Á Eyjaþingi Framfarafélagsins sumarið 2010 var rætt um þá framtíðarsýn sem þátttakendur hefðu til Flateyjar. Megið stefið var:„Gætt verði að jafnvægi manns og náttúru og horft til heildar og langs tíma. Náttúran verði sem ósnortnust og leitað stöðugleika milli náttúruverndar og frálsræðis í ferðum og aðgengi. Flatey verði eins sjálfbært samfélag og kostur er“.
Einnig höfðu þátttakendur m.a. þetta fram að færa um náttúruvernd og sjálfbærni:
-Draumur um vistvæna og sjálfbæra eyju,ósnortin og engin mengandi starfsemi.
-Sjálfbært samfélag, þ.e. flokkun sorps, molta og fara vel með orku og vatn.
-Sjálfbær orkuöflun; vindorka, sólarorka, heitt vatn, sjávarföll.
-Sjálfbær ferðaþjónusta.
Á síðustu misserum hefur verið unnið í ýmsum málum sem Eyjaþingið ræddi og tengist því að gera Flatey vistvæna og sjálfbæra. Þar má nefna úttekt á frárennslismálum, gerð göngustíga, úrbætur í sorpmálum og fleira.
http://www.flatey.com/efni/vistvaen_flatey
Orkubú Vestfjarða hefur stutt úttekt á kostnaði við lagningu rafstengs og vatnsleiðslu á milli Brjánslækjar og Flateyjar. Með rafsteng væri stigið stórt skref að útrýma olíu og þar með mengun við framleiðslu rafmagns og kyndingu húsa. Reikna má með að árlega séu brenndir yfir 100.000 lítrar af gasolíu í Flatey með tilheyrandi losun koltvísýrings.
Í samvinnu við Arkís arkitektastofu er boðað til íbúaþings um vistvænni Flatey þriðjudaginn 21.1.2014 kl. 20:00. Arkís-menn hafa kynnt sér aðferðir við mat á umhverfisáhrifum s.k. BREEAM Communities sem er viðurkennt matskerfi. Kerfið leitast við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif í skipulagi byggðar með leiðbeiningum og úttektum á verkþáttum skipulagsins. Kerfið er byggt upp á eftirfarandi flokkum:
-Climate and Energy (loftslag og orka)
-Place Shaping (bæjarmynd)
-Community(samfélag)
-Ecology (vistfræði og líffræðilegur fjölbreytileiki)
-Transport (samgöngur)
-Business (viðskipti og efnahagur)
-Buildings (byggingar)
-Recourses (auðlindir)
Á íbúaþinginu verður staða Flateyjar greind með hliðsjón af aðferðarfræði BREEAM Communities. Sú vinna felst í að greina eyjuna og gildandi skipulag hennar miðað við áðurnefnda flokka. Afraksturinn verður í formi skýrslu sem gefur mynd af því hvernig staðan er í dag og hvernig hún væri ef farið væri í ákveðnar aðgerðir með vistvæna orkugjafa sem aðalviðfangsefni.
Flateyingar eru hvattir til að mæta og ræða þetta brýna hagsmunamál.
Stjórnir Framfarafélags Flateyjar og Flateyjarveitna