Ein af merkustu og eftirtektarverðustu byggingum  Flateyjar er kirkja eyjarinnar sem stendur þar sem eyjan  er hæst í landslaginu. Hún var vígð 19. desember 1926  og er eitt fegursta minnisverk Guðjóns Samúelssonar, húsameistara og arkitekts. Flateyjarkirkja er um margt fagurt Guðshús, en það sem vekur mesta athygli flestra eru myndir í lofti kirkjunnar sem listamaðurinn Baltasar Samper gerði fyrst árið 1964.

Þær myndir eyðilögðust alveg vegna raka og annarra ófullkominna aðstæðna í kirkjunni. Árið 1992 málaði Baltasar ásamt eiginkonu sinni nýjar myndir á kirkjuloftið, en myndirnar sýna, sem hinar fyrri, þætti úr atvinnulífi og sögu hins forna Flateyjarhrepps.

Listaverk Baltasar Sampers; atvinnu- og menningarsagan

Þegar horft er inn kirkjuna eru myndir sem sýna atvinnuhætti til hægri en myndir úr sögu og menningu Vestureyja til vinstri.  Innst til hægri má sjá bátasmíði.  Bátasmiðurinn er Jón Daníelsson fyrrum bóndi í Hvallátrum, en Hvallátramenn voru löngum þekktir bátasmiðir og eru enn.  Neðantil við bátana er sauðfé, en sauðfé hefur ávallt verið mikilvægasta búfé í eyjunum.
Ofantil við sauðféð er útsýnisvarðan á Kastala í Sviðnum.  Hana reisti Ólafur Teitsson sem bjó í Sviðnum 1841-1889.  Vörðuna sem stendur enn þann dag í dag, reisti Ólafur til að geta fylgst betur með bátsferðum, en einnig til að sjá betur yfir hólma og sker í Sviðnum, sérstaklega þar sem flæðihætta var.  Einnig þjónaði varðan sem þurrkhjallur.

Á næstu mynd má sjá mann skafa selskinn.  Maðurinn er Þórður Benjamínsson sem síðastur manna bjó í Hergilsey.  Þórður bjó síðar í Vesturbúðum í Flatey og börn hans eiga það hús nú.
Í Vestureyjum eru einkum tvær tegundir sela; landselur og útselur.  Landselurinn er smærri og kæpir á vorin.  Kóparnir fara strax í sjó með móðurinni og voru veiddir í net, sérstök selanet.  Þær veiðar eru nú nánast alveg aflagðar.  Útselurinn er mun stærri og hann kæpir á haustin.  Langur tími líður þar til kópurinn er tilbúinn til að fara í sjóinn (3-4 vikur).  Kóparnir eru rotaðir uppi í skerjum skömmu áður en þeir eru fullbúnir til að fara til sjávar.  Selskinn (aðallega kópaskinn) voru áður mikilvæg tekjulind í eyjunum en verð á þeim féll mikið þó það hafi nú hækkað nokkuð aftur.

Hægra megin við Þórð Benjamínsson er kona að krafsa dún.

Þessi kona hét Guðrún Torfadóttir.  Hún var húskona og átti m.a. heimaí Sviðnum og Svefneyjum.  Dúnninn eða dúnkakan er tekin úr hreiðri kollunnar og hann síðan breiddur til þerris í þurru veðri.  Síðan er dúnninn hreinsaður þannig, að hann er hitaður og mulin úr honum óhreinindi s.s. gras, þang og fleira.  Þegar dúnn er krafsaður eins og sýnt er á myndinni af Guðrúnu Torfadóttur, er honum velt og hann dreginn til á sérstakri grind, krafsgrind, og þá hrynja úr honum óhreinindin.  Bæði konur og karlar kröfsuðu dún, oftar þó konur, og gott dagsverk var talið 2 kg af hreinum dún.

Lengst til hægri er maður að háfa lunda en þar neðan við er kona að taka dún og hagræða hreiðri.  Þegar dúnninn er tekin úr hreiðrinu er þurrt hey eða sina sett í staðinn, eggjunum hagrætt og breitt yfir þau.

Lundi, æðarfugl, skarfur og gæs eru enn nytjafuglar í eyjunum, sérstaklega þó æðarfugl og lundi.

Innst vinstra megin standa tveir heiðursmenn og sá þriðji situr við skriftir.  Sá sem stendur lengst til hægri og styðst við staf er Ólafur Bergsveinsson bóndi í Hvallátrum 1894-1935.  Ólafur var merkisbóndi, listasmiður og frammámaður í sinni sveit alla sína daga.  Sá sem stefndur við hlið Ólafs með nótnablöð í hendi er Sigvaldi Kaldalóns, en hann var læknir í Flatey 1926-1929.  Sigvaldi samdi mörg þekkt sönglög sín í Flatey.  Meðal annarra má nefna “Ísland ögrum skorið” sem frumflutt var við vígslu kirkjunnar árið 1926 og sálminn “Kirkjan ómar öll” en hann var frumfluttur í Flateyjarkirkju á jólum sama ár.  Sá sem situr við skriftir er sagnaþulurinn Gísli Konráðsson.  Gísli var Skagfirðingur en Framfarastofnun gerði samning við Gísla um að hann kæmi til Flateyjar til að skrá sögur og sagnir, en honum yrði í staðinn séður farborði.  Gísli sat síðan að mestu við skriftir frá árinu 1852 þar til hann lést árið 1877.  Það var tilskilið að Framfarastofnunin eignaðist handrit hans eftir hans dag og þau eru nú varðveitt í Landsbókasafninu.

Næst til vinstri eru tvær konur, maður og að baki þeim gulmálað hús.  Þetta eru séra Ólafur Sívertssen prestur og prófastur í Flatey 1823-1860, kona hans Jóhanna Friðrika Eyjólfsdóttir og sú sem heldur á kistlinum er Herdís Benedictsen, fædd Guðmundsdóttir.  Ólafur Sívertsen og Jóhanna Friðrika stofnuðu árið 1833 Flateyjarframfarastiftunina sem síðar var oft nefnd Framfarastofnunin.  Framfarastofnunin var í upphafi bókasafn og þau hjón gáfu í upphafi 100 bindi til stofnunarinnar og auk þess 100 ríkisdali.  Tilgangur stofnunarinnar var að “efla og glæða nytsama þekkingu, siðgæði og dugnað meðal almennings í byggðarlaginu”.  Peningana átti að ávaxta og veita árlega verðlaun til þeirra manna í byggðarlaginu sem “frábærir væru um það að afla sér nytsamrar þekkingar eða þá forgöngumenn um sjómennsku, búskap, barnauppeldi eða annað sem til sóma og framfara mátti verða”.

Framfarastofnunin átti eftir að marka djúp spor í menningar- og menntalífi Vestureyinga og áhrifa hennar gætti víðar á héraðsvísu og jafnvel landsvísu.  Bókasafnið jókst mjög að bókafjölda, lestrarkunnátta varð almenn og árið 1841 telur síra Ólafur að níundi hver maður í Flateyjarsókn lesi dönsku sér til fullra nota.  Framfarastofnunin gat síðar af sér Bókhlöðuna í Flatey, Bréflegafélagið (Flateyjarframfarastiftunar bréflega félag), tímaritið Gest Vestfirðing, Kollabúðarfundina og starf hennar og þeirra einstaklinga sem að henni stóðu og í henni störfuðu var mikilvægur þáttur í störfum Jóns Sigurðssonar forseta og sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.

Árið 1864 var Bókhlaðan í Flatey reist til að hýsa bókasafnið.  Það voru hjónin Brynjólfur og Herdís Benedictsen sem lögðu mest til byggingarinnar, bæði að framkvæmd og fjármunum, en Framfarastiftunin lagði fram 2/5 af kostnaði við húsið.  Myndin á að sýna þegar Herdís Benedictsen afhendir fjárframlag þeirra hjóna.

Á næstu mynd til vinstri má sjá mann sem lyftir bók og hempuklæddur maður lítur upp til bókarinnar.  Sá sem heldur á bókinni er Jón Finnsson bóndi í Flatey á fyrri hluta 17. aldar.  Jón Finnsson var barnabarnabarnabarn Björns hirðstjóra og Ólafar Loftsdóttur ríku á Skarði og Flateyjarbók, sem hann heldur á, var ættargripur.  Sá hempuklæddi er Brynjólfur biskup Sveinsson í Skálholti, en hann kom til Flateyjar árið 1647 gagngert þeirra erinda að fala bókina af  Jóni bónda.  Sagan segir að biskup hafi boðið lönd og lausa aura en bókin ekki verið föl.  En þegar biskup gekk til skips gaf Jón honum bókina en biskup mun þó hafa launað hana að fullu.  Árið 1856 sendi svo Brynjólfur biskup Danakonungi bókina að gjöf og átti hún ekki afturkvæmt til Íslands fyrr en árið 1971 er hún og Konungsbók Eddukvæða voru afhentar Íslendingum við hátíðlega athöfn í Háskólabíói í upphafi handritaskila.

Flateyjarbók er þó ekki skrifuð í Flatey eins og ætla mætti, heldur á Norðurlandi í Víðdalstungu, á Þingeyrum eða jafnvel norður í Skagafirði.  Bókin er í raun ritsafn og fjallar um ævir Noregskonunga og fleira.  Hún er fagurlega skreytt listverk og  mikill dýrgripur.

Vinstra megin við þá Jón Finnsson og Brynjólf biskup eru svartir fuglar á flugi.  Þetta eru skarfar, enn einn nytjafuglinn á Breiðafirði.  Tvær tegundir skarfa verpa í Vestureyjum, toppskarfur og dílaskarfur.  Á Breiðafirði mun langmesta skarfavarp á Íslandi.

Enn lengra til vinstri sést vopnaður maður með sverð og skjöld og stendur á bergbrún.  Ekki eru allir á einu máli hver maðurinn sé.  Sumir segja Ingjaldur í Hergilsey en flestir að þetta sé Gísli Súrsson og stendur hann á brún Vaðsteinabjargsins í Hergilsey. Ingjaldur bóndi í Hergilsey (sem var sonur Hergils hnapprass Þrándarsonar mjóbeins er nam Vestureyjar) leyndi Gísla Súrsyni í Hergilsey í þrjú ár eftir að Gísli var orðinn útlægur.  Ingjaldur var drengskaparmaður og þegar Börkur digri, sem sótti að Gísla, hugðist taka Ingjald af lífi ef hann ekki segði til Gísla, sagði Ingjaldur aðeins:  “Eg hefi vond klæði og hryggir mig ekki þó að eg slíti þeim eigi gerr”.  Þó ekki væri hann drepinn varð hann að gjalda liðveislu sinnar við Gísla með því að hann var flæmdur frá búi sínu í Hergilsey.  Hergilsey var síðan í eyði um aldir eða allt til þess er Eggert Ólafsson “hinn betri” fékk hana til ábúðar á 18. öld.

Altaristafla Flateyjarkirkju

Altaristaflan er mynd af bryggjunni í Flatey og sýnir Krist með fiskimönnunum.  Kristur sem er íklæddur lopapeysu líkist talsvert listamanninum sjálfum og fiskimennirnir eru þeir Hafsteinn Guðmundsson bóndi í Flatey og Jóhannes Gíslason bóndi í Skáleyjum.  Á bryggjukantinn er letrað Mt. 4 18-22, en í Matteusarguðspjalli, kafla 4, versunum 18-22 segir:  “Hann gekk með Galelíuvatni og sá tvo bræður, Símon, sem kallaður var Pétur, og Andrés, bróður hans, vera að kasta neti í vatnið, en þeir voru fiskimenn.  Hann sagði við þá:  “Komið og fylgið mér, og ég mun láta yður menn veiða”.  Og þegar í stað yfirgáfu þeir netin og fylgdu honum.  Hann gekk áfram þaðan og sá tvo aðra bræður, Jakob Sebedeusson og Jóhannes, bróður hans.  Þeir voru í bátnum, með Sebedeusi föður sínum, að búa net sín.  Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu jafnskjótt bátinn og föður sinn og fylgdu honum”.

Í loftinu svífur svo örn ofar útsýnisvörðu Ólafs Teitssonar í Sviðnum.  Örninn er kallaður konungur fuglanna, en misvel þokkaður í eyjunum.  Hann þykir vágestur í varplöndum og veldur þar oft miklum skaða.

Í kirkjunni var áður altaristafla eftir danska málarann Anker Lund.  Í kirkjunni eru einnig ýmsir munir úr eldri kirkjum og munir sem gefnir hafa verið af sóknarbörnum og öðrum á ýmsum tímum. Predikunarstóllinn sem er frá árinu 1833 og sálmatöflurnar og litlu kertastjakarnir eru úr gömlu kirkjunni.  Þegar gamla kirkjan var rifin fannst lítið marmara- eða alabasturslíkneski af Jóhannesi postula, en hann var verndardýrlingur Flateyjarkirkju í kaþólskum sið.  Talið er að líkneskið sé frá 15. eða 16. öld, þ.e. kaþólskum tíma.

Kirkja hefur staðið í Flatey frá 11. eða 12. öld.  Í Flatey stóð klaustur frá 1172-1184 en þá var það flutt að Helgafelli í samnefndri sveit.  Klaustursins sjást nú engin merki utan klaustursteinsins sem svo er kallaður.  Steinninn er talin hafa verið í hliði klaustursins og í hann er klappaður bolli sem í mun hafa verið vígt vatn sem klausturbræðurnir signdu sig með á morgnanna.

Samantekt þessa um Flateyjarkirkju, listaverkin og sögu hennar hefur Guðmundur Stefánsson á Myllustöðum tekið saman. Hann á þakkir skyldar fyrir þessa gagnlegu og skemmtilegu lýsingu og samantekt.

Svarthvítu ljósmyndina efst á síðunni tók Friðgeir Trausti Helgason og myndirnar hér að neðan tóku Friðgeir og Gunnar Sveinsson.