágúst Jónsson, Eyjólfshúsi. 1964 –2010 Jóhannes Geir Gíslason Skáleyjum. Sóknarprestur nú er sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir, Reykhólum. Kirkjustjórn nú: Gunnar Sveinsson, Eyjólfshúsi, Svanhildur Jónsdóttir, Krákuvör og Guðrún Marta Ársælsdóttir, Byggðarenda.
Það var 400 manna söfnuður sem byggði þessa kirkju á sínum tíma það er því afar erfitt að viðhalda sókn og sóknarkirkju þar sem lögmætur söfnuður er innan við tíu manns en með hjálp og velvilja fjölmargra velunnara Flateyjar hefur það tekist farsællega.