Laugardaginn 22. júlí verður haldið málþing á Frystihúsloftinu í Flatey undir yfirskriftinni „Flatey – Horft um Öxl". Á málþinginu munu níu fornleifa- og sagnfræðingar flytja ákaflega áhugaverð erindi sem engin áhugamanneskja um Flatey má láta fram hjá sér fara. Fyrirlestrarnir hefjast kl. 9:00 og standa til kl. 16:30, með hádegis- og kaffihléum. Að loknum fyrirlestrum verða pallborðsumræður og er áætlað að þeim ljúki kl. 17:30. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
Sunnudaginn 23. júlí er svo stefnt á vettvangskönnun um Flatey frá 9:00-12:00 þar sem kíkt verður á gamlar mannvistaleifar.
Allir leggjast á eitt!
Til að lágmarka kostnað hafa aðstandendur málþingsins leitað til fyrirtækja og einstaklinga varðandi ýmiskonar stuðning. Allsstaðar hefur verkefninu verið mætt af velvilja og ber að þakka fyrir það. Þess ber einnig að geta að allir fyrirlesarar gefa vinnu sína – kærar þakkir fyrir það öll sem eitt.
Getur þú hýst fyrirlesara?
Eins og áður sagði þá er reynt að spara allsstaðar í verkefninu og er gisting þar ekki undanskilin. Ef þú og þín fjölskylda hefur tök á að hýsa fyrirlesara í eina eða tvær nætur helgina sem málþingið fer fram (21.-23. júlí) þá máttu endilega hafa samband við Gyðu Steinsdóttur í síma 862-4369, gydast@simnet.is eða í skilaboðum á Facebook.
Tímasett dagskrá og upplýsingar um erindi má nálgast hér.