Gunnar Sveinsson skrifar:
Það er alveg með einsdæmum hve Flateyingar eru duglegir að dytta að húsum sínum og gera vel við eignir sínar í Flatey. Tekið er eftir og umtalað hve húsin í Flatey eru velviðhaldin, fallega uppgerð og bera fagurt vitni um heilstæða fallega húsamynd fyrri tíðar.
Að undanförnu og á síðasta ári hafa fjölmörg hús í Flatey fengið mikla útlitsbetrun og „yfirhalningu“. Vil ég nefna hér nokkur dæmi um þessa góðu umhirðu húsa í Flatey.
Bentshús
Nú er unnið að viðamiklum viðgerðum að húsinu og eru það Baldur í Sunnuhvoli og hagsmiðir hans sem fara fimum smiðshöndum við þessar framkvæmdir. Nýr sökkull undir húsið hefur verið steyptur og hugað að öðrum undirstöðum hússins. Allt járn verður endurnýjað og þeir gluggar sem þarfnast lagfæringar verða endurnýjaðir. Búið er að „ofna“ húsið upp á nýtt og eru nú báðar hæðarnar tengdar hinni ágætu olíukynndingu hússins. Gaman verður að sjá Bentshúsið komið í sparibúninginn seinna í sumar enda er húsið mjög áberandi í húsröðinni á Bökkunum.
Bentshús var byggt 1871 af Bent Jónssyni (1830-1873) kaupmanni en hann drukkaði tveimur árum síðar á heimleið úr verslunarferð frá Danmörku. Húsið var í eigu ekkju hans Guðnýjar og son þeirra Jónas fram til 1894 er þeir Hallbjörn Bergmann (1855-1925) skipstjóri og Jóhann Guðjón Arason (1864-1925) skipstjóri á skútunni á Arney ásamt konum sínum kaupa húsið. Sigfús Bergmann kaupfélagsstjóri bjó síðan á efri hæðinni en Guðmundur Jóhannesson frá Skáleyjum á þeirri neðri. Núverandi eigendur eru afkomendur Ögmundar Ólafssonar skipstjóra og Sigfúsar Bergmann.
Vinaminni
Verulegar umbreytingar hafa orðið á Vinnaminni á síðasta ári og það sem er af þessu ári. Fagmaðurinn Baldur í Sunnuhvoli og hans eðalsmiðir hafa sett nýtt járn á húsið allt, nýir gluggar, útihurð og pallur við vesturhlið hússins og eru þessar framkvæmdir hrein listasmíð. Unnið hefur verið kappsamlega að viðgerðum, innréttingum og uppgerð innanhúss og hefur Óskar og Helga og öll hin er tengjast Vinaminni ekki unnað sér hvílar í þessum verkum sínum. Gaman hefur verið að fylgjast með endurreisn Vinaminnis sem er sannkallað staðarprýði fyrir húsin á Bökkunum.
Húsið var byggt 1908-1909 af Guðmundi Guðmundssyni (1883-1962) kaupmanns en kona hans var Jensína Henríetta skáldkona (1886-1955) dóttir Hermanns S. Jónssonar skipstjóra í Hermannshúsi. Vinaminni var í reynd tveggja bursta og nefndist nyðri burstin Bakki en hin syðri Vinaminni og voru þetta því í reynd tvö hús.
Strýta
Valdimar hefur svo sannarlega staðið í ströngu við að byggja upp Strýtu síðastliðið sumar og hefur Helgi í Grænagarði lagt gjörva hönd á þetta mikla verk. Allt járn hefur verið endurnýjað og skipt um glugga í þessu fallega húsi. Nú er komið snoturt geymsluhús við hlið Strýtu til austurs sem fellur ágætlega inn í húsamyndina. Strýta hefur alla tíð verið annálað fyrir gott útlit og umgengni alla enda margverðlaunað umhverfisverðlaunum.
Strýta var byggt 1918 af Magnúsi Jónssyni vélstjóra. Húsið var síðar á því ári flutt suður á ey. Þar var steyptur grunnur undir húsið og ein hæð og af lögun þess og hæð fékk húsið nafnið Strýta en hét áður Jaðar. Núverandi eigendur Valdimar og Guðrún keyptu húsið 1975 og flutti það 1977 á Bakkana vestan við Svínabæli.
Einarshús
Þetta sérkennilega fallega hús á vegarenda til austurs hefur nú fengið endurnýjun á öllu járni á þaki hússins. Hörður var snöggur eina langa helgi í fyrra sumar að svifta gamla járninu af húsinu og nýtt járn var komið á áður en hendi var veifað. Húsið var síðan málað hátt og lágt þannig að staðarprýði er af þessu síðasta húsi Flateyjar til austurs. Vel og fagmannlega staðið að verki hjá Einarshúsfólki.
Einarshús var byggt 1906 af Einari Jónssyni (1866-1944) sjómanni. Seinna var húsið stækkað til norðurs og þakinu lyft. Af þessari breytingu fékk húsið viðurnefnið Skrína. Sonur seinni konu Einars, Guðríðar Sigurðardóttir var Þórður Valgeir Benjamínsson (Doddi Ben) er var bóndi í Hergilsey og fluttist til Flatey í Vesturbúðir 1946.
Félagshús (Hermannshús)
Í fyrra haust tóku Helgi í Grænagarði og fagmenn hans að huga að nýju járni fyrir þetta elsta hús í Flatey og voru tveir nýir fallegir kvistar settir á húsið norðanvert. Setur þetta skemmtilegan svip á elsta húsið í Flatey sem talið er byggt 1833 – 1836.
Félagshús var reist sem íbúðarhús Guðmundar Bjarnsonar Schevings (1776-1837) kaupmanns og útgerðarmanns í Flatey er var fyrrverandi sýslumaður og amtsmaður fyrir Barðastrandasýslu. Guðmundur var frumkvöðull þilskipaútgerðar í Breiðafirði og þegar 1830 gerði hann út þrjú þilskip og keypti nokkru síðar 36 lesta skútu frá Danmörku til millilandasiglinga. Árið 1838 gekk Brynjólfur Bogason Benedictsen að eiga Herdísi dóttur Guðmundar og tók við öllum rekstri tengdaföður síns.
Klausturhólar
Nú standa yfir umfangsmikil verk að skipta um allt járn á Klausturhólum undir verkstjórn Helga í Grænagarði. Hafist var handa um síðustu helgi (5. – 7. júní). Hratt var unnið og vel haldið sér að verki enda hafa þegar tvær hliðar (norður og austur) tekið miklum stakkaskiptum. Á næstu vikum verður síðan hinar hliðarnar teknar og kláraðar.
Aðdáunarvert er að fylgjast með hve mikið hefur verið gert fyrir þetta áberandi hús í Flatey. Allar undirstöður hússins og sökkull steyptur upp og styrktur. Kjallarinn dýptkaður og gerður manngengur, mikið unnið innandyra, nýrri olíukyndingu komið fyrir, lóðin tekin rækilega í gegn og geymslur grafnar haganlega í jarðarbarð svo vel fellur í umhverfið. Vel að verki staðið hjá Klausturhólafólki.
Húsið var reist árið 1899 af séra Sigurði Jenssyni (1853-1924) og konu hans Guðrúnu Sigurðardóttir en húsið kom tilhöggvið frá Noregi. Sigurður var prestur Flateyinga í fjörutíu ár, prófastur fyrir Barðastrandaprófastsdæmis og þingmaður Barðstrendinga í 12 ár. Sonur þeirra hjóna, Jón Sigurður tók við búinu 1921 en kona hans Sigríður rak síðan búið eftir lát hans 1924 og var jafnframt póst- og símstöðvarstjóri fram til 1954 þegar hún fluttist til Bandaríkjanna.
Grænigarðsbrunnur og Klofningsviti
Af öðrum framkvæmdum í Flatey má nefna framkvæmdir á vegum Flateyjarveitna við uppbyggingu dæluhúss við Grænagarðsbrunn og núna standa yfir framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar við Klofningsvita sem reistur var 1926. Vaskur hópur manna kom í síðustu viku til verka. Ráðgert er að gera við steypuskemmdir á vitanum og hann málaður og steypt verður í tröppur upp að vitanum og þær lagfærðar. Erfið suðvestan átt og þungur sjór hefur þó tafið þær framkvæmdir örlítið.
Framkvæmdagleði Flateyinga er talandi dæmi um umhyggju þeirra og þann hug sem húseigendur bera til Flateyjar
Fréttaritaði heimasíðu Framfarafélags Flateyjar
Gunnar í Eyjólfshúsi