Guðmundur Stefánsson (Myllustöðum) tók saman

Inngangur
Flatey er ein Vestureyja, en svo nefnist víðáttumikil eyja og skerjaþyrping á norðanverðum Breiðafirði.  Í þessum eyja klasa voru löngum sjö bújarðir og sú áttunda var í byggð fram um 1800.  Flatey hefur löngum verið miðpunktur þessa eyjaklasa, en aðrar eyjar sem tilheyra Vestureyjum eru Hergilsey (fór í eyði 1946), Hvallátur (í eyði 1992), Skáleyjar (þar er enn búið en þó ekki allt árið lengur), Sviðnur (í eyði 1956), Svefneyjar (í eyði 1946), Bjarneyjar (í eyði 1946) og Stagley en þar hefur ekki verið búið síðan 1802.  Auk þess er stundum talið að Sauðeyjar sem liggja upp undir Barðaströnd heyri til Vestureyja.  Öllum þessum eyjum tilheyra ótal eyjar, hólmar og sker, svo kölluð lönd, en flestar eyjar tilheyra Hvallátrum eða 390 að því er talið er.  Á öllum þessum bújörðum var jafnan margbýlt en þær voru flestar metnar 40 hundruð að fornu mati og þá hálfar í sjó.  Stagley og Sviðnur eru þó mun minni jarðir.  Stagley metin 6 hundruð en Sviðnur 20.
Þó eyjarnar séu nú allar farnar í eyði að Flatey undanskilinni, eru hlunnindi þeirra nytjuð, en af þeim gefur dúntekja langmestu tekjurnar.  Talið er að í heild gefi Vestureyjar af sér 300-350 kg af hreinsuðum æðardún að verðmæti 15-20 millj. kr.  Önnur hlunnindi eru m.a. fuglatekja, selveiði, eggjataka, þangsláttur o.fl.

Flatey er stærst Vestureyja.  Hún er landnámsjörð og höfuðból, en hér nam land Þrándur mjóbein og bjó í Flatey en Hergils hnapprass, sonur hans, bjó í Hergilsey.  Flatey hefur alltaf þótt kostajörð og löngum bjuggu hér stórbændur auk þess sem í henni einni Breiðafjarðareyja myndaðist raunverulegt þéttbýli.  Í Flatey voru heimkynni hinnar viðfrægu Flateyjarbókar, Flatey var um langan aldur menningarsetur í fremstu röð, verslunar- og samgöngumiðstöð og útgerðarbær.  Hún hefur verið kölluð perla Breiðafjarðar, náttúruparadís og skáldin hafa slegið henni gullhamra:  Matthías Jochumson, Sigurður Breiðfjörð, Halldór Laxness, Vatnsenda-Rósa, Þórbergur Þórðarson, Jökull Jakobsson og fleiri

Flatey má því muna sinn fífil fegurri.  Nú er búið hér á tveim bæjum allt árið um kring.  Búskapur hefur dregist verulega saman, útgerð er hverfandi en hlunnindi eyjarinnar, einkum dúntekja er áfram stunduð af ábúendum.  Allar tilraunir til að hleypa lífi í atvinnulífið og treysta búsetu runnu út í sandinn og þó Flatey sé nú ein Vestureyja talin i byggð, er síður en svo öruggt um áframhaldandi fasta búsetu hér.

Við Frystihúsið
Nokkru fyrir 1950 var gert átak í atvinnumálum eyjarinnar, en þá bjuggu enn um 150 manns í Flatey.  Vegur, ca. 1 km að lengd, var lagður frá þorpinu og hingað vestur á Tröllenda og árið 1948 var hafin bygging frystihússins sem lauk tveim árum síðar eða 1950.  Jafnframt var byggð bryggja og keyptir tveir vertíðarbátar, Sigurfari og Þorsteinn RE 21.
Strax eftir að frystihúsið tók til starfa hvar fiskurinn af grunnslóð og húsið var ekki starfrækt nema í 2-3 ár.  Engin fiskvinnsla var síðan í húsinu allt til áranna 1984-1985 þegar Hafsteinn Guðmundsson bóndi í Flatey gerði tilraun með skelfiskvinnslu í húsinu.  Annars hefur húsið aðeins verið nýtt sem geymsla og aðstaða fyrir ábúanda, auk þess sem diesel-rafstöð eyjarinnar hefur löngum staðið hér.  Um 1960 bjuggu aðeins um 30 manns í Flatey og nú eiga hér heimili 4-6 manns eftir því hvernig talið er.

Á Tröllenda
Á Klofningi (Flateyjar-Klofningi) stendur viti sem reistur var árið 1926.  Nafn sitt dregur eyjan af sprungum eða gjám sem skera hana eða kljúfa þvert á mörgum stöðum.  Rétt austar er Höfnin eða Hafnarey og enn austar er Hrólfsklettur.  Þessar eyjar eða klettar liggja í röð með 1,5 km millibili og mora af fugli á sumrin, einkum ritu og toppskarfi.  Langt í vestri er Oddbjarnarsker en þangað eru um 11 km frá Flatey.  Oddbjarnarsker tilheyrir raunar Hergilsey en er nytjað frá Flatey.  Oddbjarnarsker er fornfræg verstöð. Þar hefur þó aldrei verið byggð enda er Skerið aðeins tæpur hektari að stærð.  Frá Oddbjarnarskeri voru gerðir út tugir báta enda skammt að fara á gjöful fiskimið.  Það var í Oddbjarnarskeri sem Eggert Ólafsson “hinn góði” bjargaði 70 manns í móðuharðindunum um 1780 með því að flytja fólkið í Skerið, fæða það og hjúkra þangað til það var fært um að bjarga sér sjálft.
Rétt ofan við Flatey er Sýrey.  Þar voru fyrrum kartöflugarðar Flateyinga og þurfti þá ekki að kaupa áburð til að sprytti.  Enn ofar eru svo Feitsey og Langey og efst ber Hergilsey.
Austar eru Hvallátur og þar fyrir sunnan Svefneyjar.  Enn austar eru svo Skáleyjar og Sviðnur.  Um 12 km fyrir sunnan Flatey eru Bjarneyjar og miðja vegu milli Flateyjar og Stykkishólms er Stagley, syðst Vestureyja, 16-17 km frá Flatey.

Húsin á vesturhluta Flateyjar
Byggðarendi.  Byggðarendi var byggður um 1950 af Jóhanni Kristjánssyni.  Um nokkurt árabil barnaskóli.
Læknishús.  Læknishúsið var byggt um 1950.  Þrátt fyrir nafnið hefur aðeins einn læknir, Knútur Kristinsson, búið í húsinu.  Nú búa þar hjónin Ólína Jónsdóttir og Hafsteinn Guðmundsson, en þau búa á annarri hálflendunni.
Sjávarslóð, Rarik-bústaðurinn og Ráðagerði.  Sjávarslóð byggði fyrir nokkrum árum sonur Hafsteins og Ólínu, en hin húsin eru orlofshús, annað í eigu Rarik en hinn stjórnarráðsins.
Grænigarður.  Grænigarður var byggður um 1950.  Bygging Grænagarðs var í raun hluti atvinnuátaksins sem gert var um 1950, rétt eins og Læknishúsið, Byggðarendi og Frystihúsið.
Krákuvör.  Krákuvör var byggð um 1970.  Í Krákuvör búa Svanhildur Jónsdóttir og Magnús Arnar Jónsson, en þau búa á hinni hálflendunni.
Vesturbúðir.  Vesturbúðir eru gamalt lögbýli og opinber lendingarstaður bátavar í Vesturbúðavör.  Vesturbúðir voru upprunalega fiskverkunarhús og þá var staðurinn stundum nefndur “Paradís”.  Nafnið var þannig tilkomið að vinnuaðstaðan var innandyra og mun það á þeim árum þótt eins og að vera kominn í Paradís.  Við Vesturbúðir er nýtt hús, Eyjaberg, byggt fyrir fáeinum árum af afkomendum síðustu ábúenda í Vesturbúðum.

Við kirkjuna
Nú sést vel yfir Flateyjarvog eða Hólsbúðarvog.  Handan vogsins eru heimalöndin.  Austast er Akurey, þá Langey, Máfeyjar, svo Flathólmi og vestast er Lágmúlinn.  Auk þessara eyja og hólma eru síðan margir hólmar og sker.  Talsvert varp er í þessum eyjum, bæði æðarvarp og lundi.

Í kirkjunni
Sjá nánar “Flateyjarkirkja”

Við Bókhlöðuna
Bókhlaðan var reist árið 1864 að frumkvæði Brynjólfs og Herdísar Benedictsen.  Bókhlaðan í Flatey er fyrsta hús á Íslandi sem reist er sérstaklega til að hýsa bækur og kostaði 508 ríkisdali.  Flateyjarframfarastiftunin mun hafa lagt fram um 200 ríkisdali en þau hjón að mestu það sem á vantaði.  Húsið stóð upphaflega þar sem kirkjan stendur nú en var flutt þegar kirkjan var byggð.  Bókhlaðan var endurbyggð undir umsjón Minjaverndar á árunum 1979-1988.  Húsið er nú í umsjá Minjaverndar, en mestur hluti bókasafnsins og öll handritin eru nú varðveitt á Landsbókasafninu.  Í Bókhlöðunni er þó ljósprentun af Flateyjarbók sem danskur bókaútgefandi, Einar Munksgaard, gaf Framfarastofnuninni á 100 ára afmæli hennar árið 1933.

Í kirkjugarðinum
Áður en kirkjan sem nú stendur var reist árið 1926, stóð hér í garðinum timburkirkja.  Garðurinn er gamall og í honum eru a.m.k. 200 ára gömul þekkt leiði þó líklega hafi verið greftrað hér mun lengur.  Nærri lætur að í garðinum séu um 200 þekkt leiði.
Í leiði nr. 21 í hluta II hvílir Brynjólfur kaupmaður Benedicten og Gísli sonur hans sem lést tæpra tveggja ára gamall.  Við hlið þeirra hvíla tveir synir Brynjólfs, Haraldur Bogi sem lést 6 ára og Pétur Herjúlfur sem lést eins árs.
Í leiði nr. 15 í IV. hluta hvíla sjö börn Brynjólfs og Herdísar Benedictsen;  Bogi Brynjúlfur sem lést tveggja ára, og Jarþrúður, Guðmundur, Halldóra, Guðrún, Sólveig Ragnheiður og Halldóra Sigríður en þau létust öll á fyrsta aldursári.
Alls áttu þau Brynjólfur og Herdís Benedictsen tólf börn sem öll dóu mjög ung nema ein dóttir sem hét Ingileif.  Hún lést í Reykjavík 22ja ára að aldri.  Einnig tóku þau hjón í fóstur dreng er hét Bjarni Pétursson Kolbeinsson.  Þessi drengur drukknaði aðeins 17 ára gamall í Snarfaraslysinu, er hákarlaskipið Snarfari fórst í desember 1861 og með því 12 sjómenn en 24 börn urðu föðurlaus.  Það er kaldhæðni örlaganna að Brynjólfur fósturfaðir hans gerði skipið út.
Loks átti Brynjólfur laundóttur er Sigríður hét og ólst upp hjá þeim Herdísi.  Þessi stúlka komst upp og átti síðar Sigurð kaupmann Johnsen í Flatey.  Frá þeim er komið margt manna.
Herdís Benedictsen var dóttir Guðmundar Scheving, útgerðarmanns og kaupmanns í Flatey.  Nægur auður var því í búi þeirra Herdísar og Brynjólfs, þau voru bæði framfarasinnuð og létu margt gott af sér og fjármunum sínum leiða á sinni tíð.  Meðal annars studdu þau til mennta Matthías Jochumson sem þá var búðarþjónn í Flatey.  En þau bjuggu ekki við barnalán og saga þeirra varð í því tilliti mikil sorgarsaga.
Herdís ákvað fyrir andlát sitt að láta nokkurn hluta eigna sinna renna til stofnunar kvennaskóla á Vesturlandi.  Síðar var reistur kvennaskóli að Staðarfelli í Dölum, m.a. með framlagi Herdísar Benedictsen.

Í Götuskarði
Sólbakki.  Á Sólbakka var áður póst- og símstöð eyjarinnar.
Grýluvogur og Silfurgarður.  Silfurgarðurinn var hlaðinn árið 1833.  Það var Guðmundur Scheving agent í Flatey (faðir Herdísar Benedictsen og tengdafaðir Brynjólfs Benedictsen) sem lét hlaða garðinn.  Nafnið er þannig tilkomið að verkalaun greiddi Guðmundur í silfri og þótti í þá daga óvenjulegt og hefur líklega verið einsdæmi.  Garðurinn var hlaðinn til að skýla skútum og öðrum skipum sem lágu í vognum fyrir sjóum í vestanátt og með tilkomu garðsins varð vogurinn algerlega örugg höfn.
Garðurinn er 40 faðmar á lengd og 2 á breidd.  Hann er 1,5 faðmar á hæð og í honum eru einungis 5 lög.  Hann var á sínum tíma talinn eitt mesta mannvirki sem reist hafði verið á Íslandi.
Félagshús og Gunnlaugshús.  Félagshúsið er elsta hús sem nú stendur í Flatey.  Það byggði Guðmundur Scheving árið 1843 þannig að það er nú um 160 ára gamalt.  Húsið var byggt sem íbúðarhús en í því var einnig lengi rekin verslun og innréttingar hennar eru enn með óbreyttu lagi í því.  Eftir dauða Guðmundar eignuðust Herdís og Brynjólfur húsið og þá hét það Nýjahús.  Núverandi nafn, Félagshús, dregur húsið af Verslunarfélagi Eyhreppinga sem var samvinnuverslun eyjabænda.  Félagið rak hér verslun á árunum 1873-1893 og verslunarstjórinn, Ólafur Skagfjörð, bjó einnig í húsinu.  Hann var faðir Kristjáns Ó. Skagfjörð sem rak í Reykjavík samnefnda heildverslun.  Við Kristján Ó. Skagfjörð er kenndur Skagfjörðsskáli í Langadal í Þórsmörk.
Meðan Brynjólfur Benedictsen bjó enn í Félagshúsinu lét hann árið 1851 byggja við húsið og síðar var það hús nefnt Gunnlaugshús eftir þáverandi eiganda sínum, Gunnlaugi Sveinssyni skipstjóra.
Þegar húsið var innréttað var m.a. notað í það “betrekk” sem Jörundur hundadagakonungur mun hafa gefið Guðmundi Scheving meðan hann var amtmaður Jörundar norðanlands.  Guðmundur, sem þá var sýslumaður i Haga á Barðaströnd, naut  upphefðarinnar aðeins skamma stund og eftir að ríki Jörundar leið undir lok sagði Guðmundur sýslunni lausri, fluttist til Flateyjar, keypti Flateyjarverslun og gerðist hér umsvifamikill athafnamaður.
Vogur.  Húsið byggði Jón Guðmundsson kaupmaður árið 1885.  Kona Jóns var Jófríður Sigurðardóttir , dóttir Sigurðar og Sigríðar Johnsen, dóttur Brynjólfs Benedictsen.  Meðan Jón átti húsið var það nefnt Nýjahús en síðar Jónshús.  Meðal íbúa hússins í gegnum árin var sr. Sigurður Haukdal, faðir Eggert alþingismanns á Bergþórshvoli sem fæddur er í Flatey árið 1933.
Nú er rekið gisti- og veitingahús í Vogi á sumrin og því ekki amalegt að fara á Vog, svona af og til!  Vogur og fleiri hús í Flatey komu mjög við sög í kvikmyndinni “Ungfrúin góða og húsið” en mörg útiatriða myndarinnar voru tekin upp í Flatey.
Eyjólfshús og Ásgarður.  Eyjólfshús var byggt árið 1882 sem íbúðar- og verslunarhús.  Húsið er kennt við Eyjólf Jóhannsson kaupmann sem byggði húsið.  Meðal barna hans var Jónína Eyjólfsdóttir sem síðar giftist enn einum stór athafnamanninum og þeim síðasta í Flatey, Guðmundi Bergsteinssyni.  Neðan við Eyjólfshús er Eyjólfspakkhús en þar fyrir neðan er Eyjólfsbryggjan, áður aðal uppskipunarbryggja Flateyinga.  Guðmundur Bergsteinsson byggði Ásgarð árið 1907, m.a. upp úr gömlu íbúðar- og pakkhúsi sem Gamlhús nefndist og stóð nánast þar sem Ásgarður stendur nú.  Ásgarður var eins og fleiri hús í Flatey, byggður sem bæði íbúðar- og verslunarhús og þau Jónína og Guðmundur versluðu þar um langt árabil eða frá árinu 1907 og fram yfir 1960.  Gamla sölubúðin stendur enn meira og minna óbreytt í norðurenda hússins.  Meðal afkomenda þeirra Jónínu og Guðmundar eru Jóhann Salberg, fyrrum sýslumaður á Sauðárkróki og víðar, Atli Heimir Sveinsson tónskáld og Guðmundur Benediktsson þulur Ríkisútvarpsins.
Vorsalir.  Vorsalir sem áður nefndust Kaupfélagið, voru aðal verslunarhús Eyhreppinga frá því húsið var byggt árið 1885 og fram til 1965.  Húsið var byggt fyrir Jón Guðmundsson kaupmann, en síðar varð það verslunarhús Kaupfélags Flateyjar og þá aldrei kallað annað en Kaupfélagið.  Núverandi eigandi, Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur gaf húsinu nafnið Vorsalir á áttunda áratugnum.

Á Reitnum
Milli Eyjólfshúss og Grýluvogs er Reiturinn.  Þar var saltfiskur Flateyinga áður breiddur til þerris.  Austur af Eyjólfshúsi eru pakkhúsin.  Vestast er Eyjólfspakkhús sem nú hefur verið breytt í íbúðarhús.  Þá Stóra-Pakkhúsið (Kaupfélagspakkhúsið) og loks Samkomuhúsið.  Samkomuhúsið var í upphafi byggt sem pakkhús, varð síðar loftskeytastöð eyjarinnar og loks félagsheimili Flateyinga þar sem Ungmennafélag Flateyjar stóð fyrir dansleikjum og ýmis konar fundum og skemmtisamkomum.  Enn eru af og til haldnar samkomur í húsinu,böll,brúðkaupsveislur,afmælisveislur o.s.frv.

Þýskavör
Norður frá Samkomuhúsinu er Þýskavör.  Nafn sitt dregur hún af því að þýskir kaupmenn (Hansa-kaupmenn) munu hafa verslað þar fyrir daga einokunarinnar.  því til sönnunar er steinstöpull sem stendur ofan vararinnar og á vissulega ekki rætur að rekja í nokkru bergi á Íslandi.  Í norðanveðrum var ólendandi í Þýskuvör.  Á árunum 1885-1890 lét Björn Sigurðsson kaupmaður í Flatey því reisa mikinn varnargarð rétt austan Þýskuvarar.  Þessi garður stendur enn og heitir Stórigarður.

Á Bökkunum
Austan Þýskuvarar standa átta hús.  Þau eru Bentshús (1871), Vinaminni (1909), Vertshús, áður hótel Flateyjar (1886), Myllustaðir (2000), Strýta (1915), Bjarg (Jakobshús) (1897) og Einarshús (Skrína) (1905).  Skammt ofan Einarshúss eru Sólheimar (1935).  Nokkru neðan og sunnan við Sólheima stóð Barnaskólinn.  Barnaskólinn sem var steinhús (1909), teiknað af Guðjóni Samúelssyni, var brotinn niður fyrir nokkrum árum, en nú er verið að reisa hann aftur, nú sem íbúðarhús enda því miður ekki lengur þörf fyrir barnaskóla í Flatey.

Húsin handan Skansmýrarinnar
Handan Skansmýrarinnar standa allmörg hús.  Austast er Alheimur (1922), þá Bræðraminni (1915), Bogabúð (1908), Berg (1922) og loks Vegamót (1922) sem einnig kom við sögu í kvikmyndinni “Ungfrúin góða og húsið”.  Bogabúð er steinhús frá upphafi steinsteypualdar, hið eina í Flatey ef frá er talin sjálf Flateyjarkirkja.  Húsið byggði Bogi Guðmundsson kaupmaður og við hann er húsið kennt.  Bogabúð var eins og mörg önnur hús í Flatey byggð sem íbúðar- og verslunarhús og Bogi Guðmundsson rak í húsinu verslun um langt árabil.  Þegar húsið var byggt voru aðeins notuð tvö 10 tommu borð við uppslátt þess.
Ofarlega í Skansmýrinni er lítið hús með torfþaki.  Þetta er dælustöð Vatnsveitu Flateyjar sem stofnuð var árið 2000.  Vatnsveitan safnar vatni úr fjölmörgum brunnum umhverfis byggðina og með tilkomu hennar bæði batnaði vatnið í Þorpinu  að gæðum og eins er síður hætta á að það þverri, þó ávallt þurfi að fara sparlega með vatn í Flatey.
Efst á háhrygg Flateyjar, austan við kirkjuna og Bókhlöðuna, eru Klausturhólar.  Húsið var byggt árið 1900 fyrir séra Sigurð Jensson.

Á Lundabergi 
Rétt austan við Einarshús er Lundaberg.  Þar er gott útsýni norður og austur  um eyjarnar og þar verpa fjölmargar fuglategundir.  Má þar nefna ritu, fýl, lunda, teistu, sólskríkju, ekki er langt í kríuna og fleiri fugla mætti nefna.  Alls er talið að í Flatey sjálfri verpi um 20 tegundir fugla, en mun fleiri tegundir sjást þar og margar fleiri verpa í Flateyjarlöndum.  Í Flatey er m.a. eitt þéttasta varp hrossagauks á Íslandi og auk þess verpir hér þórshani sem er orðinn mjög sjaldgæfur varpfugl á Íslandi.  Alls er talið að á Breiðafirði verpi um 40 tegundir fugla, en á Íslandi öllu um 70 tegundir.