Fréttir

Undirbúningur kvikmyndatöku í Flatey

Kvikmynd

Þessa dagana er í undirbúningi kvikmyndatöka í Flatey fyrir myndina Flateyjargáta.  Fyrirhugað er að byrja kvikmyndatöku í byrjun maí og stendur hún til 20. maí samkvæmt áætlun.

Með sanni má segja að Flatey sé að skipta um útlit og yfirbragð eftir því sem lengra líður á undirbúning fyrir kvikmyndatökuna. Viðræður hafa farið fram milli allmargra húseigenda og Sagafilm um afnot eða nærveru húsa þeirra í myndinni. Fengist hafa öll leyfi frá skipulagsyfirvöldum á Reykhólum og sveitarstjórn um tímabundna uppsetningu leikmuna á almenningssvæðum í Flatey og hafinn er flutningur á þessum munum til Flateyjar.  Vitað er að all nokkrir bátar koma hér við sögu og hafa fjölmargir bátar verið skoðaðir og ljósmyndaðir, fluttir verða örfáir bílar til eyjarinnar til að vera hluti af leikmyndinni og sömuleiðis má búast við að flestir traktorar í eyjunni leiki misjafnlega stórt hlutverk í myndinni góðu.

Það sem vekur einna mesta eftirtekt núna þessa stundina þegar komið er fram í miðjan apríl að sum hús í Flatey eru farin að skipta um lit.  Álitamál er hvort eyjaskeggjum þyki þessi litabreyting til bóta enda er hún aðeins tímabundin og síðar verða húsin máluð í sínum "réttu" litum.  Þessa mynd var tók Tryggvi í Krákuvör í síðustu viku þegar málarar og leikmyndasmiðir voru að eiga við Vog.  Að sjálfsögðu spurðu gárungar í Flatey "Skyldi Gummi Lár vita af þessu?"

Með góðum kveðjum úr Flatey
Gunnar í Eyjólfshúsi
gunnarsv@landspitali.is