Fréttir

Fundarboð á samráðsfund um þorpið í Flatey

verndarsvaedi_i_byggd

Vegna tillögugerðar um verndarsvæði byggðar í Flatey er boðað til samráðsfundar með fulltrúum fasteignaeigenda í þorpinu og ábúenda í Flatey, miðvikudaginn 31. janúar nk. kl. 17:00-19:00.

Reykhólahreppur vinnur nú að mótun tillögu um að þorpið í Flatey verði gert að verndarsvæði í byggð í samræmi við lög nr. 87/2015 um slík verndarsvæði. Lögin gera ráð fyrir að unnin sé tillaga til mennta- og menningarmálaráðherra sem ákveður hvort gera skuli svæðið að verndarsvæði í byggð. Með því að leggja til að byggðin í Flatey verði gerð að verndarsvæði á grundvelli laganna vill Reykhólahreppur festa verndun svæðisins í sessi en Þorpið í Flatey er mikið menningarverðmæti fyrir Íslendinga.

Til að vinna að framangreindri tillögugerð hefur sveitarfélagið skipað stýrihóp og fengið ráðgjafarfyrirtækið Alta sér til aðstoðar. Verkefnið er unnið samkvæmt leiðbeiningariti Minjastofnunar Íslands um verndarsvæði í byggð. Í vinnslu er greinargerð þar sem gerð er grein fyrir mati á varðveislugildi byggðarinnar samkvæmt Byggða- og húsakönnun fyrir Flatey sem unnin var árið 2006 og endurbætt 2017. Á grunni þess mats verða settar fram tillögur að skilmálum um vernd og uppbyggingu. Viðfangsefni samráðsfundarins þann 31. janúar nk. er að leita sjónarmiða um viðfangsefni og nákvæmni skilmálanna.

Í kjölfar fundarins verður gengið frá tillögudrögum og þau send til umsagnar fasteignaeigenda og annarra hagsmunaaðila og kynnt á vef. Að þeim kynningartíma loknum verður gengið frá endanlegri tillögu og greinargerð og hún auglýst opinberlega í samræmi við lög um verndarsvæði í byggð. Þá gefst 6 vikna athugasemdafrestur áður en gengið verður endanlega frá tillögu og greinargerð til ráðherra.

Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 31. janúar kl. 17-19, hjá Alta í Ármúla 32, 3. hæð. Mikilvægt er að einn fulltrúi frá hverju húsi í þorpinu taki þátt í fundinum og er óskað eftir staðfestingu á þátttöku á netfangið matthildur@alta.is fyrir 26. janúar 2018.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á með því að smella þennan kynningarvef hér, en fréttir af framgangi verkefnisins verða birtar þar.

F.h. stýrihóps Reykhólahrepps um tillögu að verndarsvæði í byggð í Flatey

Gyða Steinsdóttir