Fréttir

Vegurinn í Flatey í hörmulegu ástandi

Holóttar götur

Í aðsendri grein frá Gunnari Sveinssyni er fjallað um ástand vega í Flatey.

Það er mjög langt síðan að ég hef séð þennan þjóðveg okkar númer eitt í eins lélegu ástandi og nú.  Nú verður SAGAFILM að gera eitthvað í þessum málum enda vill þetta ágæta fyrirtæki skila vel við eftir myndatökur.  Við skorum á forsvarsmenn SAGAFILM og talsmenn Reykhólahrepps að taka þetta mál föstum tökum og bregðast við snarlega um endurbætur og viðgerðir á vegi Flateyinga.

Það gekk mikið á í Flatey áður en kvikmyndatökur hófust og meðan á tökum stóð í maí mánuði. Ótrúlegt magn af leikmunum af öllu hugsanlegu tægi var flutt til Flateyjar í byrjun maí mánaðar.  Þar ægði saman munum eins tunnum, trjáspírum, netum, stömpum, stólum,náttgögnum og járnpottum, stillönsum og stigum, strigayfirbreiðslum, byggingarefni af öllu tægi, sérhannaðir leikhúsmunir, ljós og ljóskastarar, rafmagnsvél af stærri gerðinni, leiktjöld og skermar, batterí og geymar,  kvikmyndatökuvélar bæði stórar og smáar, tveir stórir sendiferðabílar, fjögur fjórhjól og bátar til að gera Grýluvoginn trúverðugan í mynd. Jafnvel sum hús í Flatey breyttu um útlit og voru máluð til hins verra og virtust eldast um tugi ára.  Allt þetta tilstand var síðan kórónað með miklum fjölda fólks er kom að þessari kvikmyndagerð (þáttagerð).  Hér ægði saman undirbúningsfólki, trésmiðum og málurum, leikmyndasmiðum, kokkum og matgerðarfólki, kvikmyndatökuliðið sjálft og aðstoðarfólki og síðast en ekki síst leikararnir á öllum aldri bæði þekktir og óþekktir sem kom sér fyrir í næstum helmingi húsa á eyjunni.  Og eins og þetta væri ekki nóg þá var fenginn farþegabátur að austan frá Seyðisfirði til að vera í stöðugum ferðum milli Flateyjar og Stykkishólms undir traustri stjórn Tryggva í Krákuvör.

Allt þetta mikla tilstand tók einn mánuð.  Maí mánuður með sinni rigningu og frekar leiðinlegu veðri en samt gerði uppstyttu við og við og glitti í sólina dagstund og dagstund. En áfram var haldið, "skotið" á hverjum degi hvernig sem viðraði, leikarar alltaf tiltækir í upptöku, leikmyndagerðafólk að færa til leikmuni og "gera klárt" fyrir næstu töku kannski á nýjum stað.  Það voru því sannarlega langir dagir í Flatey þennan maí mánuð.  En allt tekur enda og það átti einnig við kvikmyndatökuna í Flatey.  Um 20. maí var tökum lokið, megnið af fólkið hvarf af vettvangi og eftir stóð aðstoðarfólkið að taka niður, pakka og plasta og búa til flutnings og flytja allt þetta mikla magn sem nauðsynlegt er til kvikmyndagerðar niður á bryggju aftur.  Það voru vissulega röskir piltar sem þar stóðu að verki og þeir gengu vel frá. En í þessum góða frágangi gleymdist eitt.  Líflínan okkar frá bryggju og niður í Þorp var nánast í rúst. Holur og sumar djúpar, pollar og sumir stórir, brestur í vegi og rof, hjólför og uppspænd jörð.  Í stuttu máli; ástand vegarins var hörmulegt.  Ég tók mig til miðvikudaginn 30. maí og myndaði alla þessa hörmung (sjá neðst í grein) því oft segja myndir svo miklu meira en fáein orð.  Og dæmi nú hver fyrir sig.  Rætt hefur verið við sveitarstjóra Reykhólahrepps um málið og Ingibjörgu var sent fjölda mynda af ástandi vegarins.  Óskað var eftir að sveitarstjórn hafi samband við SAGAFILM og segi þeir af þessari stöðu. FFF hefur einnig haft samband við sveitarstjóra um þetta sama mál. Það grátlega við þetta mál er að Reykhópahreppur var búinn að fá fjárveitingu í vegaframkvæmdir og var vegurinn lagaðar og malarborinn áður enn kvikmyndaliðið mætti á staðinn og stóðu þeir Magnús í Krákuvör, Bjarni í Bergi og Baldur í Byggðarenda að þessum framkvæmdum með sóma.  Því miður entist þessi góða framkvæmd ekki lengi. Nú er komið að SAGAFILM og Reykhólahreppi að ganga í málið.

Með góðum kveðjum úr Flatey,
Gunnar í Eyjólfshúsi

Myndir teknar 30. maí 2018