Gunnar Sveinsson í Eyjólfshúsi skrifar: Í hugum fjölmargra Flateyinga er Flateyjar-Freyr trékarl austast á eyjunni sem er búinn að standa þar fyrir veðri og vindum um tugi ára. Í hugum barna og unglinga er þessi sami Freyr ”tippakarlinn” sem gaman er að heimsækja á sólríkum dögum og setja skeljar við og hengja á hann þara og fjörugróður. En í rauninni er Flateyjar-Freyr svo miklu, miklu meira og saga hans bæði margslunginn og áhugaverð þannig að nauðsynlegt er að halda henni á lofti. Listaverkið Flateyjar-Freyr var gert af listamanninum Jóni Gunnari Árnasyni og var komið fyrir nærri þeim stað austast á Flatey sem heitir Torta en fáir þekkja með nafni.
Tilurð Flateyjar- Freys má leita aftur til sjöunda áratugs síðstu aldar þegar fjölmargir þá ungir og lítt þekktir listamenn, sem margir hlutu seinna almenna og jafnvel alþjóðlega viðurkenningu, listaspírur sem léku sér við listagyðjuna og náttúruskoðendur sem voru á undan sinni samtíð, sóttu Flatey heim og héldu þar til í mislangan tíma. Þetta var tími óformlegrar listsköpunar, leit að hinu margræða listformi, vangaveltur og íhugun um nútíð og framtíð í faðmi náttúrunnar og óhefts bóhemslífs þar sem ystu mörk tilverunnar voru könnuð. En þetta var líka tíma frjórra hugrenninga um endurreisn Flateyjar sem urðu kannski fæstar að veruleika.
Einn þessara listamanna var Jón Gunnar Árnason sem dvaldi löngum í Flatey yfir sumartímann á árunum 1973 – 1983. Hann átti jafnan hússkjól í Vertshúsi hjá Ólafi Jónssyni sem átti húsið á þessum tíma. Jón Gunnar var fæddur í Reykjavík 15. maí 1931 en dáinn 21. apríl 1989. Foreldrar hans voru Helga Jónsdóttir, ættuð úr Húnaþingi og Árni Steinþórsson ættaður af Austurlandi. Árni var bílstjóri og síðar verkstjóri hjá Olíufélaginu hf. Stefanía móðir Árna var systir Magnúsar skálds Stefánssonar (Örn Arnarson). Jónas Jakobsson, myndhöggvari á Akureyri var skyldur Jóni Gunnari í móðurætt.
Í æsku og á sínum yngri árum kynnist Jón Gunnar fjölmörgum listamönnum, skáldum og fagmönnum sem settu mark sitt á hann sem listamann. Nefna má Örn Arnarson, Halldór Kiljan Laxness, Ásmund Sveinsson, Kurt Zier, Árna Elfar, Kjartan Guðjónsson, Þorvald Skúlason o.fl. Snemma nam Jón Gunnar járnsmíði og gerð gripa úr járni og öðrum málmi. Hann öðlaðist síðar meistararéttindi í vélvirkjun frá Iðnskólanum í Reykjavík. Teikningu nam hann í Handíða- og myndlistaskólanum og enn frekar undir handleiðslu Ásmundar Sveinssonar við Myndlistaskólann í Reykjavík þar sem hann var farinn að mála og móta myndir úr gifsi.
Fyrsta sýning Jóns Gunnars á listaverkum sínum var 1953 á Haustsýningu FÍM í Listamannaskálanum er hann sýndi járnskúlptúr. Næstu árin einkenndust af listaverkasköpun í anda nytjastefnunnar með rekstri Aluminiumsmiðju og síðar málmsmíða- og hönnunarfyrirtækis sem og nytjahlutaframleiðslu í samstarfi við Svein Kjarval. Árið 1955 gerði hann gráturnar í Bessastaðakirkju eftir teikningum Guðmundar frá Miðdal og síðar grátur í Skálholtskirkju eftir teikningum Sveins Kjarval. Um þetta leiti var hann viðloðandi Glit keramíkverkstæði Ragnars Kjartanssonar þar sem Guðmundur Páll Ólafsson síðar í Vorsölum í Flatey var við nám. Skömmu fyrir 1960 kynnist hann Dieter Roth sem vakti athygli hans á kínetískum verkum þeirra Agams, Soto og Tinguely. Segja má að upp úr 1960 fari listamannaferill Jóns Gunnars á flug á sviði hreyfilistar m.a. með verkinu Elementskúlptúr sem er verk í 120 hlutum og síðar með þátttöku í alþjóðlegri sýningu á hreyfilist Bewogen – Beweging fyrir tilstilli Dieters Roth. Árið 1962 hélt hann sína fyrstu einkasýningu á Mokka með hreyfanlegum verkum og brenndum teikningum. Þessi ár einkenndust af mikilli gerjun í listamannaferli Jóns Gunnars. Hann reyndi sig við gerð steinda glermynda, aðstoðaði fjölmarga listamenn við gerð og stækkun listaverka, stóð að nytjalistaframleiðslu og rekstri listaverslunar. Um þetta leyti kom fram svo kallaður Explósíonismi og Jón Gunnar velti fyrir sér notkun á ljósum og ljósbroti í myndverkum sem hann átti síðar eftir að útfæra í Flatey árið 1974. Árið 1965 tók Jón Gunnar þátt í samsýningu í Ásmundarsal og á Mokka sem síðar hlaut heitið ”fyrsta SÚM-sýningin” og æ síðar er Jón Gunnar sagður með réttu vera einn af fyrstu ”Súmurum” hér á landi. Á seinni hluta sjötta áratugsins komu úr listasmiðju Jóns Gunnars listaverk úr ryðfríu stáli, málmplötum og víraverki eins og lágmyndirnar Stálfiskur, Hjartað og Radar sem er hreyfanlegur vírskúlptúr og síðar Sólargeisli, útiskúlptúr úr ryðfríu stáli og graníti og enn síðar Augað sem sett var upp á Hagatorgi árið 1970. Fyrir þá sem vilja kynna sér æviferil Jóns Gunnars betur, bendi ég á bókina ”Hugarorka og sólstafir” sem Listasafn Íslands gaf út árið 1994.
Árið 1973 tók Jón Gunnar að venja komur sínar til Flateyjar að sumarlagi og dvelur hann nær oftast í Vertshúsi en allt til ársins 1983 kom hann á hverju sumri til Flateyjar.
Nú er rétt að gefa Guðmundi Páli Ólafssyni vini Jóns Gunnars orðið, en hann skrifaði listavel um listamanninn í minningargrein og síðar í bókinni Hugarorka og sólstafir sem kom út árið 1994.
Einu sinni sté galdramaður á land í Flatey. Hann hafði aðsetur í Vertshúsi. Enginn vissi þá hve göldróttur hann var og þess vegna var ekki tekið á móti honum með þeirri lotningu og viðhöfn sem ber að sýna galdramönnum. Viðmót hans var svolítið framandi og mörgum óþekkt stærð og það var verst.
Í kringum hann var ætíð líf og þróttur og spenna frumleika og óvissu. Hann lék sér á því sviði myndlistar og mannlífs sem er spennusvæði, jafnvel á svæði háspennu og lífshættu. Lognmolla, aðgerðarleysi og væl voru dauðasyndir. Hann var hættulegur vegna þess að hann hafði sterk áhrif á fólk og gat sprengt í þeim öryggin. Það komst enginn undan áhrifum.
Og maðurinn ögraði umhverfinu án þess að hafa nokkuð fyrir því. Hann bar enga virðingu fyrir búvenjum sem byggðust á hugmyndafátækt; hann gerði gys að búhokri í aldingarði eyja þar sem gullin tækifæri blasa við á alla vegu aðeins ef ímyndurnarafli og hugviti er beitt. Hann var stríðinn og fljúgandi glettinn. Viðmótið var jafnan vinalegt en tungutakið gat líka orðið glannalegt ef svo bar undir – ekkert fagurgalakjaftæði. Áran var kynngimögnuð og þegar álög Flateyjar beindust að honum sjálfum varð allt umhverfið geislavirkt.
Hér lýsir Guðmundur Páll listamanninum Jóni Gunnari Árnasyni listavel og af innsæi en þeir þekkust vel til margra ára og störfuðu saman . Enn skulum við grípa niður í fyrnagóða lýsingu Guðmundar Páls á Jóni Gunnari:
Hinn dverghagi Jón Gunnar kunni bókstaflega skil á öllu efni og hann kunni til verka ólíkt betur en sumir okkar, enda var viðkvæðið; ”Tommeltott! Hvers konar verklag er þetta?” Hann kenndi okkur en sá einnig leiðir út úr ógöngum sem öðrum var hulinn dómur. Hann las efnið. Og allt í einu varð umhverfi eyjanna uppspretta hugmynda þar sem saman fóru lífsviðhorf, list og glaðværð, og endurvakning eyjalífsins. Sjálfur Freyr settist að inni á Tortu og Flatey varð sá miðdepill jarðar sem gerði sólina bjartari. Hún var ”Ultima Thule”, Óskaland. Hún öðlaðist aftur aðdráttarafl eins og á dögum hámenningar í Flatey hundrað árum fyrr. Fólk kom úr öllum áttum. Orkan var komin á staðinn.
Það var sumarið 1973 að Jón Gunnar fann rekaviðadrumb rekin á fjöru í Flatey. Úr þessum drumbi sem var kominn langt að skar hann úr listaverkið Flateyjar-Frey. Í umsögn Ólafs Gíslasonar um listaverk Jóns Gunnars segir hann:
Flateyjar-Freyr er díonýsísk hugmynd, enda var frjósemisguðinn Freyr einn af Vönum og hafði ekki stöðu Ása. Afstaða hans til Ása var hliðstæð afstöðu Díonýsosar til Apollós. Annar var fulltrúi hinnar villtu náttúru og hinnar óbeisluðu frjósemi, hinn var fulltrúi hins stranga lögmáls sólarinnar og hins fullkoma skilnings. Flateyjar-Freyr er helgimynd, sem ætluð er til fórnarathafna. Eyjarbúar fengu sér gjarnan gönguferð út á Tortu til að færa Frey fórnir, og meðal þeirra var Guðbergur Bergsson, sem birti ljóðfórnir sínar til Freys í ljóðabókinni ”Flateyjar-Freyr” en bókin var tileinkuð Jóni Gunnari. Freyr var feyskinn og mjög jarðneskur í útliti, enda búinn að velkjast um úthöfin áratugum saman áður en hann hafnaði í Flatey. Verkið Flateyjar-Freyr var frá hendi Jóns Gunnars eins konar listfórn til hinnar jarðnesku moldar og myrkrar frjósemi hennar.
Annað verk eða umhverfisverk gerði Jón Gunnar vorið 1974 sem var konseptverkið ”Að gera sólina bjartari” en það var spegilverk þar sem hugmyndin er að gera rýmið í Alheiminum og sólarorkuna að efniviði og inntaki listaverksins. Hér notaði listamaðurinn spegla sem hann staðsetti á nákvæmlega útreiknuðum stöðum og með réttum halla, þannig að þeir mættu endurvarpa sólargeislum með ákveðnu millibili frá jörðinni til sólarinnar. Segja má að þetta listaverk hafi í eðli sínu verið fórnarathöfn sem helguð var sólguðnum Apolló. Fyrirferð listaverksins var lítil sem engin en efniviðurinn var sólarorkan og rýmið sem hún fyllir og veitir líf. Um þetta umhverfisverk sagði Jón Gunnar:
”Sumstaðar á Íslandi nýtur ekki sólar langan tíma ár hvert. Þetta vakti mér hugmynd um að gera sólina bjartari. Um vorið 1974 gerði ég umhverfisverk í Flatey á Breiðafirði, ég kom fyrir fjórum speglum sem sneru mót höfuðáttunum. Þegar sólin skín á speglana endurkastast geislar hennar til baka og hún verður bjartari. Hnattarstaða verksins er; v.1.22°54’48‘‘ og n.br. 65°22‘42‘‘
Þessu listaverki var komið fyrir í Flatey þá um sumarið en því miður urðu afdrif þessa listaverks ”að ungir, skotglaðir menn skutu niður speglana sem gerðu sólina bjartari og Freyr var rændur frjóseminni” eins og Guðmundur Páll komst að orði árið 1994 í bókinni Hugarorka og sólstafir þar sem hann fjallaði um Jón Gunnar Árnason.
Sumarið 1973 dvaldi Guðbergur Bergsson ljóðskáld og rithöfundur í Flatey. Þegar Jón Gunnar hafði fært Flateyjar-Frey á stall inn við Tortu tók Guðbergur að færa líkneskinu ljóðfórnir. Gefum Guðbergi orðið þegar hann rifjar upp þennan tíma:
SÚM hélt sýningu á Fodor-safninu í Amsterdam árið 1973 og síðan fer ég heim til Íslands um vorið og er þá heimilislaus. Í gegnum Nínu Björk og Braga Kristjónsson kemst ég í hús sem heitir Hölluhús. Þá voru mörg auð hús í Flatey og Hölluhús hálfgerð rúst. Loftið var fallið niður en það var olíukynding þarna. Og Jóhannes, annar bóndinn í Flatey, hjálpaði mér við að láta olíukyndinguna í gang. Þannig að það var hlýtt eða þannig. En í raun og veru var ekki hægt að búa í svona húsi. Það var ekkert borð en ég fann gamla hurð sem ég notaði til að vinna við. Svo voru sjaldan bátsferðir á milli og oft erfitt að ná í mat. Og þá þurfti ég að læra að baka og komst líka upp á lagið með að borða njóla. Og blöðin af njólanum eru voðalega góð.
Síðan yrki ég þessi ljóð í Flatey. Jón Gunnar Árnason bjó til höggmynd af Frey og lét hana í smá gil og síðan fór ég þangað á hverjum degi með einhverja hugsun. Og þar sem hugsunin átti að vera eldfim klauf ég eldspýtu og lét smá renning á milli, efni sem var klofið og lét þetta í krukku fyrir framan Frey. Þetta var ljóðfórnarkrukka. Ég hafði búið til nokkrar krukkur áður og sýnt þær, en þær seldust.
Síðan fer ég með þetta til Reykjavíkur. Og þetta er auðvitað ófullburða; þetta var bara ein hugsun. Og síðan skipulagði ég hana. Nú, þar sem þetta voru eldspýtur og brennisteinninn enn á eldspýtunni hefði ég getað kveikt í einni og allt fuðrað upp. Þá hefði eyðileggingin tekið við eins og skot. En síðan ákveður þú að eyðileggja ekki og láta eldinn ekki ráða, heldur hugsunina. Og ég í þessu tilviki skipulagði og setti saman.
Óljóst er mér
Freyr
og óskiljanlegt
að þú
sem ert hlutur
eða
öllu heldur
og réttara sagt
trédrumbur
úr sæ
skulir ekki vera
tignaður af öllum
og tekinn í guða
tölu
hlutadýrkenda
þessa heims
dýrkunar hluta og flata
ætíð lofaður
af efnishyggjumönnum.
En Freyr það vinnur
gegn helgun þinni og dýrkun á þér að þú ert
ekki eingöngu og aðeins rekadrumbur hlutur heldur
djúpsins tré dregið úr sæ og höggið
af list og lagað af huga manns í mynd
og auðgaður af leyndarmáli djúps og óræðis
leynd og þess vegna ert þú getnaðarins tákn
og gæla hugans frjóseminnar
———————–
Freyr,
hugurinn
einn
sjálfum sér nógur og einn,
Freyr,
úti á einhverjum svefneyjum
og talar upphátt í svefni
sjúkur.
Við þekkjum þær iðjagrænu eyjar
í botni breiðs fjarðar,
Freyr.
Við útkomu ljóðabókarinnar Flateyjar-Freyr sem kom út á vegum Máls og menningar 1978 sagði Guðbergur að þetta séu ljóð um hrörnun og frjósemi og eftirfarandi er haft eftir honum í Morgunblaðinu þegar bókin var endurútgefin árið 2008.
Þegar ég kom til Flateyjar var allt í niðurníðslu þar. Og þessi ljóð um Flateyjar-Frey eru á vissan hátt um hrörnun eyjunnar og líka um frjósemina sem var það í eina tíð. Þannig að þetta rís einhvern vegin upp úr Frey sem er guð frjóseminnar en hann er líka sá sem eyðileggur. Þannig á vissan hátt er þetta táknrænt, ekki bara táknfræðileg ljóð, ekki bara um Flatey, heldur líka almennt um heiminn og Ísland á þessum tíma. Sem var að leggjast mjög mikið í eyði.
Í Flatey var blómleg byggð en síðan fór fólkið og skildi húsin eftir. Og nú er þetta orðið fallegt byggðarlag þar sem nýja yfirstéttin á Íslandi – peningastéttin- býr til kvikmyndir. Núna eru þarna vel settir listamenn sem fara þangað til að búa til rándýrar bíómyndir, uppá margar milljónir, þar sem við bjuggum áður og áttum ekki krónu. Svona breytist tíminn.
Fjörutíu árum seinna stendur Flateyjar-Freyr enn á Tortu á austasta stað Flateyjar. Þó þetta sé friðsæll og heldur fáfarinn staður leggja fjölmargir Flateyingar og gestir í Flatey leið sína þangað til að horfa á og njóta, hugsa um forgengileika allra hluta, færa Frey svolitla fórn og hugsa til þess listamanns sem kom og dvaldi í Flatey sumarlangt um tíu ára skeið. Listamaður með miklar hugmyndir og draumsýnir um framtíð Flateyjar. Fæstar urðu þær að veruleika vegna þess ”að blessaðir karlarnir vildu eitthvað annað”
Í dag er Jón Gunnar þekktur sem listamaður. Orðstýr hans hefur víða borist og hann hefur öðlast alþjóðlega viðurkenningu og fjölmörg listaverk hans hafa verið sett upp á almannafæri og njóta aðdáunnar. Eitt þekktasta verk hans er Sólfarið sem stendur á stalli við Skúlagötu í Reykjavík. Ímynd víkingaskips gert úr stáli sem snýr stafni til sjávar og til Esjunnar, einkennistákni Reykjavíkur. Sólfarið er í senn óður til sólarinnar og felur í sér fyrirheit um ónumið land, von, framþróun og frelsi. Frelsið sem Jón Gunnar upplifði í Flatey forðum daga.
Ástæðan fyrir því að þessi orð eru sett á blað er að okkur Flateyingum ber skylda til að halda í heiðri og varðveita þetta góða listaverk sem Flateyjar-Freyr er og gera því vel. Legg ég til að Framfarafélag Flateyjar beiti sér fyrir að reisa Flateyjar-Frey til vegs og virðingar á nýjan leik, færa listaverkið í sitt upprunalega útlit enda fjölmargar ljósmyndir til af því frá árdögum þess. Sjálfsagt er að koma fyrir krukku að hætti Guðbergs þar sem gestir geta fært Flateyjar-Frey sínar ljóðfórnir og Framfarafélagið ætti að halda þeim til haga og vinna úr þeim. Þetta gæti orðið skemmtileg lesning og framlag ferðamanna til menningar í Flatey. Setja mætti upp náttúrulegan viðarbekk þar sem fólk gæti sest niður og huga þarf að umhverfi Flateyjar-Freys í heild sinni og skapa listaverkinu verðuga umgjörð sem það á skilið eftir öll þessi ár. Gaman væri að setja upp upplýsingaskilti um þetta einstæða listaverk og þann snjalla listamann sem skapaði þetta eina listaverk sem enn stendur í Flatey. Einnig væri tilvalið að setja á heimasíðu Framfarafélagsins á einn stað upplýsingar um þetta einstæða listaverk, listamanninn sem skóp það og myndir af Flateyjar-Frey frá mismunandi tímum til að sjá breytingar sem orðið hafa á útliti og ástandi frjósemisguðsins í gegnum árin. Tilurð og saga Flateyjar-Freys er hluti af sögu Flateyjar og þá sögu ber okkur að varðveita og halda á lofti.
11. ágúst 2015
Gunnar Sveinsson
Eyjólfshúsi, Flatey
Heimildir;
Minningargreinar um Jón Gunnar Árnason í MBL 1989
Hugarorka og sólstafir – Listasafn Íslands 1994
Flateyjar-Freyr; Guðbergur Bergsson, Mál og menning 1978
Um sólstöður – grein Guðmundar Páls Ólafssonar í Hugarorku og sólstöfum 1994
Eftirmæli um Jón Gunnar Árnason – grein Guðmundar Páls Ólafssonar í MBL 1989
Jón Gunnar Árnason – hin kosmíska listsýn; Snorri Freyr Snorrason, Háskóli Íslands-hugvísindasvið 2011 (ritgerð til B.A.-prófs)