Fréttir

Söfnun örnefna í Flatey og útgáfa bókar

Sumarsæla

Ævar Petersen kom í fyrsta sinn til Flateyjar 1974 til að skoða lifnaðarhætti teistunnar í Flatey og síðan hefur hann komið á hverju sumri. Samhliða fuglaskoðun í Flatey hefur hann ætíð haft hugann við örnefni í eyjunni og skráð þau niður ásamt staðsetningu þeirra og ljósmyndað. En Ævar er ekki einhamur því hann safnar póstkortum frá Breiðafirði, bókum, ritum og ritlingum um Flatey, Breiðafjörð og allt þetta svæði. Hann hefur verið óþreytandi að kynna ekki aðeins þann mikla fróðleik sinn um fugla og líferni þessara fiðraða vina sinna heldur einnig þrautseigju sína í örnefnasöfnun í Flatey. Þessu til staðfestingar sýndi hann fundargestum á aðalfundi FFF 3. mars s.l eitt elsta póstkort sem tekið hefur verið í Flatey frá um 1900 af skipi í Hafnarey.  Á málþinginu í frystihúsinu s.l. sumar greindi ÆP frá þessari örnefnasöfnun sinni jafnframt að hann hefur skrifað grein um málið í Árbók Barðstrendingafélagsins 2013. Enn fyrirlestur Ævars um örnefni sem hann flutti á aðalfundi FFF var í senn skemmtilegur, fræðandi og vakti upp margar spurningar.

Fyrirlestur Ævars um örnefndi í Flatey
Örnefni í Flatey og nálægum eyjum eru um 500 talsins og sum örnefni hafa breytt um nafn í áranna rás af ýmsum ástæðum. Eitt elsta örnefni sem ÆP hefur fundið er komið frá Ólafi Sívertssen og til marks um örnefni sem skipt hefur æði oft um nafn má nefna Túnmýri sem er mýrin ekki langt frá Vesturbúðum en hún hefur borið 8 nöfn í gegnum tíðina. 

Ýmis örnefni hafa horfið eins og t.d. Gyðulind sem var nánast í heimreiðinni að Krákuvör og var lind þessi nefnd eftir einsetukonu er Gyða hét.  Annað örnefni sem fáir kannast við er örnefnið Svunta sem er horfið með öllu.

Örnefni geta verið nefnd eftir eða tilkomin af fjölmörgum ástæðum;

 1. Landslagi; Tvíhyrningar, Mjósund, Þrísker.
 2. Starfsemi; Þýskuvör, Kauptorg, Ból, Skólabrekka.
 3. Staðsetningu;  Miðbær (milli kirkju og minnismerki um Sigvalda Kaldalóns), Hrólfsklettur.
 4. Dýr; Sýrey, Skeljavík, Kálfahlein, Svartbakssker.
 5. Fólk; Ömmugarður (nefnd eftir ömmu Siggu Boga), Skúlavör, Fjarðamenn.
 6. Atburðum; Spillir, Prestasker, Fjarðamenn, Appolone-grunn.
 7. Þjóðsögum; Útburðarsteinn (inn á ey gengt Akurey), Tröllendi (steindrangur sem ýtt var niður þegar frystihúsið var byggt)

Miðbær var landnámsbærinn í Flatey en talið var að hann hefði staðið þar sem öskuhóllinn er nú, austan kirkjugarðs en a.m.k. tvisvar hefur verið grafið í öskuhólinn. Bæjarhella þess bæjar er enn sýnileg við suð-austur horn kirkjugarðs.   Af öðrum gömlum bæjarnöfnum sem vert er að geta um eru Vesturbúðir, Fjósakot, Skemman, Miðbær, Austurbær, Garðar og Innstibær.

Af elstu mannvirkjum í Flatey má nefna Akurgerði, Skansinn þar sem Skansmýri er en Skansinn tekur nafn sitt af virki með fallbyssum hér áður fyrir eða fyrirstöðu eins og nafnið Skansmýri er tilkomin af fyrirstöðu til að safna vatni.

Í lok fyrirlesturs síns nefndi ÆP að vitað er um 51 vatnsbrunna í Flatey og staðsetningu þeirra en yngsti brunnurinn í Flatey er frá 2009.  Tilgreindi ÆP sérstaklega Ólafarbrunn sem er niður af Klausturhólum en uppi eru hugmyndir að grafa hann upp og endurgera í fyrri mynd.  Brunnur þessi er nefndur eftir Ólöfu ríku á Skarði en hún átti Flatey á fimmtándu öld.  Vonast er til að framkvæmdir við endurgerð þessa merka brunnar geti hafist strax næsta vor.

Fyrirlestur sinn skreytti Ævar með fjölda mynda af stöðum er bera örnefni en mikill fjöldi mynda ásamt lýsingu á viðkomandi örnefnum mun prýða væntanlega bók sem Ævar hefur í huga að gefa út sem fyrst ef nægilegur fjárstuðningur fæst.  

Útgáfa bókar um örnefni í Flatey – jólabókin í ár
Greint var frá því á aðalfundi FFF að stjórn FFF og sveitarstjórn Reykhólahrepps hefðu átt fund með Ævari Petersen eftir kynningarfundinn um Verndaráætlun í byggð 31. janúar s.l.  Þar kynnti ÆP hina fyrirhuguðu bók um örnefni í Flatey og voru fulltrúar FFF og Reykhóla sammála um að hér væri um mjög merkilegt framtak og starf varðandi söfnun örnefnda í Flatey að ræða og rétt væri að styðja útkomu þessarar bókar með aðkomu FFF og Reykhólahrepps að málinu.  Mánuði síðar á aðalfundi FFF var uppi mjög góð umræða um þetta mál og var eftirfarandi tillaga samþykkt einróma.

 1. Útgáfustyrkur frá FFF að upphæð allt að kr. 500 þús.
 2. Kaup á ákveðnum fjölda bóka fyrirfram.
 3. Áskorun til allra húseigenda í Flatey að kaupa ákveðin fjölda fyrirfram til að hafa í húsum sínum í Flatey.
 4. Áskorun til allra Flateyinga og velunnara Flateyjar að kaupa eintak til eigin nota.

Jafnframt er þeim tilmælum beint til annara félaga Flateyinga s.s. Flateyjarveitur, Flateyjarkirkja og fjáröflunarnefnd Flateyjarkirkju að styðja fjárhagslega útgáfu þessarar merku bókar.

 

Með góðum kveðjum úr Flatey
Gunnar í Eyjólfshúsi
gunnarsv@landspitali.is