Eyjaþing 2010

Góð þátttaka var í Eyjaþingi sem Framfarafélag Flateyjar stóð fyrir á Hótel Flatey í ágúst 2010 og sýndi það bæði áhuga og þörf
á að ræða málefni Flateyjar og nærliggjandi eyja. Á þingið mættu ábúendur, eigendur sumarhúsa, sveitarstjórnarfólk og fulltrúar stofnana og ferðaþjónustufyrirtækja. Rætt var almennt um framtíðarþróun sem og skipulagsmál.

Þátttakendum var tíðrætt um þolmörk Flateyjar gagnvart ferðaþjónustu og lögðu áherslu á jafnvægi og gagnkvæman skilning milli búsetu, náttúruverndar, sumardvalargesta og ferðamanna. Fram kom ósk um góða og virka stjórnsýslu og samráð við íbúa og hagsmunaaðila, t.d. varðandi framkvæmdir. Rætt var um mikilvægi verndunar „Þorpsins“, sem er elsti hluti byggðar í Flatey og hversu langt ætti að ganga varðandi skilmála um framkvæmdir þar.

Þátttakendur áttu sér ýmsa drauma um framtíðina. Má þar nefna draum um gestastofu af einhverju tagi sem yrði fastur punktur í móttöku ferðamanna og rætt var um sjálfbæra orkunýtingu, vistvænan búskap, sorpflokkun og jarðvegsgerð. Rauði þráðurinn í skilaboðum Eyjaþings er sá að tryggja þurfi fasta búsetu í Flatey allt árið. Á því byggi samgöngurnar sem eru lífæð eyjarinnar, öryggismál og öll þróun.
Umsjón með Eyjaþingi var í höndum Sigurborgar Kr. Hannesdóttur hjá ILDI, ráðgjöf og þjónustu í samstarfi við Landmótun. Þingið styrktu m.a. Reykhólahreppur, Breiðafjarðarnefnd, Minjavernd, Sæferðir og Hótel Flatey.

Helstu niðurstöður Eyjaþingsins voru: Eyjaþing – samantekt

Árið 2011 var farið yfir helstu niðurstöður og gerður samfélagssamningur:  Samfélagssamningur

Unnin hefur verið skýrsla um frárennslismál í Flatey:  Úttekt á frárennslismálum

Töluvert hefur verið fjallað um með hvaða hætti mætti draga úr notkun olíu við framleisðu á rafmagni í Flatey – OV hefur lagt mikla vinnu í ýmsar úttektir.
* Orkuöflun í Flatey, skýrsla unnin af OV fyrir nokkrum árum  Orkuöflun í Flatey