Á heimasíðu Framfarafélagsins hafa birst nokkrir pistlar eftir Gunnar Sveinson í Eyjólfshúsi um bækur tengdar sögu Flateyjar. Gunnar er mikill áhugamaður um málefni Flateyjar og í pistlum sínum hefur hann tengt saman söguna við nútimann. Skrif Gunnars á heimasíðu félagsins er okkur hinum hvatning um að taka upp pennann og setja á blað hugrenningar okkar um Flatey, bæði menn og málefni
Gunnar Sveinsson hefur orðið:
Jökull Jakobsson lýsir Þorpinu í Flatey með einkar myndrænum og fallegum hætti í bók sinni Síðasta skip suður sem skrifuð var fyrir fimmtíu árum síðan.
Símstöðin stendur á dálítilli klettabrún og hér liggur vegurinn niður í plássið sjálft. Héðan sjáum við yfir þetta litla þorp sem hniprar sig saman við vörina þar sem skúturnar lágu áður fyrr.
Húsin standa saman í hnapp, flest tvílyft timburhús, klædd hinu óhjákvæmilega bárujárni sem mundi sóma sér í skjaldarmerki lýðveldisins: flattur þorskur á gráu bárujárni. Eitt húsanna sker sig þó úr, háreist hús úr timbri grænmálað og skartar nekt sinni mitt í þessu bárujárni öllu. Hús klædd bárujárni hafa alltaf minnt mig á stofumublur sem húsmæðurnar hafa breitt yfir á daginn þegar engin hætta er á gestum en því meiri á sólskini.
Þar koma saman tvær götur, mjóar, þar sem þær koma hvor á aðra verður stórt opið svæði og grænmálaða timburhús Islands Handel sem nú er í eigu hreppsins trónir fyrir enda þessa svæðis eins og rósinborgarhöll við tigið torg. Hún frú Jónína Hermanns sem enn verslar með brjóstsykur og smjörlíki í húsi föður síns heitins, kallar þetta svæði Kauptorgið; aðrir sem ég talaði við kannast ekki við það nafn. Og það er einmitt þarna á Kauptorginu sem hann stendur Internationalinn með brostnu augun sem ég sagði frá áðan, eins og á torgum erlendis gnæfa minnismerki stólkonunga á prjónandi graðhestum og hafa sverð á lofti.