Fréttir

Þegar bátarnir í Flatey hverfa á haustin

Blíðfari að fara úr Flatey 2015

Þegar fækka tekur smábátum í Grýluvogi og stærri bátar eru
horfnir af viðlegubólum sínum í Hafnarey, þá er haustið komið
í Flatey.  Þetta er viðburður sem er eins ársviss og þegar krían hverfur með stálpaða unga sína og ritan er horfin úr bjarginu í Höfninni.

Laugardaginn 29. ágúst kl 14:15 leysti Blíðfari landfestar og setti stefnuna á Oddbjarnarsker.  Það voru þeir Guðmundur á Myllustöðum og Gunnar í Eyjólfshúsi sem ætluðu að sigla þessu stolta fleyi alla leið til Keflavíkur þar sem þessi ágæti bátur hefur átt sína vetrarhöfn á umliðnum árum.

Komin til kveðja þessa tvo fræknu sjófarendur á bryggjunni voru þær Lína, Hrönn og Íris í Læknishúsi sem sögðust ætla að sjá til þess að þessir sjómenn færu ekki með allt vit úr Flatey.  Sjófarendur sögðu á móti að þó mikið vit væri í Flatey, myndu þeir aðeins taka örlítið af því með sér og ekki meira en svo að myndi  nægja til að sigla Blíðfara á áfangastað enda siglt eftir markaðri leið í plotternum góða sem nútíma sjófarendur reiða sig gjarnan á í langferðum sem þessum.  Auðvitað var smellt af mynd við brottför af Íris sem er aðal myndasmiðurinn í Flatey og myndin birt samstundis á Facebook svo allir mættu sjá.

Að sigla frá Flatey og kveðja um stund er alltaf ögn sorgmædd stund.  Að horfa á húsin hverfa smátt og smátt og að síðustu er Flatey sokkin í sæ er viss endir á góðri dvöl í Flatey en einnig byrjun á nýju ævintýri sem var auðvitað siglingin frá Flatey til Keflavíkur sem er u.þ.b. 110 – 120 sjómílur og miðað við gagnhraða Blíðfara tæki ca 11 – 12 tíma.    Eftir u.þ.b klukkustundar siglingu var siglt fram hjá Oddbjarnaskeri sem er afar sérstök sandorpin eyja 10 km til vesturs af Flatey og er það ótrúlegt að á þessari  tiltölulega litlu eyju hafi endur fyrir löngu verið ein mikilvægasta verstöð Breiðafjarðar og 1703 voru þar 27 verbúðir og 30 – 40 bátum róið þaðan.  Talið er að allt að 200 manns hafi dvalið í Oddbjarnarskeri þegar fjölmennast var.    Ekki er hægt að ná í vatn nema á blásandi fjöru úr heitri uppsprettu austarlega við eyjuna svo aðstæður til viðveru hafa bæði verið harðar og erfiðar hér fyrrum.  

Nú var stefnan leiðrétt og sett á djásn Snæfellsness, sjálfan Snæfellsnesjökul sem gnæfir 1446 m til himins og sést því víða að.  Nokkur umræða varð á milli formanns og aðstoðarháseta um nafnið á hæstu jökulþúfum jökulsins og voru menn ekki sammála þar um.  Hið rétta er að þær nefnast  Vesturþúfa (1442 m), Miðþúfa (1446 m) og Norðurþúfa (1390 m).  Á þessari leið var formaðurinn í hlutverki leiðsögumannsins og lifði sig svo inn í hlutverkið að hrein unun varð af.  Þuldi hann upp úr sér nöfn á öllum fjöllum, höfðum, hólum og klettum, fjörðum og víkum allt frá Bjarnarhöfn til Öndverðarness eftir því sem þessi kennileiti birtust á siglingunni fram hjá og fyrir Nesið.  Öndverðarnes er vestasti tangi Snæfellsnes og var þar áður mikil útgerð og fjölmargar þurrabúðir en ríkisjörðin fór í eyði 1945. Vitinn á nesinu hefur löngum lýst sæförum leiðina en hér við ströndina og við Svörtuloft hafa fjölmörg skip farist eða  lent í erfiðleikum.  Á Öndverðarnesi  er að finna merkilegan hlaðinn vatnsbrunn, Fálka, ævafornan sem er friðaður en niður í hann liggja 16 tröppur. Sagt er að í honum sé að finna þrjár ólíkar lindir.  Var ein með fersku vatni, önnur var með  einkenni ölkeldu og sú þriðja hafði keim af salti.

Fram hjá Svörtuloftum var siglt í ólgu sjó og nokkuð stríðum straumi en greinilegt var að mikið líf var í sjónum enda vaðandi makríl torfur og all nokkrir veiðibátar með „allar rúllur á lofti“ að eltast við þennan umdeilda fisk. Leiðsögumaðurinn komst á flug á nýjan leik og þuldi upp fróðleik um Neshraun, Beruvík, Hólahóla, Tröllakirkju og Dritvík.  Þegar innsiglingin inn í Dritvík opnaðist var sem formaðurinn væri kominn tvöhundruð ár aftur í tímann þar sem fræknir formenn sex- átt- eða jafnvel tíæringa voru að berjast við ölduna og brimið til að komast í örugga höfn.  Dritvik er stórmerkileg og forn verstöð. Talið er að útræði þaðan hafi byrjað um miðja 16. öld og haldist í þrjár aldir. Sagt er að allt að 500 til 600 vermenn hafi stundað sjósókn frá Dritvík þegar mest var. Hafist var við í um 10 þurrabúðum og ýmislegt gerðu verbúðarmenn sér til skemmtunar og var það helsta að reyna afl sitt til að afla sér virðingar og álitsauka.  Á Djúpalónssandi, rétt sunnan Dritvíkur eru nú þrír aflraunasteinar (voru reyndar fjórir hér fyrrum). Sá léttasti heitir Amlóði og er 23 kg, sá næsti er Hálfdrættingur og er 49 kg.  Svo kemur Hálfsterkur 140 kg og Fullsterkur 155 kg.   En nú er öldin önnur í Dritvík eins og Jón Helgason í kvæði sínu, Áfangar orti um þessa fornu verstöð;

Nú er í Dritvík daufleg vist,
drungalegt nesið kalda;
sjást ekki lengur seglin hvít
sjóndeildarhringurinn tjalda;
Tröllakirkjunnar tíðasöng
tóna þau Hlér og Alda;
Fullsterk mun þungt að færa á stall,
fáir sem honum valda.

Enn var siglt um stund í nokkuð stríðum straumi og Malarrifið nálgaðist óðfluga en þaðan var stefnan tekin beint yfir Faxaflóann til Keflavíkur.  Klukkan var nú orðin 19.00 og eftir fimm tíma siglingu frá Flatey var kominn tími til að huga nesti okkar sem frú Katrín í Eyjólfshúsi hafði tekið saman fyrir okkur af miklum  myndarskap.  Matarlistin var góð, nestið girnilegt og vel útlátið og var því gerð góð skil.  Vel mettir og kátir lögðu því þessir tveir sjófarendur á Faxaflóann og reiknað var með fimm tíma siglingu yfir og til Keflavíkur.  Það verður að segjast að tilbreytingalaust er að þvera þennan mikla flóa.  Skipasiglingar litlar sem engar á þessu laugardagskvöldi en líf í sjónum all nokkuð.  Hafði aðstoðarháseti á orði að lítið sæist til smáhvala eða stærri sjófugla.  Varla hafði hann sleppt orðinu þegar hnísur og höfrungar tóku að leika listir sínar fyrir framan og til hliðar við bátinn.  Þarna stukku smáhvelin upp úr sjónum og nánast „þurrkuðu sig“ í þessum stökkum sínum við mikinn fögnuð áhorfenda sem voru bara tveir.  Þegar þessari sýningu var lokið tóku súlurnar við og léku sér að stinga sér þráðbeint niður og koma upp með makríl í kjaftinum.  Stórkostleg kvöldsýning fyrir okkur  sjófarendur.

Nú var siglt og siglt og var skipts á um að stýra honum Blíðfara sem lét blíðlega að stjórn.  Jafnan var reynt að halda sig við uppgefna línu í plotternum en formaður hafði það jafnan á orði að aðstoðarhásetinn væri nokkuð vinstri sinnaður miðað við línu skipsins og uppgefna plotterslínu.  Þessu var jafnan svarað að þar sem aðstoðarhásetinn væri auk þess næst ráðandi á Blíðfara mætti hann fara örlítið eftir sínu eigin höfði í siglingu sinni.  Degi var nú óðum tekið að halla og myrkur kvöldsins að skella á og var haft á orði að gott væri að hafa tungl ljósið til að lýsa sér veg.  Og viti menn, óðar tók að rofa til á myrkvuðum himni og tunglið bjarta lét sjá sig og brosti bjart framan í okkur.  Voru menn þá kátir og vissu að karlinn í tunglinu myndi vísa þeim síðasta spölinn að Garðskagavita. Eftir fjögurra tíma siglingu yfir flóann tók  nú loks að sjá til Garðskagavita eða það töldu sjófarendur að minnsta kosti.  Tvær grímur fóru þó að renna á þessa vönu „sjóhunda“ þegar geisli vitans varð bæði grænn, blár, hvítur og gulur og einnig tóku ljóskeilur að birtast á dökkum himni þar sem vitinn átti að vera.  Rann nú upp ljós fyrir þeim tveim því þetta var flugeldasýning ein mikil í Sandgerði.  Svona getur myrkrið farið með menn og löngunin að sjá ljós Garðaskagavitans.

Síðasta spölurinn varð all ónæðisamur.  Aldan kom úr öllum áttum og varð formaður vor að taka á honum stóra sínum til að fara rétt í ölduna og hafði hann jafnan að orði „hvurs slags er nú þetta“ við hverja öldu. Hægt miðaði okkur því síðasta spölinn en örugglega nálguðust við Keflavíkurhöfn en greinilegt var að stórt skemmtiferðaskip sem var hér í nánd uppljómað vildi fara dýpri leiðina inn með Reykjanesinu.  Nákvæmlega kl 01.15 var Blíðfari í höfn, Habba komin til að sækja sjófarendur sem voru reyndar með vott að sjóriðu þegar stigið var í land.  Góður endir á góðri, fróðlegri og skemmtilegri sjóferð.

15. september 2015

Gunnar Sveinsson
Eyjólfshúsi, Flatey